MARGRÉT María Leifsdóttir útskrifaðist nýlega sem hljóðfærasmiður frá Newark and Sherwood Collage á Englandi. Námið tók þrjú ár en áður hafði hún numið í eitt ár í grunndeild tréiðna í Iðnskólanum í Reykjavík. Margrét sagðist hafa ákveðið að gerast hljóðfærasmiður 17 ára gömul en hugmyndin hafi fyrst kviknað þegar hún var 9 ára.
LAUK NÁMI Í HLJÓÐFÆRASMÍÐI FRÁ NEWARK AND SHERWOOD

Frænkur smiðsins léku

á hljóðfærin

MARGRÉT María Leifsdóttir útskrifaðist nýlega sem hljóðfærasmiður frá Newark and Sherwood Collage á Englandi. Námið tók þrjú ár en áður hafði hún numið í eitt ár í grunndeild tréiðna í Iðnskólanum í Reykjavík. Margrét sagðist hafa ákveðið að gerast hljóðfærasmiður 17 ára gömul en hugmyndin hafi fyrst kviknað þegar hún var 9 ára. Hún hóf nám í fiðluleik sjö ára að aldri og stundaði það í 14 ár. Hún sagði aðspurð að það væri æskilegt að hljóðfærasmiðir gætu leikið sjálfir á hljóðfæri en þó ekki nauðsynlegt. "Flestir skólafélagar mínir eru menntaðir hljóðfæraleikarar en einnig voru þó nokkrir smiðsmenntaðir. Það er ekki endilega nauðsynlegt fyrir hljóðfærasmið að hafa gott tóneyra en hann verður þó að geta greint á milli fagurra og ljótra tóna," sagði Margrét. Hún sagði að góður fiðlusmiður þyrfti einnig að hafa gott auga fyrir línum og bogum í smíðisgripnum og vera þolinmóður. "Þetta er gífurleg nákvæmnisvinna og öll mál eru upp á tíunda hluta úr millimetra. Ef eitthvað fer úrskeiðis er ekki um annað að ræða en að byrja aftur á byrjun."

Hún notar fiðlutegund eftir ítalska fiðlusmiðinn Antonio Stradivarius sem fyrirmynd að sinni smíð en þrátt fyrir það leynir hennar eigin stíll sér aldrei.

Var boðin vinna í Sviss

Hún hefur smíðað fimm hljóðfæri alls, selló, lágfiðlu og tvær fiðlur, auk þess sem hún var valin til að smíða barrokkfiðlu fyrir enska tónlistarskólann Royal Academy of Music. "Hljóðfæraumsjónarmaður skólans kom í skólann til okkar og valdi mig og fimm aðra úr 24 mann hópi til að smíða fiðlur fyrir skólann."

Margrét segist einkum munu einbeita sér að viðgerðum á næstunni og er á leið til Sviss í haust, þar sem henni var boðin vinna á hljóðfæraverkstæði. Hún segist ætla að afla sér reynslu erlendis en á von á að koma aftur heim, enda telur hún að verkefni séu næg hér á landi fyrir hljóðfærasmið. "Ef ekki er nóg að gera í viðgerðunum fer ég meira út í nýsmíði. Ef maður er bara í viðgerðum er lítill tími afgangs fyrir smíði og það er miður."

Í tilefni af námslokum Margrétar var efnt til tónleika á heimili foreldra hennar, þar sem frænkur hennar, þær Unnur María Ingólfsdóttir, Rut Ingólfsdóttir, Guðrún Hrund Harðardóttir og Inga Rós Ingólfsdóttir léku á hljóðfærin. Vinir og ættingjar Margrétar fjölmenntu á samkomuna, alls um 90 manns, og stóð hún í um þrjá klukkutíma. Samkoman var vel heppnuð og skemmtileg að sögn Margrétar og var tónlist leikin nær allan tímann.

Morgunblaðið/Þorkell MARGRÉT María Leifsdóttir, í miðið, fagnar leik frænkna sinna.

HLJÓÐFÆRIN sem Margrét smíðaði. Sú hvíta er prófstykkið en því þurfti að ljúka á innan við 200 klukkustundum. UNNUR María Ingólfsdóttir, Rut Ingólfsdóttir, Guðrún Hrund Harðardóttir og Inga Rós Ingólfsdóttir leika á hljóðfærin.