"Ég bjóst aldrei við að það myndi reynast mér svo auðvelt sem raun ber vitni að ná inn á Ólympíuleikana," sagði tugþrautarkappinn Jón Arnar Magnússon m.a. í samtali við Ívar Benediktsson yfir kaffibolla fyrir skömmu. Þar segir hann einnig að það hafi ekki flögrað að sér þegar síðustu leikar voru, að hann yrði með á þeim næstu.
TUGÞRAUT Jón Arnar er fyrsti Íslendingurinn til að keppa í tugþraut síðan í Montreal 1976



Vona að ég gefi sjálfum

mér góða afmælisgjöf "Ég bjóst aldrei við að það myndi reynast mér svo auðvelt sem raun ber vitni að ná inn á Ólympíuleikana," sagði tugþrautarkappinn Jón Arnar Magnússon m.a. í samtali við Ívar Benediktsson yfir kaffibolla fyrir skömmu. Þar segir hann einnig að það hafi ekki flögrað að sér þegar síðustu leikar voru, að hann yrði með á þeim næstu.

Íslandsmethafinn í tugþraut, Jón Arnar Magnússon, UMSS, kepp ir í fyrsta sinn á Ólympíuleikum dagana 31. júlí og 1. ágúst. Íslendingar hafa ekki átt keppanda á Ólympíuleikum í þessari erfiðu grein síðan í Montreal árið 1976 að Elías Sveinsson tók þátt og þar áður Valbjörn Þorláksson í Tokýó árið 1964. Jón á ekki langan feril í greininni og í raun eru ekki nema tvö ár síðan hann hóf að æfa tugþraut að einhverju marki, en framfarirnar hafa verið miklar. Í fyrra tvíbætti hann Íslandsmetið sem er nú 8.247 stig en á þessu ári hefur hann mest náð 8.036 stigum.

Jón Arnar hefur æft af kostgæfni undir leiðsögn þjálfara síns, Gísla Sigurðssonar, og saman hafa þeir náð miklum árangri á stuttum tíma. Hann náði lágmarki íslensku Ólympíunefndarinnar þrisvar á síðasta ári og einu sinni í ár og hefur með frammistöðu sinni undirstrikað þá staðreynd að hann er einn fremsti íþróttamaður landsins og einhver sterkasti tugþrautarmaður heims. Óhöpp urðu þess valdandi að honum tókst ekki að vera í fremstu röð á síðasta heimsmeistaramóti í Gautaborg í fyrra þrátt fyrir góða byrjun. Þá náði hann þriðja sæti á síðasta Evrópumeistaramóti innanhúss í systurgrein tugþrautarinnar, sjöþraut, þrátt fyrir mótlæti í einni grein. Þegar Morgunblaðið hitti hann á dögunum var hann spurður fyrst hvort undirbúningur hans og Gísla þjálfara hefði verið eins og þeir hefðu helst kosið?

"Fyrir utan meiðsli, sem ég varð fyrir í æfingaferð í Bandaríkjunum í vor, má segja að allt hafi gengið upp. Engin grein hefur orðið útundan og ég hef verið í framför í mörgum greinum þrautarinnar. Við héldum að hugsanlega myndi ég hætta að taka framförum á einhverjum tímapunkti en sem betur fer hefur það ekki gerst. Meira að segja í fimmtán hundruð metra hlaupinu sem hefur verið minn Akkillesarhæll í langan tíma. Þar hef ég bætt mig verulega."

Líður best heima

Hefðir þú viljað vera meira erlendis við æfingar?

"Nei, það ég hefði ekki viljað, vegna þess að ég er svo mikill Íslendingur í mér, auk þess sem ég á fjölskyldu. Þá líður mér einnig best ef ég er mest í sama umhverfi. Það á ekki við mig að æfa lengi erlendis, það er í lagi í stuttan tíma. Upplagið í mér er þannig að mér líður best heima."

Voru það slæm meiðsli sem þú varðst fyrir úti í Bandaríkjunum í vor?

"Ég datt ofan í stokkinn í stangarstökkinu, þar sem stönginni er stungið áður en maður lyftir sér upp. Þá meiddist ég í ökklanum og hann hefur verið að plaga mig þess vegna en ég er að mestu orðinn góður nú."

Óhapp þitt í stangarstökkinu í æfingabúðunum og eins á HM í Gautaborg í fyrra; hafa þau gert þig ragari í þessari grein en ella?

