Soffía Símonardóttir Okkur langar til að minnast ömmu okkar Soffíu Símonardóttur.

Þegar við systkinin setjumst niður til að minnast ömmu á Selfossi kemur fyrst fram í huga okkar hversu hjartahlý og glaðlynd amma okkar var og alltaf stutt í glens og gleði. Það má segja að heimili ömmu og afa á Selfossi hafi verið okkur systkinunum annað heimili á æskuárunum þar sem við dvöldum langtímum saman á sumarmánuðum, jólum og páskum.

Gestrisni ömmu og afa var með eindæmum, alltaf hlaðið borð af góðgæti og rómað af öllum þeim sem heimsóttu þau og má með sanni segja að amma væri ekki ánægð nema að allir færu vel mettir frá þeim.

Alltaf var mjög spennandi að fara austur á Selfoss til ömmu og afa, rútuferðir í allavega veðrum eða ferðalög með mjólkurbílnum. Það var ætíð áhyggjuefni hjá ömmu þegar hún vissi að við værum á leiðinni í snjókomu og slæmum veðrum.

Heimili ömmu og afa var hlýlegt og mjög snyrtilegt, amma var mikil blómakona og talaði alltaf við blómin meðan hún vökvaði og snyrti. Amma var listræn mjög og föndraði ýmsa muni sem hún vann úr þurrkuðum blómum og skeljum.

Skömmu eftir andlát afa fluttust systurnar amma og Áslaug, og með þeim vinkona þeirra, hún Lóa, að Háengi 10 þar sem þær bjuggu saman í tíu ár, en Áslaug lést 1987. Þá urðu þær tvær eftir, amma og Lóa. Síðan fór heilsu ömmu að hraka og þá var orðið erfiðara fyrir þær að búa einar. Árið 1990 fara þær til dvalar á Ljósheimum, hjúkrunarheimili aldraðra, þar sem amma dvaldi til æviloka.

Við viljum þakka þér, elsku amma, fyrir allar þær ógleymanlegu stundir sem við áttu saman og mun minning þín ávallt lifa með okkur.

Nú legg ég augun aftur,

ó, guð, þinn náðar kraftur

mín veri vörn í nótt.

Æ, virst mig að þér taka,

mér yfir láttu vaka

þinn engil, svo ég sofi rótt.

(Þýð. S. Egilsson) Guð geymi þig.

Við viljum þakka öllum þeim sem önnuðust ömmu okkar síðustu ár ævi hennar, Lóu sem var ætíð við hlið hennar, Gústu sem var henni ómetanleg hjálparhella og vinkona. Síðast en ekki síst viljum við þakka starfsfólki Ljósheima fyrir góða umönnun og hlýju.

Ársæll, Símon, Hildur Soffía, Kristín Hólmfríður

og Ragnheiður.