ÞETTA er mjög dularfullt hús," sagði Jón Kaldal, og vísaði mér inn. Ég skimaðist um í vinnustofunni að Laugavegi 11. "Hér hefur margt einkennilegt gerzt," hélt Kaldal áfram. "Þú skalt ekki láta þér bregða, þótt þú upplifir eitthvað sem þú skilur ekki!" Í vinnuherberginu voru staflar af ljósmyndaplötum í rauðum kössum,

JÓN KALDAL

Ég fór að hugsa um

manninn bak við grímuna

Jón Kaldal var ókrýndur portrettkonungur íslenzkra ljósmyndara. Hann varð þeirra fyrstur til að halda sjálfstæða ljósmyndasýningu hér á landi og tók þátt í sýningum erlendis. Nú minnast menn þess með sýningu og bók að 100 ár eru liðin frá fæðingu hans. Fyrir 28 árum átti MATTHÍAS JOHANNESSEN samtal við Jón Kaldal.ÞETTA er mjög dularfullt hús," sagði Jón Kaldal, og vísaði mér inn. Ég skimaðist um í vinnustofunni að Laugavegi 11. "Hér hefur margt einkennilegt gerzt," hélt Kaldal áfram. "Þú skalt ekki láta þér bregða, þótt þú upplifir eitt hvað sem þú skilur ekki!"

Í vinnuherberginu voru staflar af ljósmyndaplötum í rauðum kössum, myndir og myndapappír. Ég ætlaði að fá mér sæti, en Jón benti á borð við norðurvegginn og sagði: "Ég var einu sinni beðinn um að stækka ljósmynd af Bjarna á Reykhólum. Þegar ég hafði lokið því, lagði ég hana þarna á borðið. Svo kom kona að sækja myndina. "Er ekki tilbúin myndin af honum Bjarna á Reykhólum?" spurði hún. Ég kinkaði kolli, sagði að ég skyldi sækja hana. Við gengum inn í vinnustofuna og ég ætlaði að ganga að myndinni vísri. En hún var horfin. "Hvernig stendur á þessu?" sagði ég. "Myndin var þarna rétt áðan." Ingibjörg systir mín vann þá hjá mér og við fórum bæði að leita að myndinni, gengum margoft inn í öll herbergin og oft yfir þröskuldinn milli vinnustofunnar og ljósmyndaherbergisins. En fundum ekki myndina.

Konan hefur áreiðanlega haldið, að við værum eitthvað skrýtin, hún fylgdist með ferðum okkar, en sagði ekkert. Við vorum að gefast upp, þegar mér er gengið enn einu sinni yfir þröskuldinn við vinnustofuna og þá liggur myndin þar, eins og ekkert væri sjálfsagðara. Það var eins og einhver hefði lagt hana þarna og sagt: Gjörið þið svo vel! Ég tók myndina upp, afhenti konunni hana og hún fór.

Þannig hefur þetta gengið til allan tímann sem ég hef verið hér að Laugavegi 11. Silli og Valdi eiga húsið, og ég hef ekki orðið var við annað en þetta sé gott hús, þótt hér sé ekki allt sem sýnist. Og nú er Alþýðubandalagið búið að opna skrifstofu á næstu hæð fyrir neðan okkur. Þar bjó áður Helgi Helgason líkkistusmiður."

Glugginn stóð í hálfa gátt, og ég leit út. Það var indælt veður. Ég fékk mér sæti, en Kaldal var á þönum milli herbergja. Hann hafði myndir í skolun frammi í myrkraherberginu. Það skrjáfaði í einhverju. Frásögn Kaldals hafði komið mér í opna skjöldu, ég hafði ekki vitað um kynngimagnaðan kraft hússins. Laugavegur 11 hafði annað aðdráttarafl, þegar ég var í menntaskóla. Þá sátum við þar daglangt yfir kaffibolla og vorum þess fullvissir, að það værum við og engir aðrir sem stjórnuðu landinu. Nú hafa aðrir tekið við. Á þeim tíma þurftum við að fá fjárfestingarleyfi fyrir efni í stúdentshúfurnar. Það þótti sjálfsagt. Aftur skrjáfaði í einhverju. Ég hrökk við. Gaut augunum fram, var orðinn eitthvað órólegur. Hver fjandinn var þetta? Kaldal kom inn. "Hvað var þetta?" spurði ég. Hann gægðist fram. "Það er enginn," sagði hann. Enn skrjáfaði. Þá benti hann á pappírsarkir á borðinu. "Glugginn er opinn," sagði hann. Mér létti. "Það kom svo oft fyrir, að hlutir hyrfu hér að stúlkurnar voru hættar að nenna að leita að þeim. Þær vissu að það var til einskis. Þær voru farnar að segja þegar eitthvað vantaði: Hann skilar því."

Húsið hafði sál. Hann - "veiztu hver Hann er?" spurði ég eftirvæntingarfullur.

"Nei," anzaði Kaldal og brosti. "En ég hef gaman af Honum frekar en hitt, þótt ég þekki Hann ekki. Allt er þetta skrýtið, óskiljanlegt. En ég legg engan dóm á það. Kannski Silli og Valdi hafi einhverja skýringu á þessu."