"Þau hafa tvímælalaust gert það, auk þess sem ég varð fyrir því óláni síðastliðinn vetur að brjóta eina stöng. Þá kom upp hræðsla sem ég hef verið að yfirvinna. Það þýðir ekkert að vera að hugsa um hræðslu í stangarstökkinu. Maður dettur ekkert ofan í stokkinn nema fyrir klaufaskap. Ef stökkið er framkvæmt á réttan hátt er ekkert að óttast."

Er stangarstökkið kannski sú grein sem þú hefur átt í hvað mestum vandræðum með?

"Já, það má segja. Stangarstökk er mikil tæknigrein og það tekur mörg ár að verða góður stangarstökkvari. Það sem hefur fleytt mér áfram er að ég hef hækkað gripin og fengið stífari stangir og þannig komist yfir. En auðvitað verð ég að bæta tæknina og í henni höfum við verið að vinna."

Reiknað 40 stiga hita

Nú dvelur þú í Athens í Georgíu í tæpar fjórar víkur [2.-28.júlí] áður en leikarnir hefjast, hvernig verður þeim tíma varið?

"Tíminn fer í að venja sig við hitann og slípa sig til í greinunum, meira verður ekki gert. Uppbyggingunni er lokið er lokið. Hins vegar er loftslagsbreytingin mikil og þess vegna nauðsynlegt að gefa sér góðan tíma til að venjast henni og keppa og æfa við þær aðstæður. Þegar að tugþrautarkeppninni kemur í lok mánaðarins má reikna með allt að fjörutíu stiga hita og að rakinn verði nálægt hundrað prósentum og þessar aðstæður eiga eftir að verða mjög erfiðar öllum, ekki hvað síst í tugþrautinni þar sem við tökum þátt í fimm keppnisgreinum hvorn dag."

Hvernig hyggstu bregðast við þessum mikla hita og raka?

"Ég vona á þessum mánuði að mér takist að aðlagast þessum aðstæðum. Það er ekki nóg að vera í góðri æfingu til að framkvæma þrautina ef annað vantar og þess vegna auðvelt að fara illa með sig ef ekki er farið rétt að. Ég mun æfa allan tímann úti um miðjan dag þegar hitinn er mestur og sólin hæst á lofti. Lykilatriðið er hins vegar hvernig mér gengur við að æfa mig í vatnsdrykkju á þessu tíma."

Hugsa um hérðarsmóts

Fyrir utan vökvatap, hvað er það annað sem þú berð kvíðboga fyrir er á hólminn verður komið þann 31. júlí?

"Ég er ekki enn farinn að hugsa um það. Slíkt kemur ekkert upp fyrr en að taugarnar verða farnar að segja til sín fyrir fyrstu grein. Ætli Ólympíuleikarnir verði ekki eins og hver önnur keppni hjá mér og ég reyni að koma því inn í höfuðið að ég sé að fara til keppni á stóru héraðsmóti, staðráðinn í að gera mitt besta."

Í tugþrautarkeppni leikanna verða samankomnir allir þeir bestu í heiminum í þessari grein, þar á meðal þrír Bandaríkjamenn og einn Kanadamaður sem allir hafa farið yfir 8.600 stig í ár. Hvað heldur þú að muni ríða baggamuninn hjá þeim þegar allt kemur til alls?

"Ætli það verði ekki sá sem tekur keppninni hvað léttast, lætur umhverfið ekki hafa áhrif á sig. Einnig það að ef óvæntir hlutir komi uppá að láta þá ekki fara í taugarnar á sér, heldur láta slag standa og einbeita sér að hverri grein og taka henni eins og hún kemur fyrir. Bandaríkjamennirnir verða undir mikilli pressu heimamanna, þá sérstaklega heimsmethafinn, Dan O'Brian. Hann var ekki með í Barcelona fyrir fjórum árum, en er nú í mjög góðri æfingu og landar hans vonast eftir bæði gullverðlaunum og heimsmeti."

Hvernig tilfinning er það fyrir íslenskan sveitapilt að mæta þessum snáðum?

Aðalatriðið að þora

"Ég vonast til þess að það verði í góðu lagi. Ég er betri en margir af þessum mönnum í nokkrum greinum og hef í fullu tré við þá í flestum þeirra. Þarna verða kannski tíu menn sem eiga yfir 8.500 stig og ég er betri en margir þeirra í 100 metra hlaupi og langstökki. Í kúluvarpinu gæti ég skotið þeim ref fyrir rass á góðum degi, sömu sögu er að segja um 110 metra grindahlaupið og kringlukastið. Stangarstökkið er lakara hjá mér, spjótkastið er í framför og í 1.500 metra hlaupinu á ég að geta haldið í við þá. Aðalatriðið er bara að þora að fylgja þeim eftir."

