Jón Jónsson Jón Jónsson ólst upp í systkinahópnum hjá foreldrum sínum á Tannstaðabakka. Foreldrar hans bjuggu þar myndarbúi og skópu börnum sínum ástríkt heimili með traustum fjölskylduböndum. Sterk tengsl og rík tryggð við heimahaga hefur fylgt systkinunum frá Tannstaðabakka alla tíð. Svo rík var tryggðin að er systir Jóns, Guðrún, er bjó í Álasundi, lá banaleguna, sagðist hún frekar vilja verða að blómum á Íslandi en illgresi í Noregi.

Jón móðurbróðir minn er í dag lagður til hinstu hvílu við hlið eiginkonu sinnar og í seilingarfjarlægð frá dótturinni sem þau misstu unga, foreldrum sínum, systur sinni og afa og ömmu. Hann mun eins og þau með tímanum sameinast hrútfirskri mold. Kanski er ekkert betur viðeigandi en svo verði eftir langa samvinnu bóndans og jarðarinnar. Jón og forfeður hans hafa mann fram af manni lifað í náinni samvinnu við moldina í Hrútafirðinum. Með þrotlausu starfi hafa þeir bætt hana, - rutt burtu grjóti, hlúð að henni með áveitum og áburði, sáð í hana fræjum og hún hefur launað umhyggjuna með uppskerunni sem er ein af undirstöðum búskaparins og lífsafkomu bóndans.

Jón var bóndi af lífi og sál, góður bóndi og ævistarf hans var að halda áfram starfi forfeðra sinna að rækta og byggja upp á föðurleifðinni. Hann tók fleira í arf frá áum sínum, hann var ágætlega gefinn og hagvirkur í besta lagi, áhugasamur og afkastamikill. Jón var ekki fyrirferðarmikill í fjölmenni, var ekki gefinn fyrir að láta á sér bera, en naut sín því betur þar sem fámennt var og góðmennt.

Jón átti við margháttuð veikindi að stríða mörg undanfarin ár og eins eiginkona hans, áður en hún lést fyrir u.þ.b. þrem árum. Þó Jón væri markaður af langvarandi heilsuleysi var hann síðustu misserin hress og ánægður, var ósínkur á að deila með öðrum hvort sem var spaugsögum, fróðleik frá fyrri tímum eða koníakinu sínu og var vakandi yfir hvernig búskapurinn gengi í Eyjanesi og á Tannstaðabakka. Hann var mjög ánægður með að hafa verið fær um að taka aðeins þátt í heyskapnum á Eyjanesi síðastliðið sumar og dreymdi um að geta það aftur í sumar. Hann lét sig mjög varða hag barna sinna og var mjög ánægður er hann tilkynnti mér að Jóhanna dóttir hans ætti von á barni. Þá gladdi það hann afar mikið hve börn hans hafa tekið í arf tryggð við heimahagana og fagnaði mjög að Jón Bjarni sonur hans væri að reisa sumarbústað á Eyjanesi.

Síðustu mánuðina var Jón á sjúkrahúsum, Landspítalanum og sjúkrahúsinu á Hvammstanga. Hann var þakklátur fyrir umönnunina, einkum lofaði hann starfsfólk á deild 12G á Landspítalanum.

Jón vissi vel hvernig heilsa hans var og hvaða áhættu hann tæki með því að gangast aftur undir aðgerð. Hann gat ekki hugsað sér lífið sem alger sjúklingur, var tilbúinn til að leggja á sig erfiða aðgerð til að reyna að ná betri heilsu, en var líka tilbúinn til að kveðja þennan heim. Hann ræddi veikindi sín og tæpar batahorfur af æðruleysi, en sagði líka frá með glampa í augum hve sjúkrabíllinn hefði verið fljótur í förum í síðustu ferð hans norður, - hann hafði ennþá gaman af að fara hratt yfir.

Far þú í friði, frændi sæll, og hafðu þökk fyrir allt.

Hjördís Hjartardóttir.