Jón horfði út um gluggann, lokaði honum. Það færðist kyrrð yfir herbergið, þegar hætti að skrjáfa í pappírnum. Ég fór að hugsa um, þegar kviknaði í húsinu fyrir nokkrum árum. Þá var ekið með tvö bílhlöss af ónýtum ljósmyndaplötum út á hauga og annað eins fékk Þjóðminjasafnið, ómetanleg verðmæti.

"Ætli það endi ekki með því, að við verðum að setja Þórberg í málið," sagði ég, "þetta er eitthvað fyrir hann."

Kaldal kímdi. "Á ég að segja þér aðra sögu?" spurði hann.

"Endilega," sagði ég.

"Jæja, þá," sagði hann og settist. "Ég ætlaði að skola nokkrar myndir eitt kvöldið, en þegar ég skrúfaði frá krananum var hann forskrúfaður og kom ekki dropi úr honum, svo að ég varð að fara með myndirnar heim í skolun. Pípulagningamaðurinn, sem gerir venjulega við fyrir Silla og Valda, gat ekki komið fyrr en kl. 2 næsta dag. Ég stóð hérna í vinnustofunni um eittleytið þann dag og var að redúsera, eða lagfæra plötur. Það var sól úti og gott veður og kyrrð inni í herberginu, og ég var eitthvað að snatta, meðan ég beið eftir rörlagningamanninum. Þá heyri ég að rörtöngum er kastað á gólfið frammi í myrkraherberginu. Hver andskotinn, er hann þá kominn? segi ég við sjálfan mig, fer fram, en þar er þá enginn. Þá fer ég fram í ljósmyndastofuna og út á gang, en sé engan. Ég reyni við kranann og þá er hann ekki lengur forskrúfaður, heldur fossar vatnið úr honum meir og betur en nokkru sinni áður. Tæpri klukkustund seinna kemur svo pípulagningamaðurinn. "Jæja," segir hann og ætlar að taka upp verkfærin. "Já," segi ég, "þetta er komið í lag." "Búið að gera við?" spyr hann. "Já," segi ég. "Hver?" "Hann," svara ég. Pípulagningamaðurinn þekkti húsið vel af langri reynslu, yppti öxlum og segir: "Jæja, Hann hefur þá komið á undan mér."

Svo kvöddumst við.

Skömmu fyrir brunann kemur til mín gömul kona og segir að sig vanti mynd af stúlku, sem hún nefnir. Myndin var tekin 1928. Ég finn plötuna fljótlega. En þegar ég er að leita, rekst ég á aðra mynd í sama kassa og finnst ég endilega þurfa að taka hana einnig með, en segi þó við sjálfan mig: Nei, ég læt hana vera, hvað ætli ég sé að fara inn með hana, nóg er af draslinu samt. Og skil hana eftir. En þegar ég kem inn í vinnustofuna, hef ég tekið með mér plötuna með myndinni, sem ég þurfti ekki á að halda.

Nokkru seinna kemur miðaldra kona. Ég spyr, hvað ég geti gert fyrir hana. Hún segir, að sig vanti mynd frá 1928. Ég spyr hvort hún eigi eintak af myndinni. Já, hún segist eiga það, tekur litla mynd upp úr pússi sínu og sýnir mér. Það er þá sama myndin sem ég ætlaði ekki að taka úr kassanum frá 1928, en fór samt með inn í vinnuherbergið. "Já, ég var að taka þessa plötu áðan," segi ég. Konan varð svo undrandi, að hún hlammaði sér á stól og sagði um leið og hún skellti báðum lófum á lær sér: "Jæja, svo það hefur einhver verið hér á undan mér."

En það hefur ekki alltaf gengið svona fljótt að finna myndir," bætir Kaldal við. "Og engin ástæða til að halda þessu á loft, því að margt skrýtið og óskiljanlegt gerist alls staðar í kringum okkur án þess það fari á prent."

"Heyrðu Kaldal, þú lumar á einhverju fleira í þessum dúr."

"Er ástæða til að tala um það?"

"Hver heldurðu að þetta sé?"

"Ég veit það ekki."

"Þig grunar það?"

"Nei, en ég skal segja þér einn eða tvo drauma, ef þú vilt. Ég hef stundum haft gaman af draumum."

Ég kinkaði kolli.

"Ég hóf ljósmyndanám hjá Carli Ólafssyni. Þá dreymdi mig eitt sinn einkennilegan draum: Við pöntuðum ljósmyndapappír og plötur frá fyrirtækinu Henrich Poulsen, Höjbroplads 6, Köbenhavn. Þetta var það eina sem ég þekkti þá til Danmerkur, því að hún var ekki á næstu grösum, þar sem ég ólst upp í Húnavatnssýslu. Ég var ákaflega spenntur, þegar von var á nýrri sendingu af pappír og plötum frá Danmörku. Þá dreymir mig eina nóttina, að ég sé staddur fyrir utan hús þessa danska fyrirtækis. Það er skuggsýnt, tunglið veður í skýjum, en dimmt á milli. Þegar ég er á leið framhjá húsinu, opnast gat í dökk skýin, og eru óvenjufalleg ljósbrigði í köntunum. Ég heyri svo guðdómlegan kórsöng, að annað eins hefur aldrei borið fyrir mín eyru. Ég er svo frá mér numinn og undrandi yfir þessu, að ég hleyp inn í fyrirtækið og kalla hástöfum til fólksins: Komið þið út og horfið upp í himininn. Sjáið þið ljósadýrðina! Nokkrar hræður koma út í dyragættina, en fara svo von bráðar inn í húsið aftur, án þess að sjá neitt merkilegt eða hrífast af undrinu og njóta þessa fallega söngs.

