LOÐNUVEIÐI er nú með skárra móti eftir fremur laka veiði að undanförnu. Loðnan er að losa sig við átu og er mun betra hráefni en áður. Gunnar Sverrisson, verksmiðjustjóri SR Mjöls á Seyðisfirði segir loðnuna átuminni og heillegri en fituinnihald hafi þó ekki batnað.
Átan í loðnunni minnkar

LOÐNUVEIÐI er nú með skárra móti eftir fremur laka veiði að undanförnu. Loðnan er að losa sig við átu og er mun betra hráefni en áður.

Gunnar Sverrisson, verksmiðjustjóri SR Mjöls á Seyðisfirði segir loðnuna átuminni og heillegri en fituinnihald hafi þó ekki batnað. "Við fengum að minnsta kosti ágæta loðnu úr Ísleifi VE en hann landaði hér í fyrrinótt hvað svo sem verður í næstu löndun," segir Gunnar.

Meiri næturveiði

Að sögn Erlings Pálssonar, stýrimanns á Víkingi AK, hefur verið ágætis veiði síðustu tvo sólarhringa en nú virðist vera meira um næturveiði og minna um að vera á daginn. "Loðnan er orðin nánast átulaus og því dreifir hún sér og torfurnar ekki nærri því eins stórar og áður. Við þurfum þess vegna að hafa meira fyrir þessu en áður. Nú ætti hún að einnig verða auðveldari í vinnslu og ekki eins viðkvæmt hráefni og þá er hægt að fara að keyra allt á fullt," sagði Erlingur en Víkingur AK var í gær á landleið með um 1250 tonn.

Loðnuflotinn er nú að veiðum um 20-30 mílum suður af miðlínu Íslands og Grænlands og að sögn Erlings fjöldi skipa á miðunum, langflest norsk. "Þeir eru nú ekki allir á veiðum í einu en mann grunar að þeir séu það of margir. Það er ekkert eftirlit haft með þeim, varðskipið kom og var þarna í tvo daga en fór svo heim," sagði Erlingur.

Í gærmorgun höfðu borist um 175 þúsund tonn af loðnu á land á vertíðinni, mest hjá SR Mjöli á Siglufirði eða tæp 22 þúsund tonn. Um 18 þúsund tonn voru komin á land hjá SR mjöli á Seyðisfirði og tðp 16 þúsund á Eskifirði.