Ágústa Guðrún Magnúsdóttir

Okkur langar til að kveðja hana ömmu Gústu með nokkrum orðum. Það var alltaf gott og notalegt að koma til ömmu og afa á Bakkanum. Það var eins og að koma í sveit að heimsækja þau. Við fórum í fjárhúsið með afa að skoða kindurnar, og síðan var farið inn til ömmu og alltaf var hún með tilbúið bakkelsi fyrir okkur. Okkur er minnisstætt þegar við komum til ömmu og hún sat inni í þvottahúsi og bakaði flatkökur. Við höfðum mjög gaman af því að fylgjast með þegar hún bakaði flatkökurnar og síðan að bakstri loknum fengum við heitar flatkökur með smjöri.

Það eru margar minningar sem koma upp í hugann þegar við minnumst ömmu. Það var t.d. gaman þegar við fengum að gista á Bakkanum. Þá var útbúin flatsæng á gólfinu þar sem við öll systkinin, og jafnvel fleiri frændsystkin sem voru í heimsókn, lágum, töluðum saman og skemmtum okkur.

Við kveðjum ömmu Gústu með þakklæti fyrir allar góðu samverustundirnar.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

(V. Briem.) Vilborg, Ágústa María, Selma Björk, og Sigurmundur Páll.