Ásta Gunnhild Søberg Ég vil með örfáum orðum kveðja vinkonu mína, Ástu Gunnhild Søberg, í hinsta sinn. Við kynntumst fljótlega eftir að Ásta, þá á átjánda ári, fluttist til Íslands frá Kaupmannahöfn. Við vorum nágrannar í Skerjafirðinum og tókst fljótt vinátta á milli okkar, sem entist fram á hennar síðasta dag.

Við skemmtum okkur oft saman á yngri árum og margar eru minningarnar af samverustundum okkar. Ásta var ætíð létt í lund og kom vel fyrir sig orði, enda þótt stundum væri íslenskan bjöguð hjá henni. Man ég sérstaklega eftir skemmtilegu svari hjá henni, ef hún var spurð hvaðan hún væri. Þá svaraði hún, að hún væri norræn samvinna. En móðir hennar var íslensk, faðirinn norskur og sjálf var hún danskur ríkisborgari.

Ásta varð þess láns aðnjótandi að eiga sex börn, sem öll studdu hana í hennar langvarandi veikindum.

Ég votta hér með börnum hennar og öðrum aðstandendum mína innilegustu samúð.

Erla Sigurvinsdóttir.