JIMMY Chamberlin, trommari rokksveitarinnar Smashing Pumpkins, var rekinn á miðvikudag í kjölfar andláts hljómborðsleikarans Jonathan Melvoin. Jonathan spilaði með hljómsveitinni á tónleikum, þótt ekki væri hann fullgildur meðlimur. Melvoin lést af of stórum skammti heróíns fyrir viku, en hann hafði verið að neyta þessa banvæna eiturs ásamt Jimmy.
Trommari

Smashing Pumpkins rekinn

JIMMY Chamberlin, trommari rokksveitarinnar Smashing Pumpkins, var rekinn á miðvikudag í kjölfar andláts hljómborðsleikarans Jonathan Melvoin. Jonathan spilaði með hljómsveitinni á tónleikum, þótt ekki væri hann fullgildur meðlimur.

Melvoin lést af of stórum skammti heróíns fyrir viku, en hann hafði verið að neyta þessa banvæna eiturs ásamt Jimmy. Jimmy var handtekinn fyrir að hafa heróín undir höndum þegar dauðsfallið var uppgötvað.

"Okkur þykir fyrir því að þurfa að segja vinum okkar og aðdáendum að við höfum ákveðið að slíta sambandi við vin okkar og trommara Jimmy Chamberlin," sagði í yfirlýsingu sem liðsmenn sveitarinnar gáfu út. "Þetta kann að koma sumum á óvart. Sumum ekki. En þetta er okkur mikið áfall.

Í níu ár höfum við mátt lifa við baráttu Jimmys við þennan slæga sjúkdóm, eiturlyfja- og áfengisfíkn. Þessi sjúkdómur hefur nærri eyðilagt okkur. Við höfum ákveðið að halda áfram án hans og óskum honum alls hins besta," sagði einnig í yfirlýsingunni.

Núverandi meðlimir Smashing Pumpkins eru því: Billy Corgan söngvari og gítarleikari, D'arcy bassaleikkona og James Iha gítarleikari. Þeir hyggjast finna annan trommuleikara svo fljótt sem auðið er og halda áfram tónleikaferð sinni um Bandaríkin.

Hljómsveitin Smashing Pumpkins er ein vinsælasta rokksveit heims. Nýjasta plata hennar, "Mellon Collie and the Infinite Sadness", hefur selst í þremur milljónum eintaka og er meðal söluhæstu tvöfaldra platna allra tíma.

HLJÓMSVEITIN Smashing Pumpkins. Chamberlin er annar frá hægri.