Þú kemur ekki inn í Ólympíuþorpið fyrr en 28. júlí og keppnin hefst 31. júlí, hvernig stendur á því?

"Það hefur mörgum þótt óþægilegt að búa í þorpinu þar sem mikil spenna ríkir. Ég kem þangað tveimur dögum fyrr og fer strax að leikunum loknum. Fram til 28. verð ég í Athens í Georgíu í rólegheitum þar sem hægt er að loka fyrir allt ónæði."

Daginn sem þú kemur inn í þorpið átt þú afmæli, ekki satt, verður 27 ára?

"Rétt er það, ég á afmæli þennan dag en það verður að bíða fram yfir mánaðamót með að halda upp á það og að kvöldi 1. ágúst kemur væntanlega í ljós hver æfmælisgjöfin sem ég gef sjálfum mér verður. Hún verður vonandi góð eftir að þrautin rennur vel í gegn."

Vaknað klukkan fimm

Hvernig gengur keppnisdagur fyrir sig?

"Að morgni fyrri keppnisdags þarf ég að vakna klukkan fimm um morguninn og kem líkamanum í gang með súrmjólk, ávöxtum og vatni og síðan tekur upphitun og bið við þar til keppnin fer af stað klukkan níu. Eins og nærri má geta er talsverð spenna í loftinu fyrir fyrstu grein en hún minnkar þegar á líður. Margir keppendur þekkjast og á milli greina og meðan á keppni stendur leiðbeina menn oft hver öðrum. Þar liggur munur á tugþraut og mörgum öðrum greinum. Það bjargar miklu að það er engin óvild á milli manna þó þeir séu að bítast.

Síðari daginn hefst keppni einnig klukkan níu og þá er sama dagskrá um morguninn. Hvíldin er lítil á milli daganna því keppni lýkur seint og ekki gert ráð fyrir að ég verði kominn inn á herbergi mitt fyrr en upp úr klukkan tíu um kvöldið. Það tekur sinn tíma að komast í ró eftir átökin og á ný verður að vakna klukkan fimm að morgni. Ég reikna með að ná fimm til sex tíma hvíld í mesta lagi. Síðan gengur síðari dagur á líkan hátt fyrir sig og sá fyrri."

Hvað heldur þú að verði það síðasta sem Gísli þjálfari segi við þig áður en leiðir skilja og þú ferð út á völl og hann upp í áhorfendastúku til að fylgjast með árangri erfiðis ykkar beggja undanfarin misseri?

Íslandsmet gæfi "stuð"

"Það er erfitt að segja, ætli hann segi ekki, slappaðu af og hafðu gaman að þessu."

Þú ert sterkur 100 metra hlaupari og það er einmitt fyrsta grein á fyrri keppnisdegi og síðan tekur við langstökk þar sem þú ert einnig í fremstu röð. Svo ef allt gengur að óskum ættir þú að geta byrjað vel, en það er mikilvægt ekki satt?

"Það væri rosalega gaman að ná Íslandsmeti í 100 metra hlaupi í fyrstu grein. Það gæfi rosalegt "stuð". Ef hins vegar tvær til þrjár fyrstu greinarnar verða lélegar tel ég mig geta mætt því með því að berjast áfram. Ég tel mig hafa sýnt það að þrátt fyrir skakkaföll gefst ég ekki upp heldur reyni að bæta við í framhaldinu."

Á HM í fyrrasumar var byrjunin góð en síðan kom áfallið í 400 metra hlaupi er þú varst dæmdur úr leik. Á EM í Gautaborg í vetur hrasaðir þú í grindahlaupinu og það kostaði þig líklega gullið. Leynist engin hræðsla að þetta gangi heldur ekki upp núna og þú komist vandræðalaust í gegnum þrautina?

"Svona eru íþróttirnar og einhverjir verða að lenda í þessu. Stór þáttur í undirbúningnum er að bægja svona hugsun frá sér. Þetta getur þó alltaf komið fyrir en skiljanlega verður maður að koma til leiks, albúinn að taka þátt í gleði og sorg. Í tugþrautarkeppni í Eistlandi í vor gekk mér mjög vel í flestum greinum nema í kringlukasti sem fór meira og minna út um þúfur. Ég lét það ekki slá mig út af laginu heldur bætti við mig í þeim greinum sem eftir komu og útkoman varð ágæt."

