Ragnheiður Haraldsdóttir

Þegar kveðja á hinstu kveðju góða vinkonu er ævisól hennar er enn þá hátt á lofti verður orðs vant. Í orðskrúði nútímans finnst varla nýtilegt orð. Magnleysið heltekur mann og örðugt veitist að skilja það sem gerðist. Einungis er hægt að reyna að lifa með því og takast á við það.

Ragnheiður Haraldsdóttir frá Melhaga í Gnúpverjahreppi er látin. Sorg, sár söknuður, hlýja og þakklæti fyllir huga minn þegar þessi harðduglega, vandvirka og góða kona er svo snögglega hrifin burt úr starfi sínu og lífi okkar. Það myndast mikið tóm í huga og lífi. Þakka þér, elsku Ragnheiður mín, fyrir allt sem þú gerðir fyrir mig og okkur öll í Hraunhólum. Þakka þér allar heimsóknirnar, hjálpsemi þína og höfðinglegar móttökur sem ég ávallt fékk hjá ykkur hjónum, og alltaf varst þú eitthvað að fást við í höndunum. Þú saumaðir föt, jafnt grófustu gallabuxur sem fínustu samkvæmiskjóla og allt þar á milli. Saumaðir út í myndir, handsaumaðir alls konar muni, breyttir gömlu í nýtt og allt var jafn vel gert, - alltaf. Ég dáðist oft að vandvirkni þinni og dugnaði og alltaf var haldið áfram og ekki síst í því að rétta einhverjum hjálparhönd, hlúa að einhverju, gleðja einhvern.

Þakka þér samstarfið í sláturhúsinu, þar var það eins og annars staðar, alltaf unnið hratt og vel, aldrei stansað. Ávallt varst þú glöð í sinni og stutt í glens og glettni og hafðir gaman af því að vera í góðra vina hópi og varst þá gjarnan hrókur alls fagnaðar. Það var gaman í fimmtugsafmælinu þínu. Þá var sungið og dansað af hjartans list.

Kæra vinkona. Þér var gefið að rækta vini þína. Alveg eins og þú lést þér annt um gróður jarðar þá hlúðir þú að sambandi vina og fjölskyldu. Megir þú nú uppskera þá hugsun er lá ævinlega að baki verkum þínum: Að hjálpa, leggja þitt af mörkum til að gleðja aðra, færa eitthvað til betri vegar. Og það var gert með einlægum huga.

En nú ertu farin í ferðina þar sem farmiði fæst bara aðra leiðina. Vegurinn til baka er ekki til. Okkar söknuður er sár og við minnumst þín sem konu er setti svip á umhverfi sitt, þann kraft hafðir þú til að bera. Það er erfið hugsun að vita til þess að þú sért ekki lengur á meðal okkar, og megi algóður Guð vernda þig í þínum nýju heimkynnum. Kæra fjölskylda, orð duga skammt, en við Biggi sendum ykkur öllum okkar innilegustu samúðarkveðjur. Guð verndi ykkur og styrki í þessari miklu sorg.

"Harmið mig ekki með tárum, þó að ég sé látinn. Hugsið ekki um dauðann með harmi og ótta. Ég er svo nærri að hvert eitt ykkar tár snertir mig og kvelur. En þegar þið hlæið og syrgið með glöðum huga lyftist sál mín upp í móti til ljóssins. Verið því glöð og þakklát fyrir allt sem lífið gefur og ég, þó látinn sé, tek þátt í gleði ykkar yfir lífinu." (Höf.ók.)

Blessuð sé minning hennar.

Kristjana Gestsdóttir,

Hraunhólum.