LITLU mátti muna að knattspyrnumaðurinn snjalli frá Ítalíu Christian Panucci hefði verið farþegi í flugvélinni, sem sprakk í loft upp og hrapaði í hafið skammt undan strönd Long Island á miðvikudag.
Ferðatöskurnarbjörguðu lífi Panucci

LITLU mátti muna að knattspyrnumaðurinn snjalli frá Ítalíu Christian Panucci hefði verið farþegi í flugvélinni, sem sprakk í loft upp og hrapaði í hafið skammt undan strönd Long Island á miðvikudag.

Panucci átti að leika með landsliði Ítalíu á Ólympíuleikunum í Atlanta en varð að snúa heim vegna meiðsla og var honum ráðlagt að fljúga með Trans World-flugfélaginu til Parísar og taka þaðan tengiflug til Rómar. Það hugðist Panucci gera en farangur kappans týndist á John F. Kennedy-flugvellinum í New York og varð það honum að öllum líkindum til bjargar því þegar hann fór til að tilkynna tapið var honum bent á, að hann gæti tekið flug með ítölsku flugfélagi beina leið til Mílanó síðar um daginn. Það gerði Panucci, sem nú er mjög sleginn yfir flugslysinu á miðvikudag þar sem 230 manns fórust, og segist hann þakka æðri máttarvöldum í huganum hverja einustu mínútu fyrir að vera enn á lífi.