Á LIÐNUM vikum og mánuðum hafa forsvarsmenn Ferðafélags Íslands með Pál Sigurðsson, forseta félagsins, í fararbroddi, miðlað margskonar villandi og stundum röngum upplýsingum í fjölmiðla um skipulagsvinnu á Hverarvöllum. Er svo komið að sá sem ritar forystugrein Morgunblaðsins 7. júlí sl. byggir að hluta til á þeim upplýsingum.

Er umhverfisslys

á Hveravöllum framundan?

Eða er við fortíðarvanda að etja?

Er ekki kominn tími til, spyr Ófeigur Gestsson, að tengja sama varðveizlu Hveravallasvæðis og hagsmuni ferðaþjónustunnar. Á LIÐNUM vikum og mánuðum hafa forsvarsmenn Ferðafélags Íslands með Pál Sigurðsson, forseta félagsins, í fararbroddi, miðlað margskonar villandi og stundum röngum upplýsingum í fjölmiðla um skipulagsvinnu á Hverarvöllum. Er svo komið að sá sem ritar forystugrein Morgunblaðsins 7. júlí sl. byggir að hluta til á þeim upplýsingum. Við lestur greinarinnar flaug um hugann að í þriðja ríkinu var svo oft og lengi hamrað á lyginni að einn góðan veðurdag stóðu menn frammi fyrir því að hafa tekið hana sem sannleika. Greinar Páls Sigurðssonar t.d. 9. og 10. júlí eru því miður fullar af endurteknum fullyrðingum, sem ég vil skilgreina sem gáleysislega meðferð á sannleikanum. Útilokað er að rekja lið fyrir lið rangfærslur vegna fjölda þeirra. Ég nefni þrjú dæmi. 9. júlí segir Páll í Morgunblaðinu: "Hið staðfesta aðalskipulag gerir m.a. ráð fyrir því, að meginhluti þess einfalda en traustbyggða húsnæðis..." 31.10. 1994 segir hann: "Nýi skálin er ekkert sérlega vandaður..."

9. júlí segir hann: "Allt að 900 fm að gólffleti." Hann á sjálfur að hafa í höndum blað um áætlaða rýmisþörf upp á 610 fm. 9. júlí segir hann: "rekstur þessa hótels", þó svo hann viti að aðeins er um látlausan gistiskála að ræða en ekki hótel sem er allt annar hlutur og honum fullkunnugt um það.

Sú mynd sem forseti Ferðafélags Íslands hefur verið að draga upp fyrir okkur lesendur Morgunblaðsins er sú að Ferðafélagið sé hinn snjóhvíti saklausi engill en íbúar Svínavatnshrepps í Austur-Húnavatnssýslu af hinu vonda, ákveðnir að gera Hveravöllum og Ferðafélags Íslands allt hið versta. Undirritaður er áhorfandi að þessum ljóta leik og býsna kunnugur á Hveravöllum í mörg ár.

Það er ekki ætlunin að taka þátt í blaðaskrifum í æsifréttastíl. Það er hins vegar útilokað að sitja þegjandi, dag eftir dag, þegar forseti Ferðafélags Íslands reynir með villandi skrifum og ummælum að telja þjóðinni trú um að allt sé í hinu besta lagi á Hveravöllum. Jafnframt að vondir menn, illgjarnir og heimskir hér nyrðra, ætli sér að eyðileggja Hveravallasvæðið.

Ábyrgir greinarhöfundar og leiðaraskrifarar eru hér með hvattir til að kynna sér núverandi ástand Hveravalla og hverjar tillögur eru uppi að bæta um betur. Það er hægt. Það er hins vegar sérstakt rannsóknarefni að komast að því hvers vegna forseti Ferðafélags Íslands berst um á hæl og hnakka gegn úrbótum fyrir staðinn og ferðamenn og lætur frá sér þá fáránlegu fullyrðingu að úrbætur séu áfall fyrir náttúruverndarmenn og áhugamenn um vistvæna ferðamennsku!

Er ekki tímabært að horfast í augu við stöðu mála á Hveravöllum og bæta um betur á meðan það er hægt?

Er ekki skynsamlegt að setja sig inn í stöðu mála og hverjar tillögur eru um vernd og þjónustu næsta skipulagstímabil?

Hér skulu nefnd örfá atriði til sögunnar.

Ofan í Heimahver/Heimilshver hefur verið settur pottofn og tengdar við hann lagnir til að hita upp húsnæði. Þetta rusl verður að hverfa. (Málefni Veðurstofu Íslands.)

