Ragnheiður Haraldsdóttir Raunveruleikanum er erfitt að kyngja og maður getur ekki annað en spurt: "Hvers vegna?" En svörin eru engin, skilningurinn enn minni. Af hverju tekur guð hana Ragnheiði frænku svona fljótt til sín, hún sem var full af orku og hljóp um hlöðin daginn áður, því það var sumar í hjarta og litla ömmutelpan hennar var fjögurra ára þann dag, allir Haga-bæirnir í afmæliskaffi og allir sem dvöldu í sumarbústöðunum.

Ég var ekki nema ársgömul, þegar foreldrar mínir flytja með mig í félagsheimilið í Árnesi. Fyrsta sumarið var þar með mér barnapía og við vorum víst bara fyrir öllum gestunum og stóru bílunum, svo næsta sumar kom boð frá Ragnheiði og Guðlaugi að ég mætti vera hjá þeim í Melhaga, og þar var ég svo á hverju sumri og þar fann ég aldrei að ég væri fyrir þrátt fyrir að fyrirferðin á mér og masið hefði verið mikið. Ég varð eins og eitt barnið þeirra og eftir að við fluttum í þéttbýlið var sumarið í Melhaga.

Hjónin í Melhaga voru einstaklega gestrisin, þau voru fljót að bjóða okkur og öllum okkar vinum í mat, kaffi eða hvað sem við vildum þiggja. Ekki má svo gleyma öllum heitapottsböðunum, allir máttu nota hann og hún spurði ávallt, hvort hann væri of heitur eða of kaldur og í pottinn var alltaf hægt að bæta einni fjölskyldu í viðbót. Þegar uppúr var komið var það kvöldkaffið og við matarborðið rúmaðist vel og var alltaf pláss, þótt hóparnir væru stórir, meðlætið af heimabökuðum kökunum fyllti svo þetta stóra borð.

Trjánum í garðinum hennar hef ég fylgst vel með. Þegar ég var lítil, mátti ég ekki stíga ofan á litlu hríslurnar, en nú eru þær orðnar tvisvar til þrisvar sinnum hærri en ég og síðasta sumardvölin mín í Melhaga var fyrir tveimur árum þegar ég var í sumarfríi. Þá vorum við að planta "litlu plöntunum" í hraunið, sem hún átti sjálf. Hún hlakkaði til að sjá þær líka stórar.

Elsku frænka, minning þín lifir að eilífu. Ég þakka þér fyrir allt sem þú hefur gert fyrir mig og mína foreldra og okkur öll. Þá sem guð elskar, kallar hann fyrst til sín og ég veit að hann tekur vel á móti þér. Guðlaugi, börnum þeirra og fjölskyldunni allri, bið ég styrks og blessunar.

Þó að leiðin virðist vönd,

vertu ekki hryggur.

Það er eins og hulin hönd

hjálpi er mest á liggur.

Margrét Ásta Jónsdóttir.