Á Þórshöfn á Langanesi stendur nú yfir dagskrá þar sem 150 ára afmælis verslunar á staðnum er minnst. Margrét Þóra Þórsdóttir kynnti sér dagskrána og ræddi við nokkra þá sem hafa undirbúið hátíðarhöldin.
Þórshafnarbúar minnast 150 ára afmælis verslunar á staðnum Þéttskipað í

hverju húsi

Á Þórshöfn á Langanesi stendur nú yfir dagskrá þar sem 150 ára afmælis verslunar á staðnum er minnst. Margrét Þóra Þórsdóttir kynnti sér dagskrána og ræddi við nokkra þá sem hafa undirbúið hátíðarhöldin.

HÖNDLAÐ við höfnina ­ saga verslunar á Þórshöfn í 150 ár, er yfirskrift viðamikillar dagskrár sem nú stendur yfir á Þórshöfn á Langanesi. Hún hófst í gær með opnun sýningar á verkum brottfluttra Langnesinga, þeirra Sveins Björnssonar, Rutar Rebekku Sigurjónsdóttur og Arnar Karlssonar auk Freyju Önundardóttur og þá var einnig opnuð sýning á gömlum ljósmyndum, minjagripum og handverki, nýju og gömlu, en sú sýning er haldin í samvinnu við Byggðasafnið á Kópaskeri. Sjónum verður einkum beint að gömlum verslunarháttum.

Hápunktur hátíðarinnar verður í dag, laugardag, en þá verður efnt til dagskrár á plani við Hraðfrystistöðina. Forseti Íslands, frú Vigdís Finnbogadóttir, kemur í heimsókn til Þórshafnar, en hún verður fyrst farþega til að lenda á nývígðum flugvelli við Þórshöfn. Halldór Blöndal, samgönguráðherra, vígir völlinn við hátíðlega athöfn kl. 10 í dag. Þetta er síðasta embættisferð Vigdísar út á landsbyggðina sem forseti.

Forseti Ísland flytur ávarp við höfnina kl. 13 í dag og síðan tekur við fjölbreytt skemmtidagskrá með söng og hljóðfæraslætti, götuleikhúsi, töframanni og ýmsu fleiru. Fyrirtæki á Þórshöfn bjóða til mikillar matarveislu við Hraðfrystistöðina og þá gefst kostur á að taka þátt í bryggjuveiði, sjóferðum og skoðunarferðum.

Fjöldi listamanna kemur fram

Hátíðardagskrá verður í félagsheimilinu Þórsveri kl. 18 í dag, en þar koma m.a. fram leikararnir Arnar Jónson og Helga Jónsdóttir, tónlistarmennirnir Áskell Másson, tónskáld, Anna Guðný Guðmundsdóttir, píanóleikari, Einar Kristján Einarsson, gítarleikari, Sigurður Ingvi Snorrason, klarinettuleikari og Þuríður Vilhjálmsdóttir, söngkona. Samkór Þórshafnar syngur og leikfélagið flytur leikritið "Ambrið" eftir Aðalbjörn Arngrímsson, en hann var afkastamikið leikskáld á Þórshöfn fyrr á öldinni.

Í kvöld verður dansleikur á plani Hraðfrystistöðvarinnar, þar sem hljómsveitin Herra Kílómetri leikur, götuleikhús verður á ferðinni og loks leikur hljómsveitin Tinna fram á rauða nótt.

Á sunnudag verður boðið upp á leiðsögn um gamla prestsetrið á Sauðanesi með Aðalsteini Maríussyni frá kl. 13, en sr. Ingimar Ingimarsson sóknarprestur messar í Sauðaneskirkju kl. 14. Hátíðardagskrá verður endurflutt í Þórsveri kl 16.

Vekur athygli á staðnum

Veðrið hefur leikið við Þórshafnarbúa síðustu daga og hafa þeir keppst við að koma þorpinu í hátíðarbúning; hús hafa verið máluð og garðar og opin svæði snyrt. "Verslunarafmælið sem við höldum nú upp á hefur margvíslega þýðingu fyrir Þórshafnarbúa," sagði Reinhard Reynisson sveitarstjóri. "Fólk hefur tekið duglega til hendinni og fegrað í kringum sig, en ekki síst held ég að það hafi áhrif á vitund manna sem hér búa. Við erum að minna okkur á að við byggjum á einhverjum grunni sem við eigum sameiginlegan. Auk þessa vekur afmæli af þessu tagi athygli á staðnum og því sem hér er verið að gera og það er jákvætt."

