RICHARD Holbrooke, sendimaður Bandaríkjastjórnar, knúði í gær Radovan Karadzic til að segja af sér sem leiðtogi Bosníu-Serba en honum tókst þó ekki að tryggja framsal hans til stríðsglæpadómstólsins í Haag.
Karadzic fer frá Harðlínu-

öflin enn

við völd

Belgrad, Sarajevo. Reuter.

RICHARD Holbrooke, sendimaður Bandaríkjastjórnar, knúði í gær Radovan Karadzic til að segja af sér sem leiðtogi Bosníu-Serba en honum tókst þó ekki að tryggja framsal hans til stríðsglæpadómstólsins í Haag.

Samkvæmt samkomulaginu við Karadzic verður Biljana Plavsic forseti Bosníu-Serba þar til nýr leiðtogi verður kjörinn í kosningunum 14. september. Aleksa Buha, utanríkisráðherra serbneska lýðveldisins, tekur við af Karadzic sem leiðtogi stjórnarflokksins. Stjórnarerindrekar í Belgrad sögðu að bandamenn Karadzic hefðu bæði tögl og hagldir í flokknum og stjórninni og herská aðskilnaðarstefna hans myndi halda velli.

Holbrooke sagði afsögnina mikilvægt skref til að greiða fyrir kosningum í Bosníu en kvaðst óánægður með að hafa ekki getað tryggt framsal Karadzic. Hann lýsti þeirri baráttu sem "langri og holóttri leið".

Vestræn ríki fögnuðu afsögn Karadzic en lögðu áherslu á að sækja þyrfti hann til saka fyrir stríðsglæpi. Jevgení Prímakov, utanríkisráðherra Rússlands, réð hins vegar Atlantshafsbandalaginu frá því að reyna að handtaka Karadzic þar sem það gæti stefnt kosningununum í Bosníu 14. september í hættu.

Spenna eykst

Yfirvöld á svæðum Bosníu-Serba, þar með talinn bosnísk-serbneski Rauði krossinn, neita þeim flóttamönnum um aðgang að mat og húsaskjóli sem hyggjast skrá sig sem kjósendur þar sem þeir bjuggu áður. Verst er ástandið í bæjum þar sem múslimar voru í meirihluta fyrir stríðið.

Þá hefur spenna á milli Bosníu- Króata og múslima aukist mjög að undanförnu og í gær handtóku þeir fyrrnefndu lögreglustjórann í bænum Jablanica en hann er múslimi og segja þeir hann grunaðan um stríðsglæpi. Múslimar urðu ókvæða við og handtóku þegar í stað sjö króatíska lögreglumenn. Löggæslumenn Sameinuðu þjóðanna mótmæltu þessum aðgerðum þegar í stað og voru sjömenningarnir látnir lausir í gær. Lögreglustjórinn var hins vegar enn í haldi í gærkvöldi.Mikilvægur áfangasigur/23