ÁGÚSTA GUÐRÚN MAGNÚSDÓTTIR

Ágústa Guðrún Magnúsdóttir fæddist á Miðhúsum í Gnúpverjahreppi 28. ágúst 1905. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Ljósheimum á Selfossi 3. júlí síðastliðinn. Foreldrar hennar voru María Gunnarsdóttir og Magnús Árnason. Nokkurra vikna gömul fór hún í fóstur til hjónanna Ingunnar og Jóns í Geldingaholti í sama hreppi. Hún gekk í skóla á Eyrarbakka og var þá hjá föður sínum og stjúpu Sigurborgu Steingrímsdóttur. Ágústa átti eina hálfsystur, Þórunni, sem er látin, og þrjá hálfbræður, Steingrím og Ólaf, sem báðir eru látnir, og Guðmund. Hinn 21. maí 1927 giftist Ágústa Sigurmundi Guðjónssyni frá Skúmsstöðum á Eyrarbakka, f. 4. febrúar 1905, d. 18. maí 1985. Þau bjuggu í Einarshöfn á Eyrarbakka. Börn þeirra eru: 1) Guðrún, f. 19. ágúst 1928. Hennar sonur er Sigurmundur Arinbjörnsson. Hans kona er Hugborg Sigurðardóttir og eiga þau fjögur börn og tvö barnabörn. Eiginmaður Guðrúnar er Ólafur Örn Árnason. Börn þeirra eru Árdís, maki Bragi Guðbrandsson og eiga þau þrjú börn; Ágústa, maki Kjell Lundberg og eiga þau fjögur börn. Skildu; og Ómar Örn, sem er látinn. 2) Jón Ingi, kona Edda Björg Jónsdóttir. Börn þeirra eru: Vilborg, maki Ólafur Guðmundsson, þau eiga eitt barn; Ágústa María, maki Birgir Guðmundsson, þau eiga tvö börn; Selma Björk, maki Jóhann Sigþórsson; og Sigurmundur Páll. Árið 1987 fluttist Ágústa á Sólvelli, dvalarheimili aldraðra á Eyrarbakka. Útför hennar fer fram frá Eyrarbakkakirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 11.