ÞAÐ er Opera Nord sem staðið hefur að uppfærslunni á Fjórða söng Guðrúnar en hún er umfangsmesti viðburðurinn sem boðið verður upp á í Menningarborg Evrópu 1996. Uppsetningin mun kosta um átta milljónir danskra króna eða tæpar 90 milljónir íslenskra króna.
RAGNARÖK Fjórði söngur Guðrúnar er heiti á sviðsverki sem frumflutt veður í Kaupmannahöfn, þann 24. júlí næstkomandi. Öll tónlist verksins er samin af Hauki Tómassyni tónskáldi sem á frumsýningardaginn sjálfan mun þiggja bjartsýnisverðlaun Bröste. EINAR ÖRN GUNNARSSON ræddi við hann og Guðna Franzson aðstoðarmann tónskáldsins en einnig við Sverri Guðjónsson sem fer með eitt aðalhlutverkið. ÞAÐ er Opera Nord sem staðið hefur að uppfærslunni á Fjórða söng Guðrúnar en hún er umfangsmesti viðburðurinn sem boðið verður upp á í Menningarborg Evrópu 1996. Uppsetningin mun kosta um átta milljónir danskra króna eða tæpar 90 milljónir íslenskra króna. Sviðið er afar frumlegt, gömul, friðlýst skipakví á umráðasvæði danska sjóhersins við Holmen. Yrkisefnið er sótt til Eddukvæðanna, segir frá Guðrúnu Gjúkadóttur, ástum hennar og örlögum. Allt að 250 manns hafa starfað að undirbúningi sýningarinnar. Í uppfærslunni er farin óhefðbundin leið þar sem ólíkum listformum er teflt saman það er að segja óperu, leiklist og kvikmynd. Reyni að nýta hljómfall textans

En hvernig stendur á þátttöku Hauks Tómassonar tónskálds í þessari uppfærslu? "Louise Beck leikmyndahönnuður fékk þá hugmynd fyrir þremur árum síðan að setja upp verk í skipakvíinni. Hún sótti efni til Eddukvæða og þá í sögu Guðrúnar Gjúkadóttur. Ef til vill minnir kvíin á hlutskipti Eddukvæðanna sem eru að nokkru leyti gleymd og yfirgefin. Þegar hún hafði fundið söguna fannst henni viðeigandi að fá íslenskt tónskáld til að semja tónlist við hana. Hún hringdi í mig og spurði hvort ég hefði áhuga á að semja einhvers konar óperu. Ég ákvað að leyfa henni að heyra hvað ég hafði fengist við fram að því og sendi henni kassettu með upptöku af gömlum verkum. Louise er einstaklega ákveðin kona, er ekkert að draga hlutina og mætti til landsins nokkrum dögum síðar. Upp frá því höfum við hist á nokkurra mánaða fresti í tvö ár ásamt Lucy Baily leikstjóra og Peter Laugesen textahöfundi. Hópurinn hittist oft meðal annars í Kaupmannahöfn og Reykjavík og þá unnum við af kappi í eina til tvær vikur í senn. Með sýningunni höfum við reynt að flétta saman ólík listform sem eru leiklist, ópera og kvikmynd. Í verkinu er rakin ævi Guðrúnar Gjúkadóttur en frá henni er greint í fleiri en tíu eddukvæðanna. Kvæðin eru samin af mismunandi höfundum og því gætir ekki alltaf samræmis um atburðarrás, orsakir og afleiðingar. Hver höfundur bjó til sína útgáfu og það sem við erum að gera er að búa til okkar útgáfu. Þrjú af eddukvæðunum eru kölluð Guðrúnarkviður og við bættum þeirri fjórðu við. Með þessum fjórða söng breytum við þó ekki sögulokum né framvindu verksins. Í okkar útfærslu leggjum við áherslu á þá þætti sem við teljum að skipti máli fyrir nútímann." Hvernig var að semja tónlist við Eddukvæðin? "Það var mjög ánægjulegt. Textinn er markviss og laus við viðkvæmni. Stíllinn er skemmtilegur og ekki síður fannst mér hljómfallið sem býr í kvæðunum heillandi óreglulegt og hrjóstrugt. Ég reyni að nýta hljómfall textans á fjölbreyttan hátt; á köflum er textinn sunginn á lesrytma, annars staðar er tónlistarrytminn mislangsótt afsprengi bragarháttsins. Ég hafði lítið samið út frá texta áður en ég hóf að semja þetta verk. Texti býður upp á margvíslega möguleika og þegar unnið er út frá honum er lítil hætta á að verða uppiskroppa með hugmyndir. Þegar tónlist er þáttur af stærri heild þá hefur hún tilhneigingu til að verða að vissu marki flóknari en jafnframt kalla hinir þættirnir annað veifið fram á einfaldari lausnir. Þættir á borð við leikmynd, lýsingu og texta geta skýrt margt sem er óljóst í tónlistinni en það er stórt atriði að tónlistin drottni ekki yfir hinum þáttunum og þá reynir á að hafa tónlistina einfalda. Það er meira afstrakt að semja tónlist þar sem ekki er til að dreifa rituðu máli eða sögu."

