HILDIGUNNUR Halldórsdóttir fiðluleikari og Sólveig Anna Jónsdóttir píanóleikari leika á tónleikum á Listasumri á Akureyri í Deiglunni á morgun kl. 20.30 og á þriðjudagstónleikum í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar næstkomandi þriðjudag kl. 20.30. Á efnisskránni eru verk eftir W.A. Mozart, Anton Webern, Johannes Brahms og Johan Svendsen.
Sumir fara í golf aðrir halda tónleika

HILDIGUNNUR Halldórsdóttir fiðluleikari og Sólveig Anna Jónsdóttir píanóleikari leika á tónleikum á Listasumri á Akureyri í Deiglunni á morgun kl. 20.30 og á þriðjudagstónleikum í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar næstkomandi þriðjudag kl. 20.30. Á efnisskránni eru verk eftir W.A. Mozart, Anton Webern, Johannes Brahms og Johan Svendsen.

Hildigunnur og Sólveig léku fyrst saman á Reykhólum á Barðaströnd sumarið 1994 sem þátttakendur í Heilsubótardögum sem þar fara fram á hverju sumri. "Eftir það hófum við samstarf og æfðum reglulega allan síðasta vetur. Okkar samstarf er í raun tómstundastarf því við erum báðar uppteknar í öðru," sagði Sólveig Anna. "Sumir fara í golf á sumrin en við höldum tónleika," bætir Hildigunnur við.

Þetta eru fyrstu tónleikar þeirra saman og þær eru hæstánægðar með efnisskránna enda gera öll verkin báðum hljóðfærum jafnhátt undir höfði. "Sónata K.454 í B - dúr eftir Mozart er ein hans viðamesta fyrir þessa hljóðfærasamsetningu og þar er mikið jafnræði með hljóðfærunum. Webern er þekktur fyrir að segja sem mest með sem fæstum orðum og verk hans eru mörg mjög stutt. Þessi sem við spilum eru hálfgerð örverk og kallast fjórir þættir fyrir fiðlu og píanó op. 7. Þau taka samanlagt um fimm mínútur í flutningi. Þar kannar tónskáldið hin ýmsu blæbrigði hljóðfæranna til hins ítrasta og stíllinn er mjög ólíkur verkum hinna tónskáldanna. Sónata Brahms í G dúr op. 78 er mjög ljóðræn og rómantísk, samin upp úr tveimur sönglögum hans og verk Svendsens er hárómantískt," sögðu Sólveig og Hildigunnur um efnisskránna. Þær kváðust hafa skemmt sér vel við undirbúning tónleikanna og sögðu það nauðsynlegt að fá tækifæri til að flytja efnisskránna tvisvar enda liggi mikil undirbúningsvinna að baki.

Á þriðjudagstónleikunum munu þær aðeins leika þrjú af ofangreindum verkum. Rómansa op. 26 eftir Johan Svendsen verður aðeins leikin á tónleikunum á Akureyri.

Morgunblaðið/Golli HILDIGUNNUR Halldórsdóttir og Sólveig Anna Jónsdóttir.