Ragnheiður Haraldsdóttir Elsku Ragnheiður mín.

Sár voru tíðindin sem Stína vinkona okkar flutti mér á sunnudaginn. Ég gat ekki meðtekið þau strax og enn á ég bágt með að trúa að þú hafir orðið bráðkvödd þann morgun. Þú hringdir síðast til mín á mánudagskvöldið, þá svo hress og sagðist ætla bráðlega í sumarfrí. Margt getur breyst á stuttum tíma. Nú ert þú farin í annað ófyrirsjáanlegt frí, svo allt of fljótt. Vonandi líður þér vel þar, vinan, þar sem þú ert nú hjá ástvinum þínum, sem eru farnir héðan. Það er ekki að efa að þú velur þér gróðursælan og fallegan stað, þú sem varst alltaf fyrir að hafa allt fallegt og snyrtilegt í kringum þig, eins og heimili þitt og garðurinn báru vitni um. Það var sama hvað þú gerðir, saumaðir, matbjóst, eða fegraðir í kringum þig, allt var til fyrirmyndar. Þau eru orðin mörg árin síðan við kynntumst. Við vorum 14 ára þegar ég var að heimsækja frænku mína að Ásum og fór þá í fyrsta skipti að Haga í heimsókn til þín. Margar urðu ferðirnar eftir það að Haga, því við urðum góðar vinkonur. Oft dáðist ég að því hvað þú varst dugleg og myndarleg við öll störf sem ég sá þig vinna í Haga.

Síðan fórst þú til Reykjavíkur að vinna og þá hittumst við oftar. Svo kom að því að ég fann draumaprinsinn minn í sveitinni þinni og þú fannst Guðlaug, draumaprinsinn þinn. Um líkt leyti giftumst við báðar og stofnuðum heimili í Gnúpverjahreppnum, þú í Melhaga og ég í Þrándarlundi, og börnin okkar fæddust. Nóg var að gera hjá okkur og böndin styrktust enn á milli okkar og fylgdumst við með hvor annarri af áhuga. Ég man alltaf þegar þú kenndir mér hvernig best og fljótlegast var að hengja þvott á snúru. Þú varst svo skipulögð.

Það er svo margs að minnast. Þú varst mín besta vinkona, alltaf trygg og trú. Alltaf mun ég vera þér þakklát fyrir að taka mig með þér í orlofsviku húsmæðra á Laugarvatni eitt haustið. Mér fannst ég ekki geta farið að heiman, en þú gafst ekki upp. Það voru dýrðar dagar sem við áttum þar og verða þeir ógleymanlegir. Þú varst hrókur alls fagnaðar í góðra vina hópi, hafðir gaman af að dansa og syngja. Mikið var gaman í fimmtugsafmælinu þínu.

Þegar um fór að hægjast heimafyrir, fórum við að leita að vinnu utan heimilis. Um tíma vorum við á saumastofu og í nokkur ár unnum við saman í sláturhúsi meðan það starfaði. Alltaf skilaðir þú þínu verki vel unnu og af stakri samviskusemi.

Það var þér mikil ánægja þegar Sigrún dóttir ykkar fór að búa í Haga og þú gast fylgst með barnabörnunum. Stolt varst þú líka af drengjunum ykkar, hvað þeir komu sér vel áfram.

Þú varst alltaf tilbúin að liðsinna öllum, ekki síst eldra fólkinu. Mikið varst þú nærgætin og hjálpsöm stjúpu þinni, Jóhönnu í Haga. Eitt af þínum síðustu verkum var að skipuleggja ferðalag með eldri borgurum hreppsins.

Í dag, laugardaginn 20. júlí, þegar þú verður kvödd frá Stóra-Núpskirkju vona ég að birta íslenska sumarsins fylgi þér til enn bjartari staðar, þar sem þú munt uppskera laun alls þess góða sem þú varst mér og minni fjölskyldu, ekki síst eftir að Steini minn dó. Símhringingar og heimsóknir þínar voru mér mikils virði.

Guð styrki og verndi Guðlaug þinn, börnin ykkar og alla fjölskylduna.

Hafðu þökk fyrir sanna vináttu.

Þorbjörg G. Aradóttir.