KENYA-SLÉTTURNAR
Baldur Óskarsson þýddi
Plágan
að vætti halastjörnu og blæðandi
sjónbauga - hvar hegrar plægja himinbraut
og veraldir skjóta upp fána
vatnaþoka
um skínandi brjóstatinda, þornaðar
lindir. Slör. Bráðið silfur -
reyk leggur niður um rásir
gullgerðarsólar ... grá smyrsl vatna í dögun?
Í þá dögun
voru augu hennar odduð geislum kvöldsólar
árstíðin stöngluð í hörundi skrældu, og þó -
hulduvatnið
Það mildar
og sumarlangt hafði hún mjólkað
rauð kvöldspjótin og sogið eitur úr reyr
í hirðingjans flautu. - Slétturnar
lyfta sér enn á farfuglavængjum
og kaktusinn blómgast
hinum vökula erni.
Wole Soyinka er skáld frá Nígeríu, fæddur 1934. Hann skrifar á ensku,
er þekktasta leikskáld af afrískum uppruna og hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels 1986.