Ágústa Guðrún Magnúsdóttir Að leiðarlokum langar mig að kveðja tengdamóður mína, Ágústu Guðrúnu Magnúsdóttur, með fáum línum.

Kveðja kallar fram söknuð og trega, en jafnframt þakklæti og gleði að hafa verið þeirrar gæfu aðnjótandi að kynnast þessari konu, ástríki hennar og umhyggju fyrir fjölskyldu sinni og ástvinum á liðnum árum.

Og ljúfar eru minningarnar frá fyrstu hjúskaparárum okkar, þegar börnin þráðu ekkert heitar en mega fara til ömmu og afa á Eyrarbakka. Engin tilhlökkun ríkari en vera þar um jólin og þótti svo sjálfsagt og velkomið að nánast varð föst regla fram eftir árum. Hvergi var jólamaturinn betri, allar terturnar og jólakökurnar og súkkulaðið. Og hvergi eins hátíðlegt að taka upp jólagjafirnar og finna frið og gleði jólanna.

Raunar fannst mér óhugsandi að jólahald okkar fyrstu árin yrði með öðrum hætti, því fóstursonur minn hann Sigurmundur var frá fæðingu hjá ömmu sinni og afa og mikils virði að systkinahópurinn nyti saman jólanna og samverunnar á hátíðastundum. Og þá fyrst var jólagleðin fullkomin þegar fjölskyldan frá Selfossi, þau Jón og Edda, gátu sameinast með börnin sín í jólaboði niðri á Bakka, eða við komið til þeirra upp að Selfossi.

Það var heldur ekki amalegt að eyða hlýjum sumardögum í leik í fjörunni eða á túninu hans afa vestur á Sandi og anda að sér ilminum úr heyinu, þegar verið var að aka því heim í hlöðu. Jafnvel dagarnir á haustin, þegar allir voru að taka upp kartöflur í stóra garðinum, höfðu sinn ákveðna lit og blæ, sem gefa minningunum birtu og gleði. Og svo var það tilhlökkunarefni að fá ömmu og afa í heimsókn í bæinn. Það var oftast á þjóðhátíðardaginn 17. júní, því þá voru ærnar bornar og komnar í sumarhaga. Og gengið var niður í Laugardalsgarðinn og blómin skoðuð og trjágarðurinn, og farið niður á Arnarhól og horft á hátíðarhöldin.

En þau voru bæði heimakær og því voru þetta stuttar heimsóknir. Það var helst í sláturtíðinni á haustin að amma kom og dvaldi nokkra daga. Hún var svo sérstök sláturgerðarkona að mér fannst óhugsandi annað en hún gerði með okkur slátrið og þannig var hún í allri matargerð. Þessar konur áttu reynslu og þekkingu eldri kynslóða í vitund sinni og kunnu að nýta alla hluti þó af litlum efnum væru.

En í skugganum leynist sorgin og fyrir ellefu árum missti Ágústa manninn sinn, hann Sigurmund. Og þá var hún sjálf um árabil búin að þjást af gláku og átti í erfiðleikum að komast um húsið og sinna heimilisverkum. Viðbrigðin urðu mikil þegar hans naut ekki lengur við til að liðsinna henni og hjálpa.

Hún treysti sér ekki til að vera ein í húsinu sínu og leiðin lá hingað suður á heimili okkar Guðrúnar. Augnlæknar á Landakoti fylgdust alltaf með henni og þar kom að hún var lögð inn á spítalann og aðgerð framkvæmd í von um bata. Hún tókst svo vel að hún gat með réttum gleraugum lesið á bók og unnið í höndum. Ég gleymi ekki þegar ég sótti hana á spítalann, hve glöð hún varð, þegar hún sá skýrt göturnar og húsin á leiðinni heim.

Þegar Sólvellir, dvalarheimili aldraðra, var opnað á Eyrarbakka í nóvember 1987, flutti hún þangað og þar var síðan heimili hennar. Þar dvöldu líka gamlar vinkonur hennar og nágrannar frá æskuárum, og þar skildu líka leiðir þeirra, og nú síðast leið ekki vika frá andláti æskuvinkonunnar Sigríðar Gunnarsdóttur í Prestshúsi og hennar. Þannig er gangur lífsins á langri ævi og þegar kraftar lífs og anda eru þrotnir verður ekki betra hlutskiptis óskað, en hvíldar í ró og friði.

Að lokum innilegar þakkir til starfsfólks Ljósheima á Selfossi fyrir alla þá alúð og hlýju sem það hefur sýnt Ágústu í hjúkrun og umhyggju síðustu stundirnar.

Ekki síður má þakka forstöðukonum og starfsfólki dvalarheimilisins á Sólvöllum á Eyrarbakka allt starf sem þar hefur verið unnið í þágu aldraðra frá upphafi. Guð blessi það og launi.

Blessuð sé minning þín, Ágústa mín.

Ólafur Örn Árnason.