RÍKISSTJÓRN Íslands samþykkti á fundi sínum í gær að framlag ríkissjóðs til Súðavíkur vegna uppbyggingar þar eftir náttúruhamfarir á síðasta ári næmi 166 milljónum króna. Að sögn Ólafs Davíðssonar, ráðuneytisstjóra í forsætisráðuneytinu,

Súðavík fær 166

milljónir úr ríkissjóði

RÍKISSTJÓRN Íslands samþykkti á fundi sínum í gær að framlag ríkissjóðs til Súðavíkur vegna uppbyggingar þar eftir náttúruhamfarir á síðasta ári næmi 166 milljónum króna. Að sögn Ólafs Davíðssonar, ráðuneytisstjóra í forsætisráðuneytinu, samþykkti ríkisstjórnin strax eftir snjóflóðin í janúar í fyrra að greiða fyrir þeim framkvæmdum sem þyrfti að fara í til að endurreisa byggð í Súðavík, m.a. gatnagerð. Ríkissjóður veitti sveitarfélaginu bráðabirgðalán til að geta hafið framkvæmdir en þeim verður lokið á þessu ári.

Nú liggur kostnaður við þessar framkvæmdir fyrir og nemur hann að sögn Ólafs um 175 milljónum króna.

Á síðasta ári veitti Bjargráðasjóður 8,5 milljóna króna styrk til framkvæmdanna og verður það sem eftir stendur, eða um 166 milljónir króna, greitt úr ríkissjóði. Að sögn Ólafs verður leitað heimildar Alþingis á fjáraukalögum í haust fyrir fjárframlaginu.