Ragnheiður Haraldsdóttir Okkur hættir til þess í amstri hvunndagsins að taka alla hluti sem sjálfsagða. Einnig heilsu og líf. Svo erum við stundum minnt á það að þannig er það ekki. Á svipstundu koma þau atvik fyrir í lífi okkar sem setja allt úr skorðum.

Hún Ragnheiður var stærri hluti af mínu lífi en mig óraði fyrir. Hún var nátengd flestum bernsku- og uppvaxtarminningum mínum og þarf engan að undra, tvíburasystir mömmu. Mér voru oft sagðar sögur af því hve auðvelt var að skilja mig eftir í umsjá Ragnheiðar, þegar ég var smábarn, því ég hafði ekki verið of viss á að þekkja þær í sundur. Auðvitað lærði ég það nú fljótt, en sögurnar voru jafnskemmtilegar bæði fyrir mig og þær systurnar.

Ég hef alltaf verið mikið austur í Haga og sem krakki sótti ég eðlilega mjög niður í Melhaga þar sem þau systkinin Sigrún, Halli og Óli voru á svipuðum aldri og ég þótt ég væri reyndar elst. Mér var alltaf vel tekið þegar ég kom, sama hvað krakkarnir áttu að gera. Ég var þá bara sett í það líka rétt eins og ég væri eitt af hennar börnum. Þegar ég eltist og þroskaðist fór ég að kynnast henni á annan hátt og við tengdumst mjög nánum vináttuböndum. Aldrei fann ég annað en hlýju frá henni í minn garð og einlægan áhuga á því sem ég var að fást við hverju sinni. Þannig var það til dæmis þegar ég kom í fyrsta skipti uppeftir með kærastann minn, sem svo átti eftir að verða maðurinn minn, Ragnheiður bauð hann strax velkominn og þar með var grunnurinn lagður að þeirra vinskap. Það spillti ekki ánægju hennar að hún þekkti til hans. Nokkrum sinnum fórum við saman í ferðalag, Ragnheiður og Guðlaugur, mamma og pabbi og við Jónsi. Það voru skemmtilegar ferðir þar sem margt var spjallað og mikið hlegið. Jónsi hefur reyndar stundum sagt, bæði í gamni og alvöru, að það væru ekki allir sem eignuðust tvær tengdamæður með sömu konunni.

Ragnheiður og Guðlaugur fóru ekki varhluta af því þegar farið var að reisa bústað úti í Giljum. Hún var sífellt að bjóða okkur í mat og kaffi og "potturinn" var til reiðu ef við vildum. Ragnheiður kom reglulega til að fylgjast með því hvernig okkur miðaði og líka bara til að spjalla. Hún var okkar eftirlitsmaður í bústaðnum og skildi þá gjarnan eftir sig kveðju í gestabókinni. Nokkuð sem alltaf var jafngaman að lesa.

Þegar Ragnheiður brá sér í bæinn gisti hún yfirleitt hjá okkur í Nökkvavoginum, síðast nú í liðinni viku. Þá grunaði engan að það yrði í síðasta sinn.

Elsku Ragnheiður, þú varst einlægur og góður vinur og ræktaðir vináttuna. Það var okkur mikils virði að fá að njóta þess.

Guðrún Ásbjörnsdóttir,

Jón Helgi Guðmundsson.