Þessi hver er djásn, óvenju tær og þarf að tengjast með göngubrú við brýr sem Náttúruverndarráð lét gera um þekktustu hveri svæðisins.

Útbúið hefur verið bílastæði við hverasvæðið. Í það hefur verið borið rykbindiefni. Á veturna rennur efnið ásamt ofaníburðinum yfir núverandi tjaldstæði. Þess vegna er gróður þar á undanhaldi.

Ferðafélag Íslands hefur dælt mannasaur og öðrum úrgangi úr rotþróm yfir mela ekki langt frá ferðamannasvæðinu, þessar rotþrær eru ekki í samræmi við reglugerð og meðferð úrgangs forkastanleg.

Sjónmengun vegna margskonar bygginga á hverasvæðinu er óviðunandi og óþörf. Það er eins og skúrum hafi rignt óskipulega niður frá ýmsum tímaskeiðum. Meginhluta þeirra verður að færa af friðaða svæðinu, í samræmi við nútíma sjónarmið um verndun friðlýstra svæða.

Forsvarsmenn Ferðafélags Íslands hafa með eigin tillögum um úrbætur lýst þörfum svæðisins fyrir húsnæði. Tillögur þessar eru í meginatriðum samhljóða þeim tillögum sem fram koma í drögum að deiliskipulagi sveitarfélagsins; að í einu húsi, um 600 fm, megi koma fyrir aðstöðu fyrir þá starfsemi sem halda þarf á Hveravöllum. Þá er ekki meðtalin aðstaða Veðurstofu Íslands. Það er ótrúleg ósvífni að halda því fram að fyrirhugað sé að þekja Hveravelli með sjoppu, gistirými og annarri þjónustuaðstöðu af stærstu gerð.

Hvergi hefur komið fram að reka eigi Ferðafélag Íslands frá Hveravöllum, nema frá þeim Ferðafélagsmönnum sjálfum. Þar fer forsetinn fremstur í flokki.

Með opnun Kjalvegar fyrir allar bifreiðar, yfir sumarmánuðina, hefur álag á Hveravelli stóraukist og ekki lengur hömlur á hverjir koma á Hveravelli. Ferðafélag Íslands hefur í áraraðir innheimt gjald af ferðafólki sem staldrar þar við. Hefur félagið því skyldur við það og verður að uppfylla lágmarkskröfur um upplýsingar til ferðafólks, hlýða reglum um brunavarnir, virða heilbrigðisreglugerð og vinna eftir ákvæðum byggingareglugerðar. Ekkert af þessu hefur verið gert og er félaginu til skammar . Það virðist sem forsvarsmenn félagsins telji það utan og ofan við lög og rétt í þessu landi. Ef Ferðafélagið er ekki tilbúið til samstarfs um endurbætur í samræmi við nútímakröfur, lög og reglugerðir, verður það að víkja. Ofstopafullar blaðagreinar, yfirlýsingar í fjölmiðlum, hótanir um málaferli og fleira, geta auðvitað dregið og e.t.v. komið í veg fyrir að Hveravellir fái nauðsynlega vernd og allt fyrirkomulag fyrir ferðalanga verði áfram óviðunandi. Ég spyr ykkur, forsvarsmenn Ferðafélags Íslands, er ekki orðið tímabært að taka lúkur (orðfæri Páls) frá augum og eyrum og horfast í augu við nútímann og segja það sama við fjölmiðla og þið hafið sagt við þá sem vinna að tillögugerð um úrbætur?

Þegar hreppsnefnd Svínvatnshrepps tók þá ákvörðun fyrir nokkrum árum að láta vinna aðalskipulag fyrir sveitarfélagið og í framhaldi af því deiliskipulag fyrir Hveravelli var tekin ákvörðun um að ráðstafa verulegu fé til athugana og rannsókna í þágu Hveravalla. Þetta var gert til að vernda Hveravelli en jafnframt að ferðamenn geti átt þar ánægjustundir. Það er virðingarvert. Forseti Ferðafélags Íslands og fleiri, hafa valið þá leið um sinn að hafa allt á hornum sér og horfa fram hjá því sem skiptir mestu máli. Er ekki kominn tími til, eins og segir í sönglagatextanum norðlenska - Er ekki kominn tími til að tengja - að vinna sameiginlega að hagsmunum Hveravallasvæðisins og ferðamanna?

Höfundur er ferðamálafulltrúi Austur-Húnavatnssýslu.

Ófeigur

Gestsson