Ragnheiður Haraldsdóttir Amma, ég trúi því varla að þú sért dáin og á bágt með að sætta mig við að þú sért farin frá okkur.

Þegar ég bjó í Reykjavík kom ég oft austur um helgar eða í einhverjum fríum, þá settist þú oft við rúmstokkinn hjá mér og við fórum með Faðirvorið og svo kenndir þú mér sálma og bænir. Fyrsti sálmurinn sem ég lærði hjá þér var, Ó Jesú bróðir besti og ég man líka eftir sálmabókinni sem sálmurinn var í. Mér fannst sálmabókin alltaf svo sérstök bók, svört í hulstri, sem varði hana gegn ryki og hnjaski. Þú kenndir mér að bera virðingu fyrir sálma- og bænabókum.

Ég var ekki stór þegar ég kom eitt sinn í heimsókn fyrir jól, ég setti skóinn út í glugga og hafði miklar áhyggjur af því að jólasveinninn vissi ekki af mér hjá ykkur og hann kæmist ekki inn. Því heimtaði ég að glugginn yrði opinn og mamma átti að segja jólasveininum að ég væri í sveitinni.

Einnig man ég eftir því þegar þú fórst með mér í skólaferðalag um Stokkseyri og Eyrarbakka, það var gaman að ferðast með þér þar sem þú sagðir mér frá öllu sem þú vissir, enda kunnug á þessum slóðum.

En svo fluttum við í sveitina og þá kynntist ég þér miklu betur. Þeir voru ófáir morgnarnir sem þú labbaðir upp eftir og þá oft með eitthvað í hendinni.

Við fórum ófáar ferðir til að ná í lúpínu og gróðursetja í mela og sanda. Amma, þú vildir rækta okkar hjarta, hug og land.

Takk fyrir allar sundferðirnar, öll kvöldin sem við spiluðum saman og allar þær stundir sem þú varðveittir með mér, það var eins og þú gætir alltaf gefið þér tíma til að tala við mig.

Takk fyrir allar bakvaktirnar!

Guð styrki afa og okkur öll.

Guðlaugur Kristmundsson.