TALSMAÐUR bandarísku alríkislögreglunnar, FBI, sagði í gær að enn væri ekki ástæða til þess að hún tæki við rannsókn á sprengingunni sem varð um borð í breiðþotu bandaríska flugfélagsins TWA á miðvikudagskvöld og kostaði 230 manns lífið.
Ólíklegt að öll fórnarlömb sprengingarinnar í þotu TWA finnist Rannsókn miðast við að

um glæpamál sé að ræða

New York. Reuter.

TALSMAÐUR bandarísku alríkislögreglunnar, FBI, sagði í gær að enn væri ekki ástæða til þess að hún tæki við rannsókn á sprengingunni sem varð um borð í breiðþotu bandaríska flugfélagsins TWA á miðvikudagskvöld og kostaði 230 manns lífið. Kvaðst talsmaðurinn hvorki geta staðfest né vísað á bug tilgátum þess efnis að um hryðjuverk hefði verið að ræða en sagði að farið væri með rannsókn málsins eins og um glæpamál væri að ræða.

FBI sagði að áður en hægt væri að úrskurða um hvort um slys eða glæpsamlegt athæfi hefði verið að ræða, yrði að fara fram geysilega umfangsmikil rannsókn. Talsmaður lögreglunnar sagði að hún gæti tekið nokkra daga eða jafnvel vikur. Heimildarmenn innan alríkislögreglunnar hallast að því að hryðjuverk hafi grandað vélinni en talsmenn FBI aftaka með öllu að lýsa slíku opinberlega yfir.

Hvassviðri, mikill öldugangur og rigning tafði í gær leitar- og björgunarstarf á þeim slóðum þar sem brak úr þotunni er talið hafa fallið í sjóinn. Var búist við því að kafarar og sérútbúin leitarskip bandaríska flotans gætu hafið leit í dag að flug- og hljóðritum þotunnar, svonefndum svörtum kössum.

Ólíklegt að öll líkin finnist

Stjórnendur rannsóknarinnar á sprengingunni segja ólíklegt, að lík allra þeirra 230 sem fórust með þotunni finnist nokkru sinni. Fulltrúar Öryggisstofnunar samgöngumála (NTSB) og TWA-flugfélagsins, færðu vandamönnum þeirra sem fórust þessar óhugnanlegu fréttir á fundi með þeim, sem haldinn var í gistihúsi við Kennedy-flugvöllinn í gær.

Fundurinn var lokaður öðrum en nánustu ættingjum þeirra 230 sem fórust með TWA-þotunni. Sorgmæddir spurðu þeir einkum hvort lík allra fyndust og hvenær þeim yrði afhent lík ástvina sinna. Í gær höfðu aðeins fundist lík 104 sem um borð voru. Haft hefur verið eftir líkskoðurum, að ekkert bendi til þess að sprenging hafi orðið í sjálfum farþegaklefa þotunnar.

Í gær var þess freistað að afmarka svæðið þar sem brak úr þotunni hrapaði í hafið og finna stærstu flugvélarbrotin. Fulltrúi NTSB sagði að allt yrði gert til þess að ná sem mestu braki upp og finna sem flest fórnarlömb slyssins.Leitað að svörtum/15 Reuter BANDARÍSKA strandgæslan flytur kafara á leitarsvæðið undan ströndum Long Island. Vont veður var á svæðinu í gær, hvassviðri og rigning, og hamlaði það leit.