Ásgeir Sigurjónsson Þessi kveðjuorð eru nokkuð síðbúin, þar sem ég var stödd erlendis er ég frétti lát Ásgeirs móðurbróður míns. Það kom mér ekki á óvart, því hann var orðinn mjög lasinn.

Ási frændi minn var einstaklega örlátur maður, og ég var ein þeirra sem nutu góðs af því. Ég var ekki há í loftinu þegar hann fór að gefa mér gjafir, og því hélt hann áfram nánast til dauðadags. Fyrir það er mér sannarlega bæði ljúft og skylt að þakka. Ási frændi hafði sjálfur aldrei hátt um það sem hann gerði fyrir aðra, svo hógvær og hjartahlýr sem hann var. Ég veit að öllum sem kynntust honum þótti vænt um hann og virtu hann mikils. Blessuð sé minning hans. Nú er liðinn þessi þáttur þá er loksins komið kvöld, þeim er gott að sofna sáttur er séð hefur næstum heila öld. Guði nú fel ég frændann besta, fagna þar vinir sem von er gesta. Kæri vinur, nú hvíldu rótt, þér kveðju ég sendi ­ góða nótt.

Kolbrún Eiríksdóttir.