Svo lokast skýin, það dimmir aftur og söngurinn fjarar út. Ég geng áfram eftir götunni. Þá opnast aftur rifa í skýin og myndast stór og fallega upplýstur hringur, og sé ég, að í honum eru þrjú upphleypt andlit af grískum fornmönnum. Ég stari á þetta frá mér numinn, en veit ekki af hverju myndin er. Held svo áfram, en gýt augunum öðru hverju til himins, þar sem andlitin voru. Allt í einu lítur miðandlitið á mig, hneigir sig og fellur svo aftur inn í myndina. Og hún hverfur.

Ég held áfram og kem að húsi, þar sem útidyrnar standa opnar. Ég geng inn, þar er dimmt, en þó nægileg skíma til að ég get séð ræðupúlt í stofunni. Þar stendur goðkynjuð vera. Ég veit að það er sjálfur Pan. Þegar ég horfi á hann, opnast gat á hússtafninn og himinninn birtist mér með sama stóra fallega ljósbrotinu, og söngurinn hljómar aftur í eyrum mér, yndislegri en nokkru sinni.

Ég kom svo síðar í þetta danska fyrirtæki. Umhverfið var svipað eða það sama og birtist mér í draumnum góða, sem ég hef ekki enn getað ráðið."

"Einn draum í viðbót," bað ég, "þetta er ólæknandi sjúkdómur."

Hann skrapp fram í myrkraherbergið.

"Einkennilegt að Alþýðubandalagið skuli allt í einu dúkka upp í húsi Silla og Valda," heyrði ég hann tuldra fyrir munni sér.

"Við Pálmi Hannesson vorum miklir vinir," sagði hann, þegar hann kom inn aftur. "Hann var stórkostlegur maður og góður félagi. Við bjuggum saman í Kaupmannahöfn nokkur ár. Hann lagði stund á náttúrufræði, en ég ljósmyndun. Pálmi var mjög spenntur fyrir hlaupunum, þrælaðist á mér þegar ég kom heim af æfingum á kvöldin til að mýkja vöðvana, svo ég stæði mig betur í viðureigninni við þá dönsku. Pálmi dró ekki úr mér, en hvatti mig á alla lund og varð óskaplega æstur þegar hann horfði á keppni, en þó ekki eins og Guðni Jónsson úrsmiður sem var sambýlismaður minn, þegar Pálmi var farinn heim.

Ég hafði tvisvar unnið alþjóðabikar í 5 km hlaupi og átti nú að keppa um bikarinn í þriðja skipti. Keppnin fór fram á Stadion í Kaupmannahöfn. Það var 1923. Danirnir höfðu mikinn viðbúnað. Íþróttafélagið Sparta, sem átti bikarinn, hafði jafnvel fengið Svía, frægan Ítala og nokkra hlaupara frá Tékkóslóvakíu, til að keppnin yrði sem hörðust og ég ynni ekki bikarinn til eignar, því að þá þurfti að útvega annan. En þeir vissu sem var, að ég hafði mikinn hug á að fara með bikarinn heim. Sparta hafði jafnvel fengið þekktan, danskan víðavangshlaupara og harðan karl til að æfa einungis fyrir þetta hlaup. Sá hét Albert Andersen.

Nokkrum dögum áður en hlaupið átti að fara fram, hafði Guðni farið til Þýzkalands og ég vissi ekki betur en hann væri þar. En svo hafði hann komið aftur til Kaupmannahafnar skömmu áður en sú stóra stund rann upp.

Ítalinn hafði unnið Ólympíumeistarann franska í 5 km hlaupi sunnudaginn áður, og mér leizt ekki á blikuna, en ákvað að leggja mig allan fram.

Svo hófst hlaupið.

Það var farið mjög hratt af stað, og við hlupum fyrstu hringina af svo miklum hraða að ég var að hugsa um að hætta, því að ég var búinn að fá þreytukast. Ég hugleiddi málið og sá að Ítalinn og Tékkinn höfðu báðir dregizt aftur úr. Við Andersen vorum fremstir og hlupum samsíða. Ég ákvað að halda hlaupinu áfram, því að ég sannfærði sjálfan mig um, að ég gæti það eins og hinir. Þreyta er oft ekki annað en ímyndun.

Við Albert Andersen hlupum svo samhliða, þegar klukkan hringdi til merkis um að síðasti hringurinn væri að hefjast og ég var orðinn nokkurn veginn viss um að ég mundi sigra, af því að ég hafði æft lokasprett sérstaklega. Ég kom fyrstur í mark á mínum bezta tíma, minnir mig, en Albert Andersen, sem var mikill skapmaður og liðsforingi í hernum, gengur þá til mín og óskar mér til hamingju og segir: "Viljið þér ekki vera gestur minn það sem eftir er dagsins?" Ég rak upp stór augu og tók boðinu. Þetta var óvenjuleg riddaramennska og ólík því, þegar tveir danskir hlauparar reyndu á Norðurlandameistaramóti að hlaupa í veg fyrir mig og bregða mér, en það er önnur saga. Við fórum heim til Andersens og síðan í Tívolí um kvöldið og skemmtum okkur vel.

