Í SÍÐASTA mánuði birtust í leiðurum DV skrif sem kunna að valda misskilningi og ranghugmyndum um tilgang og störf Tölvunefndar. Til að leiðrétta þessi skrif og í því skyni að gera fólki grein fyrir starfi Tölvunefndar, og hvað það er sem lögin fela henni að hafa eftirlit með, mun ég hér reyna að skýra með almennum orðum helstu sjónarmið sem liggja starfi Tölvunefndar til grundvallar.
Persónuvernd - sjálfsögð mannréttindi

Tölvunefnd reynir að koma í veg fyrir, segir Sigrún Jóhannesdóttir , að einstaklingurinn verði gegnsær hverjum sem er.

Í SÍÐASTA mánuði birtust í leiðurum DV skrif sem kunna að valda misskilningi og ranghugmyndum um tilgang og störf Tölvunefndar. Til að leiðrétta þessi skrif og í því skyni að gera fólki grein fyrir starfi Tölvunefndar, og hvað það er sem lögin fela henni að hafa eftirlit með, mun ég hér reyna að skýra með almennum orðum helstu sjónarmið sem liggja starfi Tölvunefndar til grundvallar.

Á hvaða grunni starfar Tölvunefnd?

Í stjórnarskrá Íslands er að finna ákvæði um grundvallarmannréttindi þegnanna. Þar er m.a. mælt fyrir um mannréttindi sem felast í því að njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Þá er Ísland aðili að ýmsum alþjóðasáttmálum sem hafa það að markmiði að vernda slík mannréttindi.

Í lögum um skráningu og meðferð persónuupplýsinga er kveðið nánar á um mannréttindi til friðhelgi einkalífs að því er meðferð skráðra upplýsinga varðar. Þessi lög hafa að geyma ákvæði sem eiga að tryggja skráðum aðilum vernd og kveða á um skyldu skráningaraðila. Er Tölvunefnd ætlað það hlutverk að hafa eftirlit með framkvæmd laganna. Tölvunefnd ber m.a. að tryggja einstaklingum vernd gegn því að persónuupplýsingar um þá séu skráðar án þeirra samþykkis og vernd gegn því að viðkvæmum einkalífsupplýsingum sé miðlað án þeirra vilja, s.s. í hagnaðarskyni.

Tölvunefnd starfar þannig eftir nákvæmum lagaramma og hefur eftir bestu getu reynt að tryggja að lögbundinna persónuverndarsjónarmiða sé gætt í allri meðferð persónuupplýsinga.

Markmið Tölvunefndar

Því var haldið fram í leiðara DV í síðasta mánuði að Tölvunefnd reyndi að stöðva nytsamar upplýsingar. Var fullyrt að nefndin væri skaðleg þar sem hún reyni að koma í veg fyrir að þjóðfélagið verði gagnsærra og auðskildara öllum.

Hér er um mikinn misskilning að ræða. Tölvunefnd reynir að koma í veg fyrir að einstaklingurinn verði gegnsær hverjum sem er en því fer fjarri að hún standi gegn því að þjóðfélagið verði gagnsætt öllum og auðskilið.

Gagnsætt þjóðfélag og auðskilið er í allra þágu og stóraukin upplýsingatækni getur þar komið að miklum notun. Augljósir eru kostir þess að tryggja lýðræði og jafnrétti með tilstilli upplýsingatækninnar, t.d. með því að upplýsingar verði öllum aðgengilegar án tillits til efnahags og búsetu. Hins vegar hljóta allir líka að sjá að á sama tíma og ný tækni býður upp á sífellt stórvirkari aðferðir við öflun, skráningu og miðlun upplýsinga eykst hættan á misnotkun persónuupplýsinga.

