JÓN B. G. Jónsson, yfirlæknir á Sjúkrahúsi Patreksfjarðar, segir það alrangt, sem fullyrt var í Morgunblaðinu í gær, að dæmi væru um að hann hafi fengið í einum mánuði yfirvinnugreiðslur sem samsvari því að hann hafi unnið yfirvinnu allan sólarhringinn alla daga mánaðarins.
Jón B. G. Jónsson, yfirlæknir á Patreksfirði um yfirvinnugreiðslur Fráleitar fullyrðingar

JÓN B. G. Jónsson, yfirlæknir á Sjúkrahúsi Patreksfjarðar, segir það alrangt, sem fullyrt var í Morgunblaðinu í gær, að dæmi væru um að hann hafi fengið í einum mánuði yfirvinnugreiðslur sem samsvari því að hann hafi unnið yfirvinnu allan sólarhringinn alla daga mánaðarins.

"Þær fullyrðingar sem fram koma í Morgunblaðinu um launagreiðslur til mín eru alrangar og ekki blaðinu sæmandi. Með þeim er vegið alvarlega að mannorði mínu, sem hlýtur að kalla á viðbrögð af minni hálfu. Að meðaltali eru yfirvinnutímar mínir 15-30 í mánuði. Það hefur að sjálfsögðu komið fyrir að þeir hafi verið fleiri sérstaklega þegar ég var eini læknirinn á svæðinu. En fullyrðingar um að ég hafi fengið yfirvinnugreiðslur sem samsvara því að ég hafi unnið yfirvinnu allan sólarhringinn alla daga mánaðarins eru fráleitar," sagði Jón.

Jón sagði að hann, eins og fjölmargir læknar á litlum sjúkrahúsum á landsbyggðinni, væri ráðinn til starfa af heilbrigðisráðuneytinu í fullt starf sem heilsugæslulæknir og hálft starf sem sjúkrahúslæknir. Hluti af starfinu væri að sinna bakvöktum og í samræmi við ráðningarsamninginn væri hann á bakvöktum bæði sem heilsugæslulæknir og sjúkrahúslæknir. Bakvaktagreiðslur væru ekki það sama og yfirvinnugreiðslur, sem sæist best á því að greiddar væru margfalt hærri upphæðir fyrir yfirvinnu en greiddar væru fyrir bakvaktir.

"Þetta fyrirkomulag tíðkast um allt land og er í samræmi við ráðningarsamning sem heilbrigðisráðuneytið hefur gert við mig. Ráðuneytið hefði að sjálfsögðu getað neitað því að ráða mig í 150% starf, en það gerði það ekki, heldur réði mig í 150% starf og greiðir mér laun í samræmi við kjarasamninga. Hér er því ekkert sem þarf að fela og á engan hátt staðið óeðlilega að málum," sagði Jón.

Jón sagði ennfremur rangt að hann hefði fengið greidda dagpeninga. Hann fengi greidda fæðispeninga í samræmi við reglur sem um það gilda. Dregið hefði verið úr greiðslu fæðispeninga til sín, en þær hefðu ekki verið afnumdar eins og fullyrt væri í frétt Morgunblaðsins.

Ath. ritst.

Fullyrðing Morgunblaðsins um launagreiðslur til yfirlæknisins byggjast á skýrslu, sem Sigfús Jónsson hefur tekið saman fyrir heilbrigðisráðuneytið, um rekstur Sjúkrahússins á Patreksfirði. Morgunblaðið leitaði samdægurs eftir viðhorfum yfirlæknisins, sem birtust í sömu grein og í beinu framhaldi af fyrrnefndri fullyrðingu. Það kann að vera álitaefni hvort rétt sé að umreikna bakvaktir yfir í yfirvinnugreiðslur.