En að hlaupinu loknu fór ég auðvitað inn í búningsklefann og fékk mér bað og nudd - en þá kemur Guðni askvaðandi inn, ræðst á mig, faðmar mig og kyssir og segir: "Þennan andskota geri ég aldrei aftur."

Hann hafði orðið svo æstur, að hann hafði gjörsamlega misst stjórn á sér - og það ætlaði hann ekki að gera aftur.

Það yljaði mér oft að heyra íslenzkt kall frá áhorfendum, einkum fyrst í stað.

Ég man sérstaklega eftir einu atviki. Skömmu eftir að ég kom til Hafnar, gekk ég í AIK, Arbejdernes Idræts Klub, vegna þess að ég vissi, að Íslendingur var í félaginu, Ingimar Jónsson bakari, sem síðan fluttist heim, en er nú dáinn fyrir stuttu: Ingimarskexið, þú kannast við það!

Ég var alveg óþekktur hlaupari í Danmörku, þegar þetta var, hafði aðeins tekið þátt í tveimur víðavangshlaupum hér heima og unnið bæði. Hafði þó tekið þátt í hlaupinu af tilviljun.

Forráðamenn AIK biðja mig nú að taka þátt í æfingahlaupi til að velja úr menn í 8 km vegalengdina í 42 km boðhlaupi milli félaganna, sem átti að fara fram skömmu síðar. Ég lét til leiðast.

Allt gekk vel í upphafi. Við vorum 50 þátttakendur, og mér fannst ég berast áfram af skóhljóðinu, hafði aldrei keppt við svo marga í einu.

Við áttum að hlaupa út fyrir völlinn að 5 km marki, snúa þar við og síðan inn á íþróttavöllinn aftur og þar hálfan hring, áður en við komum í mark. Við 5 km markið var ég orðinn fyrstur. Karlarnir, sem fylgdu okkur á hjólunum, æstu mig upp. Ég kunni ekkert fyrir mér í keppni og mátti þakka fyrir, að þeir sprengdu mig ekki. Þegar ég sé íþróttasvæðið á heimleiðinni, þyrmir yfir mig og ég verð svo þreyttur, að mér finnst ég ekki geta haldið áfram, en kemst þó inn á völlinn. Þá er ég algjörlega þrotinn að kröftum og ákveð að gefast upp. En þá heyri ég að einhver kallar rétt hjá mér: "Það er Íslendingurinn!" Þetta jók mér þrek. Ég lagði af stað aftur og kom fyrstur í mark. Þetta atvik varð mér mjög lærdómsríkt, og það átti oft eftir að hjálpa mér í harðri keppni. Þá sagði ég við sjálfan mig: Þreyta er sjálfsblekking. Og ég held það sé rétt."

"En draumurinn, Kaldal?"

"Draumurinn. Þú hefur kannski engan áhuga á íþróttum?"

"Jú, ég get geymt mér drauminn. Segðu mér þá frá víðavangshlaupinu."

"Ég æfði leikfimi hjá ÍR, þegar ég kom til Reykjavíkur, og sá oft út um gluggann, þegar þeir voru að leggja af stað til að æfa fyrir víðavangshlaupið. Ég fékk ákafa löngun til að hlaupa með þeim á síðustu æfingunni fyrir sumardaginn fyrsta. Það var sunnudagur, gott veður og ég í ágætu skapi. Þeir Benedikt Waage og Helgi frá Brennu sögðu að mér væri ekki of gott að spreyta mig. Þarna voru engir smákarlar á ferðinni. Einar Pétursson, bróðir Sigurjóns, nýkominn frá Englandi, þar sem hann hafði æft víðavangshlaup, var einn þátttakenda.

Svo lögðum við af stað. Mér þótti þetta ákaflega skemmtilegt. Við hlupum niður Bókhlöðustíg, eftir Vonarstræti, Tjarnargötu, suður Mela og beygðum svo yfir mýrina í áttina að Briemsfjósi við Laufásveg og loks að grindunum hjá menntaskólahúsinu. Við höfðum lagt af stað frá leikfimishúsinu þar. Þegar við komum á Laufásveginn, erum við Einar hnífjafnir og einn sprettur það sem eftir er niður allan Laufásveginn, en ég var sjónarmun á undan að grindunum.

Þetta var nóg til þess, að þeir vildu að ég tæki þátt í víðavangshlaupinu næsta fimmtudag, en ég vildi það helzt ekki, lét þó undan þeim að lokum. En ég sá eftir því föstudaginn eftir hlaupið. Þá var ég með svo miklar harðsperrur að ég mátti í hvoruga löppina stíga."

Ég spurði Kaldal um lokasprettinn, sem hann hafði minnzt á.