Hvernig er hljómburðurinn í kvíinni? "Hann er harður en þurr, þannig að við þurfum að hafa hljóðnema á öllum flytjendum. Útfærslan er erfið þar sem leikarar og söngvarar færa sig til um kvíina en áhorfendur þurfa einnig að flytja sig þrisvar sinnum á þeim eina og hálfa tíma sem flutningur verksins tekur." Hefur komið til greina að gefa út hljómdisk með tónlist verksins? "Já, sú hugmynd hefur verið viðruð en það hefur ekki verið tími til að skipuleggja það út í þaula. Við komum líklega til með að hljóðrita tónlistina á sýningu enda er góður möguleiki á því þar sem allir flytjendur eru með hljóðnema. Danska ríkissjónvarpið er að gera heimildarmynd um uppfærsluna en það mun jafnframt sýna verkið eitthvað stytt síðar á árinu." Þú hlaust nú bjartsýnisverðlaun Bröste. Hvaða þýðingu hafa þau fyrir þig? "Það er auðvitað mikil hvatning að fá slík verðlaun. Það eru margir sem fengið hafa þetta á undan mér sem ég ber mikla virðingu fyrir. Verðlaunaféð gerir mér jafnframt kleift að sinna tónsmíðum óskipt um nokkurn tíma." Það þarf ákveðinn skammt af brjálæði Sverrir Guðjónsson kontratenór fer með eitt af aðalhlutverkunum í verkinu. "Mitt hlutverk er Knéfrödr sem er sendiboði Atla Húnakonungs en hann er í reynd sendiboði dauðans. Honum er ætlað að færa ákveðna aðila í hendur Atla sem hyggst drepa þá. Þeir fylgja Knéfrödri þó þeim sé öllum ljóst að með því eru örlög þeirra ráðin. Haukur fékk mér tónverkið fyrir löngu síðan og um leið fannst mér það áhrifamikið og fallegt. Að sumu leyti er erfitt að syngja þessa tónlist en að öðru leyti ekki. Hún hefur mikinn kraft í sér en í leiðinni býr hún yfir fínleika. Þetta er mögnuð blanda þessa tveggja. Það var nauðsynlegt að fá verkið í hendur löngu áður en æfingar byrjuðu því þessi tónlist er þess eðlis að ekki er nóg að syngja hana eins og hún kemur fyrir heldur þarf maður að fá hana í blóðið þannig að maður finni fyrir henni líkamlega. Það tekur langan tíma því fyrst um sinn er maður að læra ákveðin tónbil síðan að fá tilfinninguna fyrir texta og tónum. Maður þarf að hafa verk á borð við þetta hjá sér í marga mánuði, lesa það yfir hvað eftir annað og gefa sér tíma til að melta það. Ég kom til Kaupmannahafnar 17 júní og hóf strax æfingar. Leikurinn fer fram á dönsku en sungið er á íslensku. Nú, tíu dögum fyrir frumsýningu, þá er fimmtán manna hljómsveit að hefja samæfingar en meðlimir hennar hafa þegar haft verkið hjá sér um nokkurt skeið þannig að þeir hafa haft tækifæri á að æfa sig. Það er krefjandi að syngja mitt hlutverk annars vegar vegna þess hve rythmyskt það er og hve margvíslegra taktbreytinga gætir þar. Venjulegur áheyrandi gerir sér ef til vill ekki grein fyrir taktbreytingunum en maður þarf að kunna á þeim þúsund prósent skil til að þær gangi upp. Hins vegar gerir leikstjórinn Lucy Bailey miklar kröfur til leikrænnar tjáningar. Skipakvíin er stór og það býr í henni ólýsanlegur kraftur. Fjarlægðirnar eru rosalegar og rýmið býður upp á að mikla möguleika á að stilla saman blönduðum listformum. Áhorfendur sigla hingað á bát frá Nýhöfninni. Sýningar hefjast klukkan tíu að kvöldi og það þarf því að lýsa sviðið upp en finnskur ljósameistari Tarja Ervasti hefur lýsinguna með höndum. Ljós og kyndlar munu setja svip á kvíina. Áhorfendur eru til að byrja með neðst í kvíinni og sjá þegar Sigurður Fáfnisbani kemur í gegnum eldinn frá Brynhildi og vitjar Gjúkaættarinnar til að biðja um hönd Guðrúnar. Síðar færa áhorfendur sig ofar en tilfærsa þeirra er vel skipulögð og á að ganga hindrunarlaust fyrir sig. Undir lok sýningar þegar Guðrún stendur ein uppi með dóttur sína