ÞINGVÍSITALA hlutabréfa lækkaði um tæplega 1% í viðskiptum í gær og er þetta ein mesta lækkun sem orðið hefur á vísitölunni á þessu ári. Þeir sérfræðingar á hlutabréfamarkaði sem Morgunblaðið ræddi við í gær telja þó að hér sé um eðlilega leiðréttingu að ræða eftir miklar hækkanir undangenginna vikna.
Þingvísitala hlutabréfa lækkaði um tæplega 1% í gær Hlutabréf í Marel

lækka um 15%

ÞINGVÍSITALA hlutabréfa lækkaði um tæplega 1% í viðskiptum í gær og er þetta ein mesta lækkun sem orðið hefur á vísitölunni á þessu ári. Þeir sérfræðingar á hlutabréfamarkaði sem Morgunblaðið ræddi við í gær telja þó að hér sé um eðlilega leiðréttingu að ræða eftir miklar hækkanir undangenginna vikna. Mikil viðskipti áttu sér stað í gær og námu heildarviðskipti dagsins á Verðbréfaþingi Íslands og Opna tilboðsmarkaðnum tæpum 87 milljónum króna.

Mesta einstaka lækkunin varð á gengi hlutabréfa í Marel en gengi bréfanna lækkaði um rúm 15% í viðskiptum í gær. Þetta er annan daginn í röð sem gengi hlutabréfa í Marel lækkar verulega en á fimmtudag lækkaði gengið um 9%. Gengi bréfanna hefur því lækkað um 23% á tveimur dögum, var 11,01 við lokun í gær en var hæst 14,30 í þessari viku. Þrátt fyrir lækkun undangenginna daga er gengi bréfanna 142% hærra en það var í byrjun þessa árs.

Hlutabréf fleiri félaga lækkuðu í verði í gær. Þannig lækkuðu hlutabréf m.a. í Jarðborunum, Þróunarfélagi Íslands, Eimskip og Síldarvinnslunni hf. Gengi hlutabréfa í Jarðborunum lækkaði um 6,25% í 3,0 en lækkanir í öðrum félögum urðu minni.

Viðmælendur blaðsins á verðbréfamarkaði í gær töldu að hér væri um eðlilega leiðréttingu að ræða eftir miklar hækkanir að undanförnu. Var þar meðal annars bent á að hvað mestar lækkanir hefðu orðið í Marel, enda hefði gengi bréfanna hækkað mest það sem af er þessu ári. Orðaði einn viðmælenda það svo að þessi lækkun væri einungis merki um heilbrigðan hlutabréfamarkað og sýndi mönnum að bréfin gætu einnig lækkað.

Mikil viðskipti í Plastprenti

Hlutabréf hækkuðu í verði í nokkrum félögum í gær og má þar nefna að hlutbréf í Íslenskum sjávarafurðum hækkuðu um 5,4% í gær og stóð gengi bréfanna í 4,85 við lokun. Mesta athygli vekja hins vegar mikil viðskipti með hlutabréf í Plastprenti. Í gær áttu sér stað viðskipti með hlutabréf í félaginu að söluvirði tæplega 31 milljón króna og hækkaði gengi þeirra um 5,3% í 6,0.