Hátíðin höfðar, að sögn sveitarstjórans, mest til þeirra sem eiga rætur eða tengsl við staðinn og fullvíst er að þéttskipað verður í hverju húsi á staðnum, auk þess sem tjöldum verður slegið upp á lóðum við hús í bænum. "Við gerum ráð fyrir að íbúatalan tvöfaldist að minnsta kosti nú um helgina," sagði Reinhard, en á Þórshöfn búa um 500 manns, og að Svalbarðshreppi meðtöldum, sem er á sama verslunarsvæði eru íbúarnir um 620 talsins.

B-planið aldrei til umræðu

Freyja Önundardóttir formaður afmælisnefndar sagði að undirbúningur hefði gengið vel og hann væri nú að skila sér. Allir sem til var leitað voru tilbúnir að leggja hönd á plóginn. "Við bjóðum upp á vandaða dagskrá og vonumst til að þessi hátíð verði lengi í minnum höfð," sagði Freyja. Hún, ásamt fleiri listamönnum sem ættir eiga að rekja á Langanes, sýnir í fiskverkahúsi niður við höfnina. "Við eru að sýna í húsakynnum þar sem dagsdaglega er verið að verka fisk. Við ákváðum fljótlega að nýta þau hús sem við höfum, þó svo hlutverk þeirra sé vanalega annað en að hýsa myndlistasýningar."

Veðrið hefur sitt að segja, en útlit er fyrir hið besta veður á norðausturhorni landsins um helgina og sagði Freyja það eiga sinn þátt í að fólk hefði streymt til Þórshafnar síðari hluta vikunnar. "B-planið hjá okkur, að flytja dagskrána inn í salthúsið, yrði veður vont, hefur eiginlega ekki verið til umræðu síðustu vikur, við vorum alla tíð sannfærð um að veðrið yrði gott."

Gott skipulag

Þórunn Sigurðardóttir sér um hátíðardagskrána, en hún sat á flötinni við félagsheimilið og var að útbúa leikmynd í leikritið "Ambrið" eftir Aðalbjörn Arngrímsson, afkastamikið leikskáld á Þórshöfn fyrr á öldinni, en það sýna félagar úr Leikfélagi Þórshafnar. "Það hefur verið afskaplega gaman að vinna að undirbúningi þessarar dagskrár. Það hefur verið einstaklega gott skipulag á hlutunum og því hefur verkið unnist vel," sagði Þórunn. "Þetta er mjög góður hópur, allir hafa hjálpast að svo að sem best megi til takast. Mér finnst dagskráin líka vel heppnuð, þarna koma fram listamenn sem ekki eru á ferðinni hér á hverjum degi í bland við heimamenn."

Ánægður með fisk- verkunarhúsið

"Ég ætla að sýna 15 myndir, sjávarmyndir og fantasíur og svo er ég með fjórar myndir í alveg nýjum stíl," sagði Sveinn Björnsson, sem var að hengja myndirnar sínar upp í fiskverkunarhúsinu, en hann er fæddur á Skálum á Langanesi árið 1925 og flutti burtu með fjölskyldu sinni sjö ára gamall. "Ég er mjög ánægður með þetta pláss, það hentar myndunum mínum vel. Ég átti alls ekki von á svona góðu húsi," sagði Sveinn.

Morgunblaðið/Margrét Þóra SVEINN Björnsson listmálari var að hengja upp myndirnar sínar í fiskverkunarhúsi í "mæjorkaveðrinu" á Þórshöfn.

HVARVETNA hafa menn verið að taka til hendinni í þorpinu í tilefni afmælisins en Reinhard Reynisson sveitarstjóri segir hátíðina hafa jákvæð áhrif.

ÞÓRUNN Sigurðardóttir að útbúa leikmyndina á flötinni við félagsheimilið.

FREYJA Önundardóttir formaður afmælisnefndar vonast til þess að hátíðin verði lengi í minnum höfð á Þórshöfn.

FÉLAGARNIR, Jónsi, Daníel, Hafþór, Arnþór, Gústaf og Ísak ætla að taka virkan þátt í afmælisdagskránni. "Það verður gaman að fylgjast með götuleikhúsinu, fara í götukörfubolta, síðan ætlum við auðvitað að vera með í stangveiðinni," sögðu þeir. Daníel kom úr Kópavogi til að vera með og Gústaf úr Reykjavík en hinir eru heimamenn.