Formenn og flestir þingmenn beggja flokka, kynntu samkomulagið um sameiningu þingflokkanna á sameiginlegum fréttamannafundi í gær og lögðu áherslu á að um væri að ræða fyrsta skrefið í átt til frekara samstarfs jafnaðarmanna í íslenskum stjórnmálum en hinn nýi þingflokkur yrði einnig stærsti þingflokkur stjórnarandstöðunnar á Alþingi.
Þingflokkar Alþýðuflokks og Þjóðvaka verða sameinaðir í haust "Fyrsta skref til frekara

samstarfs jafnaðarmanna"

Þingflokkar Alþýðuflokksins (7 þingmenn) og Þjóðvaka (4 þingmenn) verða sameinaðir fyrir upphaf Alþingis í haust undir nafninu "þingflokkur jafnaðarmanna". Flokkarnir starfa áfram utan þings hvor í sínu lagi samkvæmt sínu skipulagi.

Formenn og flestir þingmenn beggja flokka, kynntu samkomulagið um sameiningu þingflokkanna á sameiginlegum fréttamannafundi í gær og lögðu áherslu á að um væri að ræða fyrsta skrefið í átt til frekara samstarfs jafnaðarmanna í íslenskum stjórnmálum en hinn nýi þingflokkur yrði einnig stærsti þingflokkur stjórnarandstöðunnar á Alþingi.

"Hér eru vissulega mikil pólitísk tíðindi á ferðinni og gætu hugsanlega, ef vel tekst til, leitt til nýsköpunar í íslenskri pólitík og breytinga á íslenska flokkakerfinu," sagði Jóhanna Sigurðardóttir, formaður Þjóðvaka.

Því sem næst alger málefnaleg samstaða

Jón Baldvin Hannibalsson, formaður Alþýðuflokksins, sagði að nú væru verkin látin tala. Því sem næst alger málefnaleg samstaða hefði verið á milli flokkanna á þingi. Reynslan yrði að skera úr um árangurinn og hugsanlega kæmi hann ekki í ljós fyrr en undir lok kjörtímabilsins. Áformað væri að í framhaldi af sameiningunni yrðu þeir sem aðhylltust jafnaðarstefnu laðaðir til samstarfs, sem gæti m.a. falist í uppstokkun flokkakerfisins eða víðtæku kosningasamstarfi.

Jóhanna sagði að um væri að ræða trúverðuga nálgun að sameiningu jafnaðarmanna á Íslandi. Hún hafi skírskotun í þau regnhlífarsamtök sem mynduðu R-listann fyrir borgarstjórnarkosningarnar 1994.

Jón Baldvin og Jóhanna vonast til að eiga gott samstarf

Jóhanna sagði skilið við Alþýðuflokkinn árið 1994 og gagnrýndi þá m.a. formann flokksins harðlega. Jóhanna sagðist í gær vona að samstarfið við Jón Baldvin yrði gott, persónur skiptu ekki máli í þessu sambandi heldur það verkefni að efla áhrif jafnaðarmanna. Jón Baldvin sagði að aldrei hefði verið um persónulega óvild af hans hálfu að ræða í garð Jóhönnu og sagði að sér væri ekkert að vanbúnaði að starfa innan raða jafnaðarmanna með henni.

Forystumenn flokkanna kynntu formanni Alþýðubandalagsins og þingflokksformanni Kvennalistans samkomulagið í gær en þessir flokkar tóku engan þátt í sameiningarumræðunum.

Formlegar viðræður hófust fyrir helgi

Rannveig Guðmundsdóttir, þingflokksformaður Alþýðuflokksins, sagði að ákvörðun um að hefja formlega viðræður um sameiningu þingflokkanna hefðu hafist fyrir seinustu helgi. Skipuð var viðræðunefnd sem í sátu Jón Baldvin, Rannveig og Guðmundur Árni Stefánsson varaformaður af hálfu Alþýðuflokks og Jóhanna, Svanfríður Jónasdóttir, þingflokksformaður Þjóðvaka, og Ágúst Einarsson varaformaður af hálfu Þjóðvaka. Sagði Rannveig að einhugur hefði verið meðal allra þingmanna flokkanna tveggja um samkomulagið.

Í sameiginlegri yfirlýsingu segir að þingflokkurinn eigi að starfa á grundvelli jafnaðarstefnunnar og byggja á stefnuskrám Alþýðuflokks og Þjóðvaka og muni hann kynna sérstaka málaskrá sína fyrir komandi þingi með útfærslu einstakra stefnumála.

"Okkur finnst þetta skref býsna stórt þótt það sé mat okkar að stærra hefði það ekki getað orðið í bili og við vitum að hér eru mikil pólitísk tíðindi á ferðinni," sagði Svanfríður.

Einar Karl ráðinn til starfa fyrir þingflokk jafnaðarmanna

Á fréttamannafundinum var einnig tilkynnt að Einar Karl Haraldsson, fráfarandi framkvæmdastjóri Alþýðubandalagsins, hefði verið ráðinn til starfa, í samvinnu við hinn nýja þingflokk og fleiri, til "að laða til samstarfs þá sem aðhylltust jafnaðarstefnuna og vilja vinna að nýsköpun í íslenskri pólitík sem m.a. gæti falist í uppstokkun flokkakerfisins eða víðtæku kosningasamstarfi," eins og segir í sérstakri samkomulagsyfirlýsingu flokkanna.

Einar segist verða áfram flokksbundinn í Alþýðubandalaginu en hann taki þetta verkefni að sér sem sjálfstætt starfandi ráðgjafi. Í því felst einnig, skv. samkomulaginu, að efna til umræðu og funda um einstök álitaefni í íslenskri pólitík og kynna pólitískar hugmyndir og lausnir jafnaðarmanna. Skapa á vettvang fyrir pólitíska umræðu og skipuleggja fundarhöld um landið með einstaka hópum eða félögum, m.a. í samvinnu við þingflokk jafnaðarmanna.

Þegar þingflokkur jafnaðarmanna kemur saman á að taka fyrir hvort gerðar verða breytingar á setu þingmanna Þjóðvaka og Alþýðuflokks í nefndum Alþingis.

Samkomulag þingflokkanna verður rætt á flokksstjórnarfundi Alþýðuflokksins á laugardag.

Morgunblaðið/Golli Sameiningin kynnt

JÓN Baldvin Hannibalsson, formaður Alþýðuflokksins, kynnir fréttamönnum samkomulag sem náðst hefur um sameiningu þingflokka Alþýðuflokks og Þjóðvaka. Við hlið hans sitja Rannveig Guðmundsdóttir, þingflokksformaður Alþýðuflokksins, og Jóhanna Sigurðardóttir, formaður Þjóðvaka.