RAGNAR

VALDIMARSSON

Ragnar Valdimarsson var fæddur í Bolungarvík 20. júní 1918. Hann lést á heimili sínu á Hólmavík 15. júlí síðastliðinn. Foreldrar hans voru Herdís Marísdóttir og Valdimar Samúelsson. Börn þeirra auk Ragnars voru Marín, Gísli, Jónas, Þuríður og Magnea. Hálfsmánaðar gamall var Ragnar tekinn í fóstur að Hvalsá í Steingrímsfirði af þeim hjónum Aðalheiði Aðalsteinsdóttur og Ormi Samúelssyni, en þau áttu þá fyrir fóstursoninn Benedikt, sem dó 1930, 15 ára gamall. Fósturbræður Ragnars eru Jón Ólafur og Halldór, synir Aðalheiðar og Orms, en Aðalheiður lést 1926. Fóstursystkini Ragnars, Aðalheiður Benedikta og Jón Ormar, eru börn Orms og seinni konu hans, Jóhönnu Daníelsdóttur. Árið 1937 gekk Ragnar að eiga Þuríði Guðmundsdóttur, hennar foreldrar voru Vigdís Guðmundsdóttir frá Bæ á Selströnd og Guðmundur Magnússon vitavörður. Börn Þuríðar og Ragnars eru Valdís, hennar maður Karl Loftsson bankaútibússtjóri í Mosfellsbæ, Aðalheiður, hennar maður Sigurður Vilhjálmsson bifreiðastjóri, Unnar skipstjóri á Hólmavík, hans kona Þorbjörg Stefánsdóttir símstöðvarstjóri, Vigdís, hennar maður Kjartan Jónsson skipstjóri, látinn, Jónas sjómaður, hans kona Alma Brynjólfsdóttir, Baldur rafverktaki á Akureyri, hans kona Þorgerður Fossdal, Guðmunda, hennar maður var Jóhann Skúlason, en þau slitu samvistum, Ölver rafverktaki á Hólmavík, hans kona Sunna Vermundardóttir, og Sigurbjörn starfsmaður Eimskips í Færeyjum, sambýliskona Frigerð. Barnabörn Þuríðar og Ragnars eru 27 og barnabarnabörnin 24. Útför Ragnars verður gerð frá Hólmavíkurkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 11.