"Þjálfari minn, sá bezti sem ég hafði og lærði mest af, Svíinn Kreigsman, var sérfræðingur í lokaspretti og kenndi mér hvernig maður ætti að taka hann. Það er mjög auðvelt, en krefst þó mikillar þjálfunar. Tökum dæmi: Tveir hlauparar fara samsíða með sömu skreflengd og fylgjast alveg að á góðum hraða. Sá sem kann á lokasprettinn styttir allt í einu skrefið, t.d. um helming, og kastast þá fram af hraðanum af því að hann er kominn í spretthlauparastellingu, en verður að gæta þess vandlega að taka strax við með hinum fætinum til að detta ekki fram yfir sig. Þessum hraða heldur hann svo, eða eykur eftir vild. Allt þetta verður hann að gera á réttu augnabliki og svo snöggt að keppinauturinn átti sig ekki á því, fyrr en hann hefur fengið gott forskot, t.d. 10 metra. Þetta dregur þá oft kjark úr keppinautinum, og þá er galdurinn ekki annar en að halda hraðanum. Hlauparinn má vara sig á að spenna sig, þá stirðnar hann og nær ekki fullri ferð. Hann verður að halda mýktinni um mjaðmirnar til að ná sem beztum árangri. Þetta reyndist mér vel. Gunder Hägg, einn mesti hlaupari sem uppi hefur verið, var einhverju sinni beðinn að koma til Ameríku og keppa þar, þá var hann orðinn heimsfrægur, en áður en hann fór í Ameríkuferðina hélt hann til Kreigsmans og lærði af honum lokasprett."

Svo skrapp Kaldal fram og sagði, eins og til að hrista mig af sér:

"Heldurðu ekki að við séum nú komnir á lokasprettinn?"

"Draumurinn er eftir," sagði ég.

"Æ ­ já."

Og þegar hann kom inn aftur, sagði hann mér drauminn.

"Ég vann hjá Elfeld í Kaupmannahöfn. Hann var helzti ljósmyndari Danmerkur. Hann hafði verkstæði í Östergade 25, og var ég hjá honum í fjögur eða fimm ár. Þar kynntist ég langfærasta ljósmyndara, sem ég hef enn rekizt á, Svía sem hét Johansson, ég veit ekki hvort hann er lífs eða liðinn.

Svo er það, að ég kem frá keppni í Árósum á mánudagsmorgni, en þá um kvöldið átti að leika 9. sinfóníu Beethovens í Oddfellow- höllinni. Við Pálmi Hannesson fórum á alla konserta sem við gátum, og stundum fór ég fjórum sinnum í sömu vikunni á tónleika hjá sama listamanninum.

Ég fer beint í vinnuna hjá Elfeld. Þá segir Johansson mér að það sé uppselt á tónleikana og ég fái enga miða. Ég hleyp út til Vilhelm Hansens, sem seldi aðgöngumiða og margir kannast við frá þessum árum í Kaupmannahöfn. Þegar ég geng inn í afgreiðslusalinn, sé ég, að ein af afgreiðslustúlkunum brosir til mín. Ég var vonlítill, en geng auðmjúkur til hennar og spyr, hvort hún geti ekki útvegað mér eitt sæti. Hún brosir, fer niður í skúffuna, sækir þangað miðann og segir: "Ég bjóst við að þér munduð koma eins og vant er og þess vegna geymdi ég handa yður miða."

Ég þakkaði henni fyrir og fór á tónleikana.

Ég hafði aldrei heyrt 9. sinfóníuna áður. Ég varð yfir mig hrifinn. Gleðin og hrifningin hrísluðust um mig. En þegar ég kom út, varð ég fyrir miklum vonbrigðum með sjálfan mig, því að ég mundi ekkert úr verkinu og gat ekki farið með nokkra nótu. Vegna þessara vonbrigða fór ég í langan göngutúr út á Löngulínu og svo heim í Rörholmsgötu 23, við Vötnin. Háttaði og sofnaði von bráðar.

En þá byrjar ballið: Mig dreymir að ég er niðri í Oddfellow-höllinni. Salurinn er troðfullur af fólki. Hljómsveitin á sínum stað, en ég í kjól og hvítt með taktstokkinn í hendinni og er að stjórna 9. sinfóníunni. Ég er ekkert smeykur og hugsa með sjálfum mér: Nú skal ég láta fólkið finna fyrir þessu!

Ég stjórna svo öllu verkinu í draumnum um nóttina, og um morguninn þegar ég vakna get ég raulað margt úr sinfóníunni, þar á meðal Sönginn til gleðinnar og ýmislegt fleira, sem ég lærði um nóttina. Og alltaf hefur mér fundizt að ég hafi stjórnað 9. sinfóníunni þessa nótt.

En svo hef ég oft lent í hneykslismálum í draumum, þegar ég hef verið kominn upp á stjórnpallinn, áheyrendurnir byrjaðir að klappa ­ en uppgötva þá allt í einu, að ég kann ekkert fyrir mér, og lamast.

Þá er gott að vakna."

Hann þurrkar af sér svitann.

"Af hverju heldurðu að þetta hafi stafað, Kaldal? Af því að þú vildir verða tónlistarmaður?"

"Já, ég hefði viljað það þá. En núna væri skynsemin allri slíkri löngun yfirsterkari.

