BALDVIN JÓNSSON

Baldvin Jónsson hæstaréttarlögmaður fæddist í Reykjavík 10. janúar 1911. Hann lést í Reykjavík 1. september síðastliðinn. Foreldrar hans voru Jón Baldvinsson prentari, forseti ASÍ, bankastjóri og alþingismaður, og Júlíana Guðmundsdóttir húsfreyja. Fyrri kona Baldvins var Guðrún Gísladóttir og áttu þau þrjú börn en síðari kona var Emilía Ingibjörg Samúelsdóttir. Þá átti Baldvin stjúpson. Baldvin varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1931 og lauk prófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 1937. Hann öðlaðist réttindi héraðsdómslögmanns árið 1940 og hæstaréttarlögmanns árið 1954. Baldvin starfaði sem fulltrúi hjá lögmanninum í Reykjavík á árunum 1937­1940 og var um tíma fulltrúi lögreglustjórans í Reykjavík. Hann var lögfræðingur Búnaðarbankans á árunum 1940­1942. Hann rak eigin málflutningsstofu í Reykjavík frá árinu 1942 en í félagi við Reyni Karlsson hdl. frá árinu 1985 þar til stofan var sameinuð lögmannsstofu Jónatans Sveinssonar hrl. og Hróbjarts Jónatanssonar hrl. undir nafninu Almenna málflutningsstofan hf. Baldvin átti sæti í bankaráði Landsbankans, fyrst sem varamaður, síðar aðalmaður og var hann formaður ráðsins frá 1959 til ársloka 1972. Hann var varamaður í flugráði um árabil, átti sæti í stjórn Sjúkrasamlags Reykjavíkur og var formaður stjórnar á árunum 1952­1978 og hann sat í fjárhagsráði á árunum 1949­1953. Baldvin átti sæti í miðstjórn Alþýðuflokksins og sat í framkvæmdastjórn flokksins, þar af var hann formaður í fjögur ár. Hann var formaður Flugmálafélags Íslands, átti sæti í stjórn Sogsvirkjunar og í stjórn Landsvirkjunar. Baldvin var sæmdur gullmerki Flugmálafélags Íslands árið 1965, riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu árið 1970 og gullmerki Flugbjörgunarsveitarinnar árið 1990. Útför Baldvins fer fram frá Dómkirkjunni á morgun, mánudaginn 9. september, og hefst athöfnin klukkan 15.