ELDGOS hófst í 4 til 6 km langri sprungu undir Vatnajökli á milli Bárðarbungu og Grímsvatna um kl. 22.30 á mánudagskvöld. Magnús Tumi Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur á Raunvísindastofnun Háskólans, segir að þrír sigkatlar hafi verið að myndast yfir sprungunni um miðjan dag í gær.
GOS UNDIR VATNAJÖKLI Þrír sigkatlar

að myndast

Eldgos hófst í 4 til 6 km langri sprungu undir Vatnajökli á ellefta tímanum á mánudagskvöld. Þrír sigkatlar voru að myndast yfir sprungunni um miðjan dag í gær. Ef gosið heldur áfram og veldur Grímsvatnahlaupi gætu vegir og brýr á Skeiðarársandi orðið í hættu.

ELDGOS hófst í 4 til 6 km langri sprungu undir Vatnajökli á milli Bárðarbungu og Grímsvatna um kl. 22.30 á mánudagskvöld. Magnús Tumi Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur á Raunvísindastofnun Háskólans, segir að þrír sigkatlar hafi verið að myndast yfir sprungunni um miðjan dag í gær.

Magnús flaug með flugvél Flugmálastjórnar ásamt fleirum yfir svæðið í gær. "Við sáum greinilega 4 til 6 km langa sprungu í stefnunni norðnorðaustur og suðsuðvestur frá Grímsvötnum. Tveir sigkatlar, um 2 km í þvermál og um 100 m djúpir, voru að myndast yfir sprungunni um miðjan dag. Þriðji og ógreinilegasti sigketillinn var að myndast við suðsuðvesturenda sprungunnar. Grunn sigdæld, um 4 km löng, var frá suðurendanum niður í Grímsvötn," sagði hann.

Hann sagði að frá sigkötlunum rynni vatn í Grímsvötn. "Grímsvötn höfðu því risið um 10 til 15 m um miðjan dag. Sú hækkun samsvarar því að um 0,2 til um 0,3 rúmkílómetrar hafi komið í Grímsvötn frá því gosið hófst eða frá því um hálfellefu leytið á mánudagskvöld. Annars standa Grímsvötn fremur lágt vegna hlaupsins í vor. Ég býst við að þau geti hækkað um allt að 50 metra. Ef hins vegar gosið heldur áfram getum við átt von á stærra Grímsvatnahlaupi en komið hefur síðustu áratugi á næstu sólarhringum. Vegir og brýr á Skeiðarársandi gætu í slíku hlaupi orðið í hættu," sagði Magnús Tumi.

Hann sagði að upplýsingar væru um svipað gos árið 1938. "Það gos hafði í för með sér eitt stærsta jökulhlaupið í Skeiðará á öldinni. Mestallur Skeiðarársandur fór undir vatn í flóðtoppnum. Við eigum ekki von á jafnstóru hlaupi en viðbúið er að töluvert stórt hlaup gæti orðið í Skeiðará," sagði hann.

30 til 50 milljónir rúmmetra af gosefni komnar upp

Magnús Tumi sagði að áætlað væri að 30 til 50 milljónir rúmmetra af gosefni hefðu verið komnar upp með gosinu á um 15 klukkutímum um miðjan dag í gær. Hins vegar tók hann fram að töluvert væri í að gosefni kæmist upp í gegnum jökulinn enda væri jökullinn um 600 m að þykkt. "Ég er ekki endilega viss um, miðað við kraftinn núna, að gosið fari í gegn. Gosið stóð í nokkra daga árið 1938. Gosefnið varð 10 sinnum meira en komið er í dag í þessu gosi. Samt náði gosið ekki nema rétt undir lokin uppúr jöklinum. Smáöskuskvetta þakti pínulítið svæði á jöklinum."

Ragnar Stefánsson jarðskjálfafræðingur sagði að jarðskjálftarnir hefðu farið upp í 3,5 á Richter frá því í fyrrakvöld. Jarðskjálftunum hefði fækkað eftir hádegi í gær. Hins vegar hefði borið á reglulegum óróakviðum. Óróakviðurnar væru ekki ósvipaðar og í Grímsvötnum árið 1983.