Ég heyrði stóra hljómsveit í fyrsta skipti í Tívolí, skömmu eftir að ég kom fyrst til Kaupmannahafnar. Það var 1. maí 1918. Ég gekk eftir Strikinu frá Kóngsins nýja torgi að Ráðhúsplássinu, og þá gerði úrhellisrigningu, svo að ég hrökklaðist inn til Koph, sem síðar var kallaður Íslandshatari, ég veit ekki af hverju ­ og kaupi mér forláta regnkápu. Borga reikninginn, sting honum í vasann og held áfram. Skömmu síðar vindur sér að mér maður, klappar á öxlina á mér og segir: "Hvar hafið þér fengið þessa regnkápu?" Ég gapti á hann af undrun. Þá segir hann: "Það var stolið frá mér svona kápu áðan." Ég sýni honum þá nótuna og fullvissa hann um að ég sé ekki þjófurinn, en líklega hef ég keypt regnfrakkann við vöxt, eins og sæmir góðum íslenzkum sveitamanni. Hann biður mig afsökunar, og ég held áfram. Kem í Tívolí og heyri þá einhverja músík, geng á hljóðið og kaupi miða að tónleikunum, en hafði ekki efni á að fá mér prógram, svo að ég vissi ekki hvað verkið hét. Mér fannst það afskaplega fallegt, en sorglegt."

"Var þetta draumur, Kaldal, eða ­" skaut ég inn í.

"Nei, þetta var blákaldur veruleiki. Verkið var úr Eroica. Ég hafði verið að hlusta á sorgarmarsinn.

Við Pálmi Hannesson létum ekkert tækifæri ónotað til að fara á konserta. Eitt kvöldið vorum við að malla hafragraut, það var minn dagur að sjá um matseldina. Þegar ég er nýbúinn að setja hafragrautinn yfir, kemur Pálmi móður og másandi og segir: "Komdu strax, það er konsert niðri í Casino. Við megum engan tíma missa."

Ég snara mér frá eldamennskunni, fer í yfirhöfn og við af stað, hlaupum niður í Breiðgötu og komum í tæka tíð. Það var einhver enskur, lítt þekktur píanóleikari, sem hélt þessa tónleika. En í miðri Tunglskinssónötunni kviknaði allt í einu á perunni hjá mér og ég hvísla að Pálma: "Hver andskotinn, er ekki hafragrauturinn enn á gasinu!"

Við létum það samt ekki á okkur fá, en sátum sem fastast tónleikana á enda ­ en ætluðum svo ekki að þora heim að þeim loknum. En þar fyllti sengjulyktin af hafragrautnum öll vit okkar þegar við komum í forstofuna. Gamla konan, sem leigði okkur og hét Kristín, íslenzk að ætt og uppruna, var okkur svo góð að hún sagði aldrei neitt og ekki heldur í þetta skipti. Enginn vissi, hvað hún var gömul, því aldrei hafði frétzt af íslenzkum stúdent, sem var svo gamall að hann hefði ekki einhvern tíma hitt Kristínu. Ekki átti hún húsið, heldur leigði hún íbúð í því og lifði á því að leigja út frá sér. Eitt sinn þegar við Pálmi vorum að fljúgast á, brutum við stól, en þá sagði hún aðeins: "Ég skil ekkert í þessu, hann er búinn að endast í 30 ár."

"Hvernig líkaði þér að koma til Hafnar, Kaldal?"

"Vel."

"Ekkert sérlega minnisstætt?"

"Ég man einna bezt eftir því, þegar þeir ætluðu að kalla mig í herinn. Þá reiddist ég. Í byrjun árs 1919 fæ ég bréf frá hernum og mér er sagt að mæta á skráningarskrifstofunni, sem var í gömlu húsi í Holmensgade, þeirri frægu götu, og brakaði í hverju þrepi, þegar gengið var upp stigann.

Ég ríf bréfið frá hernum og hugsa ekkert frekar um málið. En þegar ég fæ annað bréf frá þeim og mér er hótað að lögreglan sæki mig, ef ég komi ekki til skráningar innan tveggja eða þriggja daga, hundskaðist ég þangað niður eftir, fokvondur, finn húsið, þrælast upp brattan stigann og kem í skrifstofuna, sem er þá troðfull af væntanlegum nýliðum. Þeir stara auðmjúkir og biðjandi eins og guð sér til hjálpar á afgreiðslumennina. Þeir segjast eiga konur og börn og þurfi að fá frest í nokkra daga.

Þetta hleypti í mig illu blóði. Ég var enginn dönskumaður, en náði mér venjulega á strik, þegar ég þurfti að blóta á dönsku. Þegar ég kemst að afgreiðsluborðinu, kemur skikkanlegur maður að máli við mig. Ég segi, að ég hafi fengið bréf og skilji ekkert í innihaldi þess, þetta hljóti að vera einhver misskilningur, ég sé Íslendingur og Íslendingar séu undanþegnir herþjónustu í Danmörku. Vesalings maðurinn verður vandræðalegur, fer inn í aðra skrifstofu og að vörmu spori kemur út þessi líka feikna jaki, alþakinn orðum niður á maga eins og rússneskur generáll.

Ég segi honum að þetta sé einhver misskilningur, en hann fer þá bara að brúka kjaft. Það kveikir í mér. Ég tek af honum orðið, dembi mér yfir hann, segi að við Íslendingar séum ekki herskyldir, hann þekki ekki landslög og sé ekki starfi sínu vaxinn. Hann varð klumsa. Allir aðrir hættu að skrafa í skrifstofunni og hlustuðu undrandi á okkur ­ og ég er mest hissa á, að karlinn skyldi ekki láta taka mig fastan, eins og hann bólgnaði af reiði. Ég rauk svo á dyr, en á skörinni tók maður í höndina á mér svo lítið bar á og þakkaði mér fyrir. "Þeir eiga fyrir þessu, þeir djöflar," sagði hann.

