2. október 1996 | Innlendar fréttir | 342 orð

Andlát

HELGI SKÚLASON LEIKARI

EINN HELSTI leikstjóri landsins, kvikmynda- og sviðsleikari, Helgi Skúlason, lést á 64. aldursári á mánudagskvöld. Foreldrar Helga voru Sigríður Ágústsdóttir í Birtingaholti og Skúli Oddleifsson í Langholtskoti í Hrunamannahreppi.
Andlát HELGI SKÚLASON LEIKARI

EINN HELSTI leikstjóri landsins, kvikmynda- og sviðsleikari, Helgi Skúlason, lést á 64. aldursári á mánudagskvöld. Foreldrar Helga voru Sigríður Ágústsdóttir í Birtingaholti og Skúli Oddleifsson í Langholtskoti í Hrunamannahreppi.

Helgi var fæddur 4. september árið 1933 í Keflavík. Hann var gagnfræðingur frá Héraðsskólanum á Laugarvatni og leikari frá Leiklistarskóla Þjóðleikhússins 1954. Að námi loknu var Helgi leikari hjá Þjóðleikhúsinu til ársins 1959. Hann var leikari og leikstjóri hjá Leikfélagi Reykjavíkur frá árinu 1959 til 1976 og hélt þeim störfum áfram hjá Þjóðleikhúsinu til dauðadags.

Helgi túlkaði fjölda persóna á leiksviðinu og er hans m.a. minnst fyrir hlutverk Ríkharðs III í Þjóðleikhúsinu árið 1986, Haralds í Stundarfriði 1979, Róberts Belfords í Marmara 1988 og Jóns Hreggviðssonar í Íslandsklukkunni árið 1985. Síðasta hlutverk Helga var bílstjórinn Í hvítu myrkri, sem frumsýnt var fyrir hálfum mánuði.

Silfurlampann, verðlaun leiklistargagnrýnenda, hlaut Helgi fyrir túlkun sína á Franz í Föngunum í Altóna. Hann leikstýrði m.a. Nótt ástmeyjanna, Ödipusi konungi, Amadeusi og Syni skógarans og dóttur bakarans í Þjóðleikhúsinu og verkunum Sumarið '37, Sjóleiðin til Bagdad, Hús Bernörðu Alba og Sú gamla kemur í heimsókn hjá Leikfélagi Reykjavíkur. Síðasta leikstjórnarverkefni Helga eftir ríflega áratugar hlé var Þrjár konur stórar hjá Kjallaraleikhúsinu síðastliðinn vetur.

Þá lék Helgi meðal annars í eftirtöldum kvikmyndum: Útlaginn, Húsið, Hrafninn flýgur, Í skugga hrafnsins, Hvíti víkingurinn, Leiðsögumaðurinn (í Noregi), Svo á jörðu sem á himni, Kristnihald undir Jökli, Hin helgu vé og Agnes. Hann var tilnefndur til Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna fyrir leik sinn í kvikmyndinni Í skugga hrafnsins.

Þá hafði Helgi einnig um tíma yfirumsjón með leikhúsi Ríkisútvarpsins, leikstýrði þar ýmsum verkum og lék fjölda hlutverka á þeim vettvangi.

Helgi var í stjórn Leikfélags Reykjavíkur á árunum 1960 til 1965, þar af formaður frá árinu 1962 til 1965, og varaformaður Félags íslenskra leikara á árunum 1975 til 1979. Hann var einn af forvígismönnunum að stofnun Félags leikstjóra á Íslandi árið 1972 og fyrsti formaður þess.

Eftirlifandi eiginkona Helga er Helga Bachmann, leikari og leikstjóri, og eignuðust þau þrjú börn, Hallgrím Helga, Skúla Þór og Helgu Völu. Stjúpbarn Helga er Þórdís Bachmann þýðandi.Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.