Bjarni Árnason Þá hefur náfrændi minn og góður vinur, Bjarni Árnason, fyrrum bóndi í Efri-Ey í Meðallandi, kvatt þetta jarðlíf í hárri elli. Fyrir fáum árum lagði Jón, bróðir hans, snögglega upp í sína hinztu för. Eru þá horfnir úr hópnum bræður, sem settu svip sinn á mannlíf í Meðallandi nær alla þessa öld. Minnast allir þeir, sem þeim kynntust, þeirra með miklum söknuði. Fyrstu kynni mín af þessum frændum ná allt frá bernsku minni, þegar þeir, eins og margir ungir menn austur þar, héldu hingað suður með sjó í útver, svo sem alsiða var á fyrstu áratugum þessarar aldar. Veitti mannmörgum sveitaheimilum svo sannarlega ekki af að geta drýgt tekjur með því að senda unga menn í þessar ferðir ár eftir ár.

Þeir Efri-Eyjarbræður komu ævinlega við hjá foreldrum mínum á Sjafnargötunni. Fylgdi þeim báðum mikill gáski og hressandi andblær, enda voru þeir miklir aufúsugestir á heimili okkar. Þeir færðu um leið föður mínum, sem ungur hafði flutzt úr Meðallandinu og sá það ævinlega í hillingum bernskuáranna, kærkomnar kveðjur og fréttir frá Sunnefu, systur hans, en móður þeirra bræðra.

Á þeim árum var Meðalland í raun í órafjarlægð frá höfuðstaðnum og því ekki svo auðvelt að komast þangað nema á hestum. Mun Meðallandið síðast allra sveita í V.-Skaftafellssýslu hafa komizt í öruggt vegasamband við þjóðvegakerfi landsins og það ekki fyrr en um miðja öldina. Má fara nærri um það, hvern svip þetta hefur sett bæði á mannlíf og búskaparhætti í Meðallandi. En nú er öldin önnur, og þeim fækkar óðum, sem muna þá oft erfiðu tíð.

Árið 1886 fluttust að Efri-Ey hjónin Guðrún Ólafsdóttir frá Eystri-Lyngum og Ormur Sverrisson frá Grímsstöðum, sem þá höfðu um nokkur ár búið á Grímsstöðum með Vilborgu Stígsdóttur, móður Orms. Á þeim árum og lengi eftir það gerði sandfok mikinn usla í þessari lágsveit og færði mörg býli að austanverðu smám saman í kaf. Af þeim sökum settust þau Guðrún og Ormur að í Efri-Ey með börn sín, sem þá voru orðin fjögur, þótt fyrir væru margir ábúendur og því landþröngt. En þá voru gerðar aðrar kröfur í íslenzku þjóðfélagi en nú á dögum. Síðan bættust þrjú börn við á næstu fimm árum.

Má fara nærri um það, hversu erfitt hefur verið að framfleyta sjö börnum og það í því margbýli, sem var í Uppbænum í Efri-Ey. Svo fór líka, að þeim Efri-Eyjarhjónum reyndist þetta ofviða. Þá var brugðið á það ráð að flytja sig um set með börn og bú og það ekki skemmra en út í Mýrdal. Þetta var árið 1905. Þarf engum getum að því að leiða, að slík ákvörðun hefur verið þungbær þeim hjónum, rúmlega á miðjum aldri. En taugin slitnaði aldrei við gömlu fæðingarsveitina, þótt aldrei ættu þau þangað afturkvæmt.

Sunnefa, dóttir þeirra, varð ein eftir í sveitinni og hóf stuttu síðar búskap í Efri-Ey með manni sínum, Árna Jónssyni frá Auðnum í sömu sveit. Þau eignuðust fimm börn, bræðurna tvo og svo þrjár systur. Eftir lifa nú í hárri elli þær Guðrún, sem alla ævi þjónaði heimili foreldra sinna og bræðra af mikilli trúmennsku, en dvelst nú í Klausturhólum á Kirkjubæjarklaustri, og Vilborg, sem býr ekkja með sonum sínum tveimur myndarbúi í Skammadal í Mýrdal.

Árni í Efri-Ey missti snemma heilsuna, svo að búskapur allur lenti á Sunnefu, frænku minni, og börnum hennar, einkum þó þegar fram í sótti á þeim bræðrum, Jóni og Bjarna, ásamt og með Guðrúnu, systur þeirra.

Svo kvæntust þeir bræður, og fljótlega settust þeir hvor að á sínum hluta Efri-Eyjar. Jón settist að í Miðbænum, sem svo var nefndur, en þaðan var kona hans, Ingibjörg Ingimundardóttir. Bjarni varð eftir í Uppbænum, þar sem afi okkar og amma hófu sinn búskap fyrir rúmri öld.

Bjarni kvæntist Guðbjörgu Runólfsdóttur frá Bakkakoti árið 1941. Bjuggu þau fyrst í sambýli við foreldra Bjarna, en þegar Árni lézt árið 1946, mun búskapurinn hafa færzt að mestu á herðar ungu hjónanna. Þar dvaldist svo Sunnefa í skjóli þeirra til æviloka 1976.

Þau Guðbjörg og Bjarni eignuðust fimm mannvænleg börn, sem öll eru löngu flogin úr hreiðrinu og hafa sett saman bú víðs vegar um land. Elzti sonurinn, Þórir, bjó lengst með foreldrum sínum í Efri- Ey, ókvæntur, og býr þar enn, einn sinna systkina.

Bjarni var um fjölmörg ár heilsulítill, og svo missti Guðbjörg einnig heilsuna og fékk heilablóðfall fyrir nokkrum árum. Hefur hún verið að mestu við rúmið síðan. Þetta varð til þess, að þau fluttust í heimili aldraðra, Klausturhóla á Kirkjubæjarklaustri. Þar hafa þau dvalizt síðustu árin og notið góðrar umönnunar á því vistlega heimili.

Nú er rúm hálf öld síðan ég sá Meðallandið fyrst og gisti hjá frændfólki mínu í Efri-Ey. Frá þeim tíma hefur samband mitt og míns fólks aldrei rofnað við þetta ágæta fólk. Er vissulega margs að minnast frá þessum árum, en það verður ekki tíundað hér. Þó gleymist aldrei sú gestrisni og hjartahlýja, sem við höfum ætíð notið, þegar okkur hefur borið þar að garði. Þar setti hinn látni frændi minn, sem við kveðjum í dag, alveg sérstakan svip á með glaðværð sinni og skemmtilegu kímni, sem einkenndi hann alla tíð, og það allt til hans endadægurs, þótt hann fengi margt að reyna á efstu árum sínum.

Fyrir allar þær ánægjustundir, sem ég og fjölskylda mín höfum notið með Efri-Eyjarfólkinu fyrr og síðar, vil ég þakka nú, þegar Bjarni frændi er kvaddur hinztu kveðju. Jafnframt færi ég Guðbjörgu og börnum hennar og öðru skylduliði samúðarkveðjur okkar allra.

Jón Aðalsteinn Jónsson.