í fanginu þá er hleypt sjó inn í kvíina en það er tákn ragnaraka og þá er eins gott fyrir áhorfendur að vera komnir nokkuð ofarlega þannig að þeir lendi ekki í heimsslitunum. Þarna er náttúrulega á ferðinni rosaleg átakasaga með manndrápum á báða bóga, barnadrápi, óhugnaði og sorg. Guðrún hefnir sín til dæmis eitt sinn á Atla manni sínum með því að láta drepa syni þeirra unga og matreiðir þá fyrir hann. Hugmyndin að þessari uppsetningu er dálítið geggjuð og það þarf ákveðinn skammt af brjálæði til að framkvæma hana. Ég vil meina að sviðsverk af þessari gerð hafi ekki verið uppfært áður. Þarna er fléttað saman óperu og leikhúsverki með sérstökum hætti. Þess vegna eru óvænt vandamál stöðugt að skjóta upp kollinum. Fyrir bragðið er þetta mikið ævintýri. Uppsetningin er dýr, viðamikil og flókin. Það var ekki komið á hreint fyrr en um áramót hvort grundvöllur væri fyrir uppsetningunni. Þegar það varð ljóst var allt sett á fullt og hefur gífurlegt starf verið unnið á síðustu mánuðum. Það er spennandi að vinna við uppfærslu sem þessa. Mér finnst gaman að huga að sviðsvinnunni og raddvinnan er skemmtileg stúdía. Fólk áttar sig hvorki á því hve langan tíma tekur að vinna verk frá grunni né hversu mikils það krefst. Sjö leikarar og um það bil áttatíu statistar taka þátt í uppfærslunni. Við erum aðeins sex söngvarar og er ég eini íslenski söngvarinn. Raddsvið mitt hefur verið að ryðja sér nokkuð til rúms á undanförnum árum á norðurlöndum en það er nýlunda hér um slóðir að nota kotratenóra í nýrri tónlist. Fyrr á öldum skrifuðu tónskáldin heil ósköp fyrir kontratenóra en það má segja að þetta raddsvið hafi legið í þagnargildi um tveggja alda skeið en hefur rutt sér braut á nýjan leik í tengslum við vaxandi áhuga á fyrri tíðar tónlist. Tónskáld nýtónlistar hafa sýnt kontratenórröddinni mikinn áhuga og hef ég orðið þeirrar ánægju aðnjótandi að fá að frumvinna og frumflytja fjölda tónverka á undanförnum árum. Ég held því fram að kontratenórraddsviðið sé sú rödd sem auðveldast er að skrumskæla og því mikilvægt að læra vel á þetta hljóðfæri frá grunni þannig að rödd, líkami og líf verði nánast ein heild." Ekki "hefðbundin nútímatónlist" Guðni Franzson aðstoðarmaður tónskáldsins segir að í verkinu hafi allt hljóð ákveðinn tilgang. "Þar sem hljómburður er lélegur í kvíinni þarf að magna upp sérhvert hljóð en því fylgja mörg tæknileg vandamál. Allir flytjendur eru með hljóðnema jafnframt því sem hljómur hvers hljóðfæris er styrktur. Frá sviðsmyndinni berast hljóð sem leggja þarf áherslu á en það er starf mitt að samræma öll þessi ólíku hljóð. Að semja tónverk á borð við þetta er með alstærstu verkefnum sem tónskáld getur lagt fyrir sig. Í upphafi var ætlunin að skrifa óperu en með tímanum snérist hún upp í allsherjar leikhús þar sem tónlistin er lögð til grundvallar. Hver mínúta í sýningunni er skipulögð út frá tónlist en inn á milli er hnýtt við samtölum og leiknum þáttum. Tónlistin er fögur, rytmisk og ljóðræn. Þarna er ekki á ferðinn það sem kallað hefur verið "hefðbundin nútímatónlist". Undanfarin ár hefur Haukur samið töluvert fyrir kammerhljómsveitir og náð góðum árangri á því sviði. Þetta er í fyrsta skipti sem hann skrifar að einhverju marki fyrir söngraddir. Hann hefur lagt mikla alúð við að skrifa fyrir hverja raddtegund þannig að söngvararnir hafa notið þess að syngja tónlistina auk þess sem hún hljómar sérlega vel." Ljósmynd/Pétur Gautur SVERRIR Guðjónsson, Haukur Tómasson og Guðni Franzson bera saman bækur sínar á æfingu.

SKIPAKVÍIN sem notuð er til uppfærslunnar. Sviðið er tíu metra fyrir neðan sjávarmál.