Ég strunsaði svo beint í skrifstofu Sveins Björnssonar og fékk yfirlýsingu hjá íslenzka sendiráðinu um, að Íslendingar væru ekki herskyldir í Danmörku. Daginn eftir fór ég með yfirlýsinguna til þeirra í Hólmsgötunni og spurði eftir jakanum. Skrifstofumaðurinn, sá hinn sami og ég talaði við fyrst, kímdi og sagði: "Hann er því miður ekki við." Hann hefur víst ekki langað í aðra lotu."

Og þá er komið að lokasprettinum. Hann fjallar auðvitað um ljósmyndun, hver er kveikjan að list og lífsstarfi Kaldals?

"Ég er fæddur og uppalinn í Stóradal í Húnavatnssýslu, af miklum ættbálki," sagði hann. "Sigurður skólameistari sagði við mig, að við værum næstum því hálfbræður, svo skyldir værum við í allar áttir. Við Jón alþingismaður í Stóradal vorum systkinasynir, við Jón á Akri og Jón Leifs bræðrasynir. Allt er þetta sama Jóns nafnið. Faðir minn hét Jón Jónsson, afi minn Jón Pálmason, langafi minn hét Jón Benediktsson og langalangamma mín Ingibjörg Jónsdóttir. Og svo mætti lengi telja.

Ég ólst upp í Stóradal, sem var eitt af stórbýlum sýslunnar. Þangað kom Jón Pálmi Jónsson, vinur okkar krakkanna, sem ferðaðist um sveitina og fótograferaði fólk. Hann var við nám hjá Hallgrími Einarssyni, ljósmyndara á Akureyri, fór seinna til Ameríku og var þekktur ljósmyndari þar. Hann sýndi okkur krökkunum myndir og sagði okkur frá tækjunum. Mér fannst þetta göldrum líkast að ná fólki á pappír ­ og kannski eru það líka galdrar. En þarna vaknaði hjá mér löngun til að verða ljósmyndari. Þegar ég var 19 ára fórum við systkin öll til Reykjavíkur, þar sem ég hóf nám hjá Carli Ólafssyni. Hjá honum var ég svo hálft þriðja ár, en fór þá utan til Kaupmannahafnar.

Jón Pálmason alþingismaður segir meðal annars í grein um Stóradalsheimilið ­ Kaldal nær í ritið, ég les:

"Jörðin Stóridalur er ein af stærstu jörðum í Húnavatnssýslu, geysilega landmikil og kostarík, en erfið er hún, ef hún skal nytjuð að fullu, og ekki á færi annarra en atorkumanna að gera svo. Í búskapartíð Jóns Jónssonar var þó ekki um að villast, að hver slægur blettur var sleginn og beitin notuð hvenær sem færi gafst til hins ýtrasta. Féð var oft 500­600 ær, sauðir og lömb. Fært var frá lengst af. Líklega síðast 1904. Ær í kvíum voru oft 160-200, fjallalömbin flest eða jafnvel öll sett á vetur, sláturfé var þá allt fullorðið, sauðir, ær og veturgamalt fé . . . Heyverkun hjá Jóni í Stóradal var með afbrigðum góð og vita allir bændur hve miklu máli sá þáttur skiptir. Hann var líka vandlátur að fóðri á fé sínu og hafði af því góðar afurðir, lagði rækt við að bæta féð eftir föngum. Heybirgðir átti hann ævinlega yfirdrifnar og miklar fyrningar á hverju vori, hvernig sem viðraði. Þangað var og ævinlega hjálpar að leita fyrir heyþrota menn . . .

Hann var framúrskarandi dugnaðar- og fyrirmyndarbóndi og gaf sig allan og óskiptan að búskapnum og heimilishag . . . Jón Jónsson var mjög geðfelldur maður í allri framkomu, alúðlegur og gamansamur þegar svo bar undir, heldur í lægra meðallagi á vöxt, beinvaxinn og fríður sýnum, dökkur á hár og með jarpt skegg, ekki mikið. Hann var kvikur í hreyfingum og hljóp venjulega við fót, þar sem hann var á gangi við kindur eða á annan hátt. Hann var hestamaður mikill, laginn tamningamaður og sérstaklega fór orð af því, hve snjall hann væri að ríða hesta til skeiðs . . . " Um móður Kaldals segir Jón: "Ingibjörg Gísladóttir var fríð kona og vel gefin. Hún var hið mesta góðkvendi, sem öllum þótti vænt um á heimili og utan þess. Fórust þau hjónin eigi á mis í því efni . . . "

Ég fann strax, að Kaldal þótti vænt um þessa grein Jóns frænda síns, og lofaði mér að vitna í hana til að stytta mér leið.

"Móðir okkar lézt 1903," sagði hann, "en faðir okkar þremur árum síðar. Þá fluttumst við krakkarnir til Pálma, föðurbróður okkar, að Ytri-Löngumýri, og vorum þar í góðu yfirlæti. Við Jón Pálmason erum því uppeldisbræður.

Ég hafði unun af hestum eins og pabbi og tamdi marga, og við Pálmi vorum oft eins og tveir léttlyndir strákar, þegar við vorum að temja. Það var oft gaman hjá okkur að Löngumýri. En ég hljóp ekkert meira en aðrir unglingar í sveit og hugsaði aldrei um að verða hlaupari. Jón segir, að pabbi hafi verið góður smalamaður og oft hlaupið við fót. Ætli hann hefði ekki orðið betri hlaupari en ég, ef hann hefði farið til Kaupmannahafnar?