Sauðkrækingar glaðir

Finnur þú fyrir miklum væntingum frá fólki heima fyrir Ólympíuleikana?

"Nei, ég finn ekki fyrir miklum væntingum. Fólk heima á Sauðárkróki gleðst frekar yfir því með mér að ég sé að fara á leikana, miðað við þær aðstæður sem ég hef haft til þess að æfa. Svipað finn ég hjá fólki almennt, það krefst þess ekki að ég vinni til verðlauna."

Hvaða væntingar gerir þú sjálfur til þín?

"Ég yrði mjög ánægður með 10. sætið í keppninni. Það tel ég ekki vera fráleitt markmið. Allt umfram það yrði stórkostlegt, þegar litið er til þess hversu margir sterkir keppndur verða þarna. Þetta eru tíu greinar sem keppt er í á tveimur dögum og það þarf allt að ganga upp til þess að ég verði í fremstu röð. Á því leikur enginn vafi."

Hvaða stigafjölda heldur þú að nægi til að verða í 10. sæti?

"Ætli það sé ekki í kringum 8.300 stig sem þyrfti til, jafnvel 8.400 stig. Það á ekki að vera neitt vandamál ef þrautin verður jöfn og ég fæ engan skell."

Nú þegar þú ert á meðal keppenda í Ólympíuleikum í fyrsta skipti, leitar hugurinn fjögur ár aftur í tímann. Þá æfðir þú ekki eins skipulega og í dag, hafðir jafnvel enn ekki ákveðið að reyna fyrir þér í tugþrautinni. Datt þér þá í hug að næst yrðir þú á meðal keppenda?

"Sú hugsun hvarflaði ekki að mér að ég keppti nokkurn tímann á Ólympíuleikum þó svo einhverjir væru að segja mér að ef ég hefði áhuga og sneri mér að æfingum af fullum krafti þá gæti ég komist í þau spor. Þegar ég snéri mér að æfingum af fullum krafti bjóst ég aldrei við að það myndi reynast mér svo auðvelt sem raun ber vitni að ná inn á Ólympíuleikana."

Takist þér að ná þeim árangri sem þú stefnir að, hverju breytir hann fyrir þig í framhaldinu við að æfa þína grein af þeim krafti sem þú hefur gert undanfarin tvö ár?

"Um það er erfitt að segja. Ég veit ekki hvað þeir aðilar sem hafa styrkt mig undanfarin ár vilja gera. Þeirra stuðningur hefur gert mér þetta kleift en nú eftir leikana eru flestir samningar lausir og ekkert verið rætt um framhaldið. Ég vil geta stundað mína íþrótt áfram, en um leið verð ég að hugleiða hvað minni fjölskyldu er fyrir bestu, ég er ekki einn á báti lengur."

Þarf að huga að vinnu

En það verður samt sem áður að vera líf eftir Ólympíuleikana?

"Auðvitað verður það að vera, ég hætti nú kannski ekki. En ég hef aðeins hugsað þessi mál lítilllega, hvað ég á að gera þegar leikunum lýkur. Á ég að finna mér vinnu og æfa eitthvað með henni eða hvað? En ég hefði gaman að því að geta einbeitt mér að tugþrautinni í einhvern tíma í viðbót, ég tala nú ekki um á meðan ég er ekki staðnaður í neinni grein. Það væri gaman að fullnýta krafta sína og fara á Ólympíuleika á ný eftir fjögur ár. Með niðurstöðu leikanna í huga verður farið yfir þessi mál öll að þeim loknum og vonandi kemur eitthvað gott út úr því."

Telur þú þig geta bætt þig verulega?

"Ég held að ég geti auðveldlega bætt mig í níu greinum þrautarinnar. Ég hef minnsta trú á að mér takist að bæta Íslandsmetið mitt í langstökki sem er átta metrar, í þraut. Það er eina greinin. Annarsstaðar á ég talsvert inni sem þýðir að ég get náð enn lengra, sleppi ég við alvarleg meiðsli."

Morgunblaðið/Kristinn Ingvarsson Með dagsskammt af vatni JÓN Arnar hefur búið sig af kostgæfni undir keppni á Ólympíuleikunum og einn liðurinn í því er að drekka nóg af vatni í hitanum og rakanum í Atlanta. Hér heldur hann á tæplega 19 lítra vantskút sem er rúmlega dagsskammtur hans fram yfir tugþrautarkeppnina sem stendur yfir 31. júlí - 1. ágúst.