ÞAÐ er hagstæðara að nota kreditkort í útlöndum en debetkort, ferðatékka eða seðla samkvæmt lauslegri könnun sem gerð var á Morgunblaðinu í vikunni. Sú niðurstaða er fengin með þeim fyrirvara að ekki verði mikil gengishækkun frá þeim tíma sem kortið er notað og til útskriftardags.
Hagstæðast að nota kredit-

kortið í útlöndum?

ÞAÐ er hagstæðara að nota kreditkort í útlöndum en debetkort, ferðatékka eða seðla samkvæmt lauslegri könnun sem gerð var á Morgunblaðinu í vikunni.

Sú niðurstaða er fengin með þeim fyrirvara að ekki verði mikil gengishækkun frá þeim tíma sem kortið er notað og til útskriftardags.

Líklega hefur þeim fækkað sem búa um gjaldeyri í lítinn léreftspoka og sauma við undirfatnað þegar farið er til útlanda. Þar koma til breyttir tímar því hægt er að borga beint með kredit- og debetkortum eða taka út fé með þeim í bönkum og hraðbönkum.

En er munurinn á verði mikill eftir því hvaða leið er valin?

Haft var samband við tvo banka og þeir spurðir um þjónustugjöld og gengi. Ekki voru allir bankar teknir með að þessu sinni heldur einungis haft samband við tvo til að fá samanburð. Þess má geta að hvorki bankar né sparisjóðir taka nú sérstakt þóknunargjald fyrir að skipta í erlenda mynt heldur er þóknunin í raun fólgin í þeim mun sem er á almennu gengi og seðlagengi. Seðlagengið er aðeins mismunandi eftir bönkum. Þá var einnig haft samband við bæði Visa- og Euro-kreditkortafyrirtækin.

Eins og sést í töflunni hér til hliðar var af handahófi miðað við gengi 17. júlí síðastliðinn en skýrt skal tekið fram að kreditkortafyrirtækin reikna ekki út upphæðina þann dag sem verslað er heldur útskriftardaginn, sem getur verið allt að 45 dögum eftir úttektina. Þá er hjá Visa ætíð tekið útskriftargjald af úttektum mánaðarins ef kortið er notað fyrir meira en 3.000 krónur, hvort sem það eru úttektir innanlands eða erlendis. Er það 60 krónur hjá Visa ef skuldfært er af reikningi á gjalddaga en 160 krónur ef greitt er með gíróseðli. Hjá Eurocard kostar 90 krónur að skuldfæra af reikningi en 135 krónur að greiða með gíróseðli.

Ekki er hægt að fá ferðatékka þegar farið er til Norðurlandanna en það er hægt sé t.d. verið að fara til Þýskalands. Yfirleitt er notað almennt gengi við sölu á ferðatékkum og tekin föst þóknun sem vegur þá minna ef um stórar fjárhæðir er að ræða. Mismunandi þjónustugjald er tekið fyrir að skipta ferðatékkum erlendis í seðla. Hægt er að fá ferðatékka endurgreidda ef þeir glatast.