Fátt virðist geta komið í veg fyrir að bandaríska ólympíuliðið í körfuknattleik, "Draumalið III" eins og það hefur verið nefnt, fagni sínum þriðja ólympíumeistaratitli í röð á leikunum í Atlanta, sem settir voru í nótt, og mun því baráttan milli hinna liðanna 11 í keppninni að öllum líkindum fyrst og fremst standa um silfrið.
KÖRFUKNATTLEIKUR "Draumalið III" nær öruggt með gullið

Slagurinn um silfrið

Fátt virðist geta komið í veg fyr ir að bandaríska ólympíuliðið í körfuknattleik, "Draumalið III" eins og það hefur verið nefnt, fagni sínum þriðja ólympíumeistaratitli í röð á leikunum í Atlanta, sem settir voru í nótt, og mun því baráttan milli hinna liðanna 11 í keppninni að öllum líkindum fyrst og fremst standa um silfrið.

"Draumaliðið" hefur nú leikið fimm æfingaleiki á undanförnum dögum fyrir leikana í Atlanta, gegn úrvali bandarísku háskólanna, Brasilíumönnum, Kínverjum, Grikkjum og Áströlum, og hafa NBA-stjörnurnar sigrað örugglega í þeim öllum ­ að undanskildum fyrsta leiknum þegar þær rétt mörðu sigur á ungu strákunum í háskólaúrvalinu 96:90.

Þær fjórar þjóðir, sem þegar hafa þurft að lúta í lægra haldi fyrir "draumaliðinu", eru reyndar ekki taldar líklegar til að blanda sér af mikilli alvöru í baráttuna um annað sætið á leikunum, en það eru hins vegar Júgóslavar, Litháar og Króatar, sem líklegastir eru taldir til afreka á eftir Bandaríkjamönnunum, en þessar þrjár þjóðir tefla allar fram leikmönnum úr NBA- deildinni.

Júgóslavarnir hafa í sínum herbúðum miðherjann Vlade Divac, sem nú nýlega gekk til liðs við Charlotte Hornets eftir að hafa leikið með Los Angeles Lakers undanfarin ár, og Predrag Danilovic hjá Miami Heat. Litháarnir stilla upp þeim Arvidas Sabonis hjá Portland Trail Blazers og Sarunas Marciulonis hjá Denver Nuggets og í röðum Króatanna eru ekki ófrægari menn en Dino Radja, Boston Celtics, Zan Tabak, Toronto Raptors, og Toni Kukoc, Chicago Bulls, sem reyndar hefur verið meiddur og verður hugsanlega ekki með á leikunum.

Það er því án nokkurs vafa von á hörkuspennandi viðureign þegar Króatar og Litháar mætast í dag, en eftir þann leik ætti e.t.v. að vera hægt að fara að spá í hvaða lið það verður, sem hreppa mun annað sætið á leikunum ef gengið er út frá því sem vísu að "draumaliðið" fagni sigri.

Það þarf þó að öllum líkindum að koma til kraftaverk, hinum liðunum 11 í hag, eigi bandaríska hraðlestin að fara út af sporinu, því "draumaliðið" hefur sýnt þvílíka yfirburði í leikjum sínum undanfarið að margir eru farnir að tala um að annað eins körfuknattleikslið hafi aldrei sést áður. En þrátt fyrir slík orð er víst óhætt að segja að bandaríska liðið í ár hafi ekki á að skipa eins stórum nöfnum og Michael Jordan, Magic Johnson og Larry Bird, sem allir léku í "draumaliðinu" á síðustu Ólympíuleikum, og Charles Barkley, sem einnig átti sæti í liðinu fyrir fjórum árum, fullyrðir að "draumaliðið" í ár sé ekki nærri því eins sterkt og liðið í Barcelona '92.

"Draumalið III" mun leika sinn fyrsta leik á Ólympíuleikunum í Atlanta gegn Argentínumönnum í dag og má búast við að þeir argentísku verði NBA-stjörnunum ekki mikil hindrun. Mun meiri barátta ætti hins vegar að verða í innbyrðis viðureignum hinna liðanna 11 í keppninni, en eins og Litháinn Arvidas Sabonis sagði fyrir leikana: ". . . hlýtur það að verða undarleg tilfinning að vera að keppa á stórmóti og gefa allt sem þú átt í leikina en vita samt innst inni að þú átt aldrei möguleika á betri árangri en öðru sætinu."

Í kvennakörfuknattleiknum er einnig búist við góðum árangri heimamanna, en það er þó mun líklegra að bandaríska kvennalandsliðið fái öllu meiri samkeppni en karlaliðið, því ólympíulið Brasilíu, Ástralíu og Rússlands þykja mjög öflug og til alls líkleg.

Reuter "Draumaliðið" á blaðamannafundi BANDARÍSKA körfuknattleikslandsliðið "Draumaliðið" mætti á blaðamannafund í Atlanta í gær, en liðið mætir Argentínu í fyrsta leik sínum í kvöld. Fremri röð frá vinstri: Mitch Richmond, Scottie Pippen, David Robinson, Lenny Wilkens, þjálfari, Anfernee Hardaway, Grant Hill og Charles Barcley. Efri röð frá vinstri (við borðið): Hakeem Olajuwon, Gary Payton, Shaquille O'Neal, John Stockton, Karl Malone og Reggi Miller.