BRESKA lögreglan eyðilagði í gær pakka sem stílaður var á Björk Guðmundsdóttur og grunur lék á að innihéldi sprengibúnað og brennisteinssýru, sem átti að sprautast yfir söngkonuna. Pakkinn var frá Ricardo Lopez, 21 árs aðdáanda hennar í bænum Hollywood á Flórída, sem framdi sjálfsmorð.
Tilræði við Björk afstýrt

BRESKA lögreglan eyðilagði í gær pakka sem stílaður var á Björk Guðmundsdóttur og grunur lék á að innihéldi sprengibúnað og brennisteinssýru, sem átti að sprautast yfir söngkonuna. Pakkinn var frá Ricardo Lopez, 21 árs aðdáanda hennar í bænum Hollywood á Flórída, sem framdi sjálfsmorð.

Dagblaðið Miami Herald hafði eftir Todd DeAngelis, lögregluþjóni í Hollywood, að á myndbandi, sem tilræðismaðurinn hefði tekið, hefði hann sagst aðdáandi Bjarkar, en hún væri "í tygjum við svartan mann. Það get ég ekki sætt mig við". Unnusti Bjarkar er tónlistarmaðurinn Goldie.

Sagði Lopez einnig á myndbandinu að vegna þess hvað hann væri gagntekinn af Björk hefði hann smíðað umræddan búnað og hygðist fremja sjálfsmorð. Kvaðst hann ekki vita hvort hún mundi hljóta líkamslýti, alvarleg meiðsl eða láta lífið.

Í fréttatilkynningu, sem lögreglan í Hollywood gaf út í gær, sagði að lík mannsins hefði fundist á mánudag eftir að lögregla hafði verið kvödd að húsi í bænum vegna óþefs úr íbúð. Við rannsókn dauðsfalls mannsins komu í ljós atriði sem bentu til þess að hann hefði haft í hyggju að sýna Björk tilræði með því að senda henni sýru í pósti og stílað böggulinn á umboðskrifstofu hennar.

Pakkinn fannst á pósthúsi í suðurhluta London í gær og var eyðilagður. Engan sakaði. Að sögn Nettie Walker, á umboðsskrifstofu Bjarkar, var innihald pakkans ekki kannað og því er ekki enn ljóst hvað hann innihélt. Björk sagði í yfirlýsingu í gær að hún hefði aldrei heyrt manninn eða séð, en að hún væri miður sín vegna málsins. Hún vildi að öðru leyti ekki tjá sig um það.

Drápstól smíðað fyrir framan myndavél

Í tilkynningunni frá lögreglunni í Hollywood sagði að Lopez hefði svipt sig lífi með því að skjóta sig í höfuðið og lík hans legið á gólfi íbúðar hans þegar lögreglu bar að. Þar fannst 8 mm kvikmyndatökuvél, sem hafði verið komið fyrir á þrífæti og var henni beint að líkinu.

Einnig fundust ellefu myndbönd. Eitt þeirra var í myndavélinni merkt "Síðasti dagur - Ricardo Lopez". Myndböndin sýndu Lopez ekki aðeins skjóta sig með 38 kalibera skammbyssu, heldur einnig setja saman sprengibúnað til að sprauta eiturefninu. Búnaðinum kom hann fyrir í bók, sem var hol að innan. Í Miami Herald sagði að þegar hann skaut sig hefði tónlist Bjarkar heyrst í bakgrunni.

Að sögn Trish Power, blaðamanns Miami Herald , sást Lopez halda umslagi með bókinni að linsu myndavélarinnar og gat lögregla séð hvert senda átti pakkann. Verið er að kanna hvort Lopez hafi sent aðrar sendingar af þessu tagi, en eins og sakir standa virðist það eitt hafa vakað fyrir honum að koma höggi á Björk.

Hjá Scotland Yard í London fengust aðeins þær upplýsingar að umrædd sending hefði verið stöðvuð í pósti, eyðilögð og engan hefði sakað. Verið væri að rannsaka málið í samvinnu við bandarísk yfirvöld, en engin nöfn yrðu gefin upp. Að sögn Trish Power verður það sem eftir er af pakkanum sent aftur til Bandaríkjanna og verður reynt að komast að því um hversu öflugt tæki var að ræða.

Lopez var ekki á sakaskrá, en ekki var vitað hvort hann hefði átt við sálræn vandamál að stríða. Hann starfaði sem meindýraeyðir í fyrirtæki sem nefnist Miami Mice.