Ágústa Guðrún Magnúsdóttir

Á sólbjörtum sumarmorgni kvaddi elskuleg tengdamóðir mín þennan heim á nítugasta og fyrsta aldursári.

Fyrir tæpum fjörutíu árum kom ég fyrst á heimili verðandi tengdaforeldra minna. Þar mætti ég hlýju og velvild sem ætíð fylgdi þeim. Ótal góðar minningar eigum við hjón og börnin okkar frá veru okkar í Einarshöfn. Það leið varla sú helgi að ekki væri farið á "Bakkann" og á stórhátíðum þótti sjálfsagt að allir gistu. Ágústa var myndarleg kona, bæði í útliti og öllu því sem hún tók sér fyrir hendur. Hún var snillingur í matargerð og bakstri og rausnarleg heim að sækja. Gjafmildi var henni í blóð borin og hún sagði oft að hún fengi alltaf eitthvað í staðinn ef hún gæfi frá sér. Ef eitt barna okkar átti afmæli kom hún ætíð með eitthvað handa hinum líka. Umhyggjusemin við barnabörnin var mikil og háði það henni stundum hve hrædd hún var um að þau færu sér að voða.

Þegar hugurinn reikar til baka man ég ekki eftir nema góðum samskiptum við tengdamóður mína. Okkur varð aldrei sundurorða og mér var ætíð tekið sem væri ég dóttir. Mann sinn missti Ágústa vorið 1995 og var það henni mikið áfall. Þá var hún farin að missa sjón og flutti að nokkrum tíma liðnum á dvalarheimili aldraðra að Sólvöllum á Eyrarbakka. Eftir stutta sjúkrahúslegu á Selfossi s.l. vetur fluttist hún á öldrunarheimilið Ljósheima á Selfossi þar sem hún lést eftir stutta dvöl.

Þótt hún sæi orðið illa og gæti lítið farið var hún ævinlega svo þakklát fyrir allt. Fram á síðustu stundu talaði hún um hvað allir væru sér góðir og það væri slæmt að hún gæti ekkert gert fyrir okkur. Þannig var hún og þannig lifir minning hennar. Hafðu þökk fyrir allt.

Edda Björg Jónsdóttir.