Sólbyrgi, Reykholtsdal-Ný kirkja var vígð í Reykholti í Borgarfirði á sunnudag en þar á staðnum hefur verið kirkja frá því skömmu eftir árið 1000. Á milli fimm- og sexhundruð manns voru viðstaddir vígsluna.
Ný kirkja vígð í Reykholti á sunnudag

Um sexhundruð manns

sóttu athöfninaSólbyrgi, Reykholtsdal - Ný kirkja var vígð í Reykholti í Borgarfirði á sunnudag en þar á staðnum hefur verið kirkja frá því skömmu eftir árið 1000. Á milli fimm- og sexhundruð manns voru viðstaddir vígsluna.

Athöfnin hófst í Gömlukirkju með því að sunginn var sálmurinn "Guðs kirkja er byggð á bjargi". Lesinn var 84. Davíðssálmur, flutt bæn og stutt ræða, þar sem vígslubiskup afhenti sóknarnefnd húsið til umráða. Síðan var prósessía til nýrrar kirkju.

Vígslubiskup, herra Sigurður Sigurðarson í Skálholti, vígði hina nýju kirkju. Kórar Reykholts- og Hvanneyrarsóknar sungu. Organistar voru Bjarni Guðráðsson og Haukur Guðlaugsson. Söngstjóri var Bjarni Guðráðsson.

Að lokinni vígslu var gestum boðið að þiggja veitingar í kjallara kirkjunnar, í boði sóknarnefndar.

Eftir kaffi var samkoma í nýju kirkjunni; þar voru ávörp flutt. Guðlaugur Óskarsson, formaður sóknarnefndar, þakkaði einstaklingum innan sóknar og utan fjárframlög og sjálfboðavinnu. Hönnuðum og öllum iðnaðarmönnum þakkaði hann einnig þeirra alúð sem þeir hefðu lagt í verk sín, byggingarnefnd óbilandi elju og áhuga formanns hennar, Bjarna Guðráðssonar í Nesi og konu hans Sigrúnar Einarsdóttur sem hefði verið honum ómetanleg stoð. Einnig þakkaði hann sóknarpresti, séra Geir Waage og konu hans Dagnýju Emilsdóttur margþættan stuðning þeirra allan tíma verksins, öllu tónlistarfólki og vígslubiskupi fyrir vígslu hinnar nýju kirkju.

Gleðidagur

Diðrik Jóhannsson á Hvanneyri færði kirkjunni Vejsenhus-biblíu frá 1747 að gjöf. Stefán Ólafsson byggingameistari og menn hans færðu kirkjunni bakstursdósir úr silfri. Ingibjörg Pálmadóttir flutti heillaóskir frá þingmönnum Vesturlands og sagði þennan dag mikinn gleðidag og að góður andi væri í hinni nýju kirkju. Sérstaklega þakkaði hún Bjarna Guðráðssyni hans framlag, hvort væri til byggingar eða til tónlistarflutnings sem svo fagurlega hljómaði í kirkjunni.

Séra Björn Jónsson prófastur á Akranesi sagði í sinni ræðu að þaðværi hér sem hendur hefðu lyft bjargi og hér stæði fögur og stílhrein bygging og að turninn sem benti upp til drottins gæti einnig verið ritblý Snorra Sturlusonar. Að lokum tilkynnti hann að Héraðsnefnd Borgarfjarðar og Mýrasýslu hefði ákveðið að gefa kirkjunni hátíðarhökul.

Séra Brynjólfur Gíslason sóknarprestur í Stafholti færði kirkjunni, fyrir hönd Hallgrímsdeildar prestafélags Íslands, biblíu að gjöf. Ýmsar góðar gjafir, fjárframlög og gripir hafa kirkjunni verið gefnar á undanförnum árum.

Að lokum þakkaði Guðlaugur Óskarsson öllum þeim sem fluttu ávörp og gáfu góðar gjafir og sagði "þær eru okkur dýrmætar, dýrmætar vegna þess hverjar þær eru og þó ekki síður fyrir það að sú vinátta sem bundin er góðri gjöf er eitt það dýrmætasta sem hver og einn getur átt í sjóði".

Kirkja í þúsund ár

Kirkja hefur verið á Reykholti frá því skömmu eftir árið 1000 en Gamlakirkja í Reykholti var reist 1887. Það var á Hvítasunnudag 1988 að biskupinn yfir Íslandi, herra Pétur Sigurgeirsson, tók fyrstu pálsstunguna að Reykholtskirkju og Snorrastofu. Arkitekt er Garðar Halldórsson, húsameistari ríkisins og byggingameistari er Stefán Ólafsson á Litlu-Brekku.

Reykholtsmáldagi er elsta skjal sem varðveitt er í frumriti á norrænu máli á Íslandi. Elsti hluti hans mun vera frá því um 1150 en yngri hlutarnir frá 13. öld. Greinir hann eignir og réttindi kirkju á staðnum. Þar á kann að vera rithönd Snorra Sturlusonar.Morgunblaðið/Bernhard Jóhannesson NÝJA kirkjan í Reykholti sem var vígð á sunnudag.

EFTIR að gamla kirkjan hafði verið afhelguð var prósessía til nýrrar kirkju.

BJARNI Guðráðsson, formaður byggingarnefndar Reykholtskirkju, Andrés Narfi Andrésson, arkitekt, sr. Geir Waage, sóknarprestur og herra Sigurður Sigurðarson, vígslubiskup sungu Te Deum við vígsluna.