TOGARINN Klakkur frá Grundarfirði, sem verið hefur að veiðum í Smugunni að undanförnu, liggur nú fyrir utan Trömsö í Noregi með bilað spil og hefur skipinu verið meinað að koma að landi. Skipstjórinn, Jóhannes Þorvarðarson, óskaði eftir því að komast til hafnar svo hægt yrði að sinna viðgerðum,
Smuguveiðar Íslendinga í óþökk Norðmanna Klakkur fær ekki að leita hafnar

TOGARINN Klakkur frá Grundarfirði, sem verið hefur að veiðum í Smugunni að undanförnu, liggur nú fyrir utan Trömsö í Noregi með bilað spil og hefur skipinu verið meinað að koma að landi. Skipstjórinn, Jóhannes Þorvarðarson, óskaði eftir því að komast til hafnar svo hægt yrði að sinna viðgerðum, en norsk stjórnvöld neituðu skipinu um að fara inn fyrir fjögurra mílna landhelgismörkin síðdegis í gær. Útgerð Klakks, Fiskiðjan Skagfirðingur hf., hugðist senda iðnaðarmenn og varahluti frá Íslandi.

Eiður Guðnason, sendiherra Íslands í Noregi, sagði í samtali við Morgunblaðið í gærkvöld að skipstjórinn hefði í gærmorgun þegar hann hefði leitað eftir leyfi til að koma til hafnar, fengið jákvætt svar, en síðdegis þegar skipið var komið upp að fjögurra mílna mörkunum, hafi leyfið verið dregið til baka. "Ég hafði samband við norska utanríkisráðuneytið og varnarmálaráðuneytið og fékk þau svör að skipið fengi ekki að leggjast að bryggju vegna þess að það hefði verið að veiðum í Smugunni. Vísað var í reglur frá 23. desember 1994 sem heimila norskum yfirvöldum að meina erlendum skipum að koma til hafnar ef þau hafa verið að stunda veiðar, sem ekki eru þeim þóknanlegar."

Ingimar Jónsson, fjármálastjóri hjá Fiskiðjunni Skagfirðingi hf., sagði óvíst til hvaða ráða yrði gripið. "Við ætlum að sjá hvernig þetta mál klárast áður en við tökum ákvarðanir um framhaldið. Á sama tíma og þetta á sér stað, getur norski loðnuflotinn athafnað sig hér að vild. Hér hefur honum ekki verið neitað um neitt."