Eitt atvik er mér minnisstætt frá æskuárunum í Stóradal. Það sýnir, hvernig myndir greypast í minninguna og geymast þar. Ég stóð úti á hlaði með föður mínum. Veðrið var gott, bjartviðri. Þá sáum við hvar fjórir menn komu ríðandi að bænum vestan tungur, sem kallaðar voru, á milli þeirra gengur maður. Þegar þeir koma heim á hlað, sjáum við, að þar er enginn annar en Þjófa-Lási, sem kallaður var, og höfðu þeir hann í böndum á milli sín, því að hann var svo fljótur að hlaupa að þeir hefðu ekki náð honum, ef hann hefði sloppið. Þeir voru á leið með Lása til hreppstjórans, Ingvars í Sólheimum.

Þeim ferðalöngunum, þjófnum og réttvísinni, var boðið upp á veitingar, og síðan var haldið áfram með Þjófa-Lása, sem var lítill karl og ekki eftirminnilegur, út að Sólheimum. Þar var hann skilinn eftir.

Ingvar og pabbi voru miklir vinir. Bændur höfðu það þá fyrir sið að heimsækja hver annan, fá sér dálítið í staupinu, en þó ekki svo að á þeim sæist, reyna gæðinga hver annars, og stundum gistu þeir tvær til þrjár nætur hver hjá öðrum.

Nokkrum dögum eftir að þjófurinn hafði farið um hlað hjá okkur í Stóradal, kemur hann aftur og þá einn síns liðs. Við feðgarnir stóðum úti á túni. Hann gengur til pabba, heilsar honum og biður hann lána sér hest til að sundríða Blöndu. Faðir minn segir: "Það er sjálfsagt, þú bara sleppir honum, þegar þú ert kominn yfir ána."

Þjófa-Lási fékk hestinn sem skilaði sér nokkru síðar. En mig grunar, að þetta hafi verið samantekin ráð milli Ingvars og föður míns, að þeir hafi ekki viljað níðast á vesalingnum. En það væri gott að eiga hlaupara á borð við Þjófa-Lása núna," bætir Kaldal við með húnvetnskt bros á vör.

Svo sagði hann mér að lokum, að það hefði verið tilviljun ein að hann fór að æfa hlaup. Hann byrjaði í leikfimi hjá ÍR, þegar hann kom suður, eins og fyrr getur, og hefur alla tíð haldið tryggð við það félag og vini sína þar.

"Mér þótti gott að vera í ÍR og hef ávallt verið í félaginu og eignazt þar marga góða vini, sem ég hefði ekki viljað án vera. En ástæðan til þess að ég hóf leikfimisæfingar hjá ÍR var sú, að við Pálmi Hannesson þjálfuðum okkur hvern dag í Mullers-æfingum og fengum til þess afnot af leikfimissalnum í Menntaskólanum. Þegar ég svo æfði undir annað víðavangshlaupið, skokkaði ég upp í Árbæ og svo í bæinn aftur, en Pálmi hjólaði með mér alla leiðina. Svo mikill var áhugi hans, bæði á því að mér gengi vel í hlaupinu og ekki síður á að halda sér í þjálfun.

En ég var að segja þér frá ljósmyndaranum, sem lagði leið sína um Húnavatnssýslu, þegar ég var drengur. Þessu get ég bætt við að lokum:

Um þær mundir sem ég var að byrja að lesa, sat heimilisfólkið eitt sinn sem oftar að spjalli yfir hádegismatnum. Þá segir einhver, að séra Stefán á Auðkúlu komi á morgun. Mér þótti það ekki verra, því að hann var mér sérlega góður. En þá sagði einhver: "Hann er mikill mannþekkjari, hann séra Stefán." Ég hrökk við. Ekki vissi ég þá, hvað það var að vera mannþekkjari, en mér var sagt að hann sæi, hvort maður væri góður eða vondur.

"Og stundum sér hann jafnvel, hvað fólk hugsar," var bætt við. Mér var ekkert um það. En upp frá því fór ég að líta öðruvísi á fólk og velta fyrir mér, hvernig það hugsaði, hvernig þessi eða hinn væri í raun og veru. Ég fór að hugsa um manninn bak við grímuna. Skyggnast undir skelina. Og það hef ég ávallt síðan reynt að gera. Kannski að þessi áhugi minn hafi hjálpað mér eitthvað við myndatökuna.

Annars tók séra Stefán strax ástfóstri við mig. Hann lagði 20 króna gullpening á vögguna mína, þegar ég var á fyrsta ári, og sagði, að ég ætti að eiga hann vegna þess "hvað hann er fallegur". Þetta var fyrsta og eina fegurðarsamkeppnin, sem ég hef unnið um dagana. Merkilegt annars hvað maður getur breytzt!Ljósmynd/Sigurður Guðmundsson

Jón Kaldal skömmu fyrir fimmtugsafmælið 1946.

Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon

Kaldal í vinnustofu sinni á Laugavegi 11 árið 1958.

Í Kaupmannahöfn árið 1920.

Jón Kaldal tvítugur.