FRANSKA ríkisstjórnin er æf yfir þeirri ákvörðun Evrópuþingsins, annað árið í röð, að stytta þinghald sitt í Strassborg á næsta ári. Tillaga um að þingfundir í borginni yrðu ellefu í stað tólf var samþykkt með eins atkvæðis mun (269 atkvæðum gegn 268) fyrr í vikunni. Evrópuþingið starfar á þremur stöðum.
Frakkar

kæra fækk-

un funda

París, Strassborg. Reuter.

FRANSKA ríkisstjórnin er æf yfir þeirri ákvörðun Evrópuþingsins, annað árið í röð, að stytta þinghald sitt í Strassborg á næsta ári. Tillaga um að þingfundir í borginni yrðu ellefu í stað tólf var samþykkt með eins atkvæðis mun (269 atkvæðum gegn 268) fyrr í vikunni.

Evrópuþingið starfar á þremur stöðum. Í Strassborg á að halda tólf þingfundi á ári, sem standa í eina vinnuviku hver. Í Brussel - þar sem nýtt og glæsilegt þinghús hefur verið reist fyrir nokkra milljarða króna - eru haldnir nefndafundir og styttri þingfundir, sem standa í tvo daga. Loks er aðalskrifstofa þingsins í Lúxemborg.

Mörgum Evrópuþingmönnum þykir þetta fyrirkomulag fráleitt og eru leiðir á tíðum ferðalögum milli Brussel og Strassborgar. Þessi skipan mála er hins vegar málamiðlun, sem náðist fram í löngum og ströngum samningaviðræðum Evrópusambandsríkjanna árið 1992.

Þrýsti á rangan hnapp

Talsmaður franska utanríkisráðuneytisins segir ákvörðun þingsins stríða gegn samkomulaginu frá 1992 og að Evrópudómstólnum verði send kæra vegna málsins.

Það kaldhæðnislega í málinu er að úrslitin í atkvæðagreiðslunni réðust vegna mistaka fransks Evrópuþingmanns, Antoinette Fouque. Hún þrýsti á rangan hnapp er hún greiddi atkvæði og neitaði forseti þingsins að leyfa henni að leiðrétta mistökin.

ÞINGSALUR Evrópuþingsins í Strassborg.