Laxamýri-ÞAÐ var mikið um að vera í mellöndunum vestan Laxár fyrir helgina en þar var saman kominn hópur ungs fólks frá Vinnuskóla Húsavíkur í þeim tilgangi að planta loðvíði og baunagrasi í uppgræðslusvæðið.
Unglingar planta loðvíði í mellönd inn af Skjálfanda

Laxamýri - ÞAÐ var mikið um að vera í mellöndunum vestan Laxár fyrir helgina en þar var saman kominn hópur ungs fólks frá Vinnuskóla Húsavíkur í þeim tilgangi að planta loðvíði og baunagrasi í uppgræðslusvæðið.

Sem kunnugt er hefur sandfok aukist á undanförnum árum norðan og vestan Aðaldalsflugvallar og mikið hefur verið rætt um aðgerðir til þess að auka gróðurþekju.

Að sögn Guðrúnar Láru Pálmadóttur fulltrúa Landgræðslunnar sem hefur kynnt sér aðstæður er nauðsynlegt að grípa til mun róttækari aðgerða enda flokkast svæðið undir rofsvæði fimm sem þýðir mjög mikið fok og rýrnun gróðurs. Nauðsynlegt sé að afla peninga til framkvæmda og best væri að semja við styrktaraðila t.d. fyrirtæki eða félagasamtök sem vildu taka að sér að fjármagna vernd þess og uppgræðslu. Þá skal geta þess að sandfok í Laxá ofan Æðarfossa hefur verið mikið vegna gróðureyðingarinnar og eyðilegging hrygningarstöðva og varphólma blasir við.

Á þessum gróðursetningardegi vinnuskólans var plantað 4000 loðvíðiplöntum og 800 baunagrösum og sagðist Guðrún Lára vonast til að hægt væri að fá fleiri aðila til þess að leggja málinu lið.

NEMENDUR Vinnuskóla Húsavíkur gáfu sér tíma til að setjast niður og hvíla sig frá gróðursetningunni.