Framtíðin

Öðru hvoru hafa heyrst mótmælaraddir gegn starfi Tölvunefndar. Eru þar einkum á ferð fjölmiðlar og aðrir sem sjá sér fjárhagslegan ávinning í því að komast yfir og selja persónuupplýsingar um fólk. Viðbúið er að starf Tölvunefndar og annarra sem láta sig persónuvernd varða kunni að sæta auknum mótbyr í framtíðinni. Það er vegna þess að á sama tíma og stöðugt meiri upplýsingar liggja fyrir á tölvutæku formi minnkar kostnaður við að vinna úr þeim að sama skapi og jafnframt eykst getan til að misnota persónuupplýsingar. Á síðustu árum hefur fjölgað fyrirtækjum sem sérhæfa sig í að selja ýmiskonar persónuupplýsingar. Reynslan sýnir aukna misnotkun persónuupplýsinga og víða erlendis hefur víðtæk söfnun upplýsinga á grundvelli sálfræði og persónuleikaprófa ýtt undir slíka starfsemi. Dæmi eru um að fólki hafi, t.d. af hálfu lánveitenda, tryggingafyrirtækja og atvinnurekenda, verið gróflega mismunað vegna þess að misfarið hafi verið með viðkvæmar persónuupplýsingar um fólk.

Getur hver og einn gætt sín?

Í leiðara DV í síðasta mánuði var fullyrt að Tölvunefnd sé óþörf þar sem eðlilegra sé að hver og einn passi sjálfan sig og setji sér eigin umgengnisreglur. Að mínu mati er þetta álíka og að halda því fram að hætta megi löggæslu þar sem hver og einn beri ábyrgð á því sem á hans hlut sé gert.

Vissulegt er ákjósanlegt að hver og einn reyni að verjast að því marki sem hann sjálfur kýs og hefur tök á. Slíkt frumskógarlögmál getur hins vegar ekki orðið fullnægjandi lausn. Í fyrsta lagi vitum við að menn eru afar misvel í stakk búnir til að átta sig á nútímaupplýsingaumhverfi og bregðast við því. Þó fræðsla eigi að standa öllum til boða er ekki þar með sagt að allir geti sjálfkrafa nýtt sér hana. Mjög stór hópur fólks tekur ekki þátt í upplýsingasamfélaginu nema að litlu leyti. Meðan svo er ber Tölvunefnd að gæta hagsmuna þeirra sem minna mega sín gagnvart þeim sem kunna að færa sér upplýsingatækni nútímans í nyt.

Í öðru lagi er útilokað fyrir einstaklinginn að verja sig á öllum sviðum þó hann feginn vildi. Hugsum okkur mann sem vill verjast á eigin spýtur og koma í veg fyrir að einkalíf sitt verði kortlagt. Hann getur hætt að nota greiðslukort, hætt að nota Internetið, hætt að nota síma þar sem símtöl eru skráð o.s.frv., en öðru verður erfiðara að hætta. Verði maðurinn t.d. veikur þarf hann að leita til læknis. Læknirinn skráir ítarlegar upplýsingar um manninn og tekur úr honum blóðsýni. Maðurinn getur ekki séð fyrir hvort þessi gögn verði seinna notuð í allt öðrum tilgangi en var með töku þeirra í upphafi. Sýni fara í sýnabanka og verða e.t.v. seinna notuð til rannsókna á ýmsum sjúkdómum. Til eru erlend dæmi um að óviðkomandi aðilar hafi komist yfir slík rannsóknargögn þannig að til tjóns varð fyrir þá einstaklinga sem sýnin voru tekin úr. Hér kemur að Tölvunefnd að gæta hagsmuna þessa manns. Tölvunefnd hefur eftirlit með notkun sýna og annarra persónuupplýsinga vegna slíkra rannsókna og mælir oft fyrir um eyðingu persónuauðkenna af sýnum og öðrum rannsóknargögnum. Er þá jafnan fundin leið sem tryggir að tillit sé tekið til persónuverndar án þess að skaða vísindalegt gildi rannsóknar.

Að lokum við ég þó undirstrika mikilvægi þess að hver einstaklingur geti skilið breytt upplýsingaumhverfi og brugðist við á þann hátt sem hann kýs. Væri óneitanlega skemmtilegra að fá frá fjölmiðlum liðsinni við að skýra fyrir fólki nýjan upplýsingaheim, frekar en skrif sem villa fólki sýn.

Höfundur er framkvæmdastjóri Tölvunefndar.

Sigrún

Jóhannesdóttir