Eins og Magnús Tumi tók hann fram að bið gæti orðið á því að Grímsvatnahlaup kæmi fram í Skeiðará, enda hefði orðið hlaup í Grímsvötnum síðasta vor. "Vatnið gæti svo að einhverju leyti farið til vesturs í Skaftá en katlar við upptök Skaftár tæmdu sig líka fyrr á árinu. Þess vegna er ekki víst að hlaup myndi fljótt koma fram í vötnunum," sagði Ragnar. Hjá honum kom fram að ef vatn fyndi sér rás og hlypi fram myndi hlaupið flýta fyrir gosi upp á yfirborðið.

Gos á milli megineldstöðva

Haukur Jóhannesson, jarðfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun, sagði gosið á milli megineldstöðvanna Bárðarbungu og Grímsvatna. Bárðarbunga sæti á miðri sprungureininni. Sprungureinin næði frá Torfajökli, upp í Bárðarbungu, norður Dyngjuháls og norður fyrir Trölladyngju. "Við vitum að öðru hverju hefur gosið í reininni. Hins vegar eru heimildir óljósar og ekki vitað með vissu nema um tvö gos fyrr á öldum. Annað gosið hefur verið kallað Veiðivatnagos og varð árið 1477. Við gosið varð til fjöldinn allur af gígunum á Veiðivatnasvæðinu. Mikil aska kom upp og barst til norðausturs. Hitt gosið hefur verið nefnt Vatnaöldugos og myndaði svokallað Landnámslag um árið 871. Gosið varð á sprungureininni suðvestan við sjálfa Bárðarbungu og óvíst hvort gosið hefur verið í henni sjálfri á sama tíma. Hins vegar er allt eins líklegt að töluverðar jarðhræringar hafi verið þar á sama tíma eða svipað og gerðist í Kröflu. Gosin hafa orðið inni í eldstöðinni og svo hafa sprungurnar opnast norður- og suðurúr," segir Haukur.

Hann segir að gríðarleg eldgos hafi orðið í reininni snemma í nútímanum. "Við gosin runnu svokölluð Þjórsárhraun og hið stærsta rann á milli Ölfusár og Þjórsár alveg niður í sjó. Hraunið er eitt hið stærsta sem runnið hefur á jörðinni. Aftur og aftur hafa orðið gos í reininni fyrir sunnan og norðan Bárðarbungu. Um gos í sjálfu fjallinu vitum við hins vegar sáralítið."

Grímsvötn virkasta eldstöð landsins

Haukur sagði að gríðarlega stór sigketill hefði myndast norður af Grímsvötnum árið 1938. "Vatnið fór inn í full eða nær full Grímsvötn og auðvitað flóði út fyrir. Afleiðingin varð gríðarlegt Skeiðarárhlaup enda valda gos inn í jöklinum því að ísinn bráðnar og vatnið leitar undan til að fá útrás annars staðar," segir hann.

Núna gýs, að sögn Hauks, á svipuðum slóðum og árið 1938. "Grímsvötn eru megineldstöð eins og Bárðarbunga og suðvestur úr henni er sprungurein og er talið að Lakagígar séu hluti af henni. Grímsvötn eru vafalítið virkasta eldstöð landsins síðustu þrjár til fjórar aldirnar. Þar gaus að meðaltali á 10 ára fresti framundir miðja þessa öld. Síðasta stóra Grímsvatnagosið varð árið 1934 en síðast varð Grímsvatnagos 1983. Í báðum gosunum náði eldgosið að brjótast upp í gegnum ísinn."

Minnti Haukur á að Grímsvötn hefðu hlaupið með þeim afleiðingum að Skeiðarárhlaup hefði orðið síðasta sumar. "Grímsvatnalægðin tekur við töluvert miklu eða þar til ákveðinni stöðu er náð og Skeiðarárhlaup hefst. Eftir fréttum að dæma hefur gosið núna afrennsli til Grímsvatnalægðarinnar," sagði hann og tók fram að Grímsvatnalægðin væri askja eða sigketill hálffull af vatni undir ísþekjunni.

Morgunblaðið/RAX TVEIR sigkatlar voru að myndast yfir sprungunni um miðjan dag. Fjærst og til vinstri er þriðji sigketillinn að myndast.

SIGKATLARNIR eru um 2 km í þvermál og um 100 m djúpir. Efst í hægra horninu sést í Heklu.

SUPER-cup flugvél Ómars Ragnarssonar virðist agnarsmá í samanburði við djúpar jökulsprungurnar.