22. mars 1989 | Minningargreinar | 1046 orð

Haukur Óskarsson rakarameistari Sá iðnmeistari sem starfrækt hefur elzta

Haukur Óskarsson rakarameistari Sá iðnmeistari sem starfrækt hefur elzta fyrirtæki sinnar greinar á landi hér, er nú fallinn í valinn fyrr en varði, Haukur Óskarsson rakarameistari á Kirkjutorgi 6. Þarna í húsinu stofnaði afi hans, Árni Nikulásson, hina fyrstu rakarastofu í höfuðstaðnum um aldamótin og stýrði henni á þriðja áratug, síðari árin í félagi við Óskarson sinn, sem tók við eftir hans dag. Svipað fór og um þriðja ættliðinn. Haukur lærði og vann hjá föður sínum og rak stofuna eftir lát hans fyrir rúmum þremur áratugum.

Þessir feðgar allir þóttu hinir færustu meistarar iðngreinarinnar, og má reyndar bæta við bróður og bróðursyni Hauks, Friðþjófi (sem er einnig látinn) og Óskari.

Þótt Haukur gerði iðnfag feðranna að sérgrein sinni, beindist áhugi hans ekki síður að öðrum sviðum. Sem drengur hændist hannað knattspyrnuíþróttinni og helgaði henni ófáar stundir, bæði á leikvelli og í félagsstörfum innan Víkings. Um nokkurt árabil stóð hann í fremstu röð ísl. knattspyrnumanna. lék t.d. á erlendri grund rétt fyrir stríð og í fyrsta landsliði Íslendinga að stríði loknu. Hanngerðist svo seinna knattspyrnudómari og hlaut réttindi til að dæma milliríkjaleiki. Fórst honum það vel úr hendi.

Sem ungur maður gaf Haukur sig dálítið að leiklist um skeið og mun söngrödd hans hafa stuðlað að því. Fyrsta hlutverk hans hjá Leikfélagi Reykjavíkur var víst í söngvaleiknum Vermlendingunum, sem sýndur var í stríðslok, og síðan kom hann nokkrum sinnum á svið í Iðnó, t.d. sem Fiðlungur í Gullna hliðinu og William Belford í Marmara, og a.m.k. þrisvar í Þjóðleikhúsinu, sem Björn sonur Jóns biskups Arasonar, sem Bláskeggur í Heilagri Jóhönnu og í hlutverki kaupsýslumanns í Sölumaður deyr. Síðast mun Haukur hafa leikið í gamanleiknum Inn og út um gluggann, sem Einar Pálsson stjórnaði í Iðnó vorið 1955. Ég mun hafa sé hann í flestöllum hlutverkum hans á leiksviðum bæjarins og held að þarna hafi hann sýnt meiriog skemmtilegri tilþrif en endranær, enda var grunnt á gamanseminni í eðlisfari hans. Í viðræðum var hann oft eldfjótur að koma með hnyttinyrði eða kímilega athugasemd, enda skorti hann ekki greind.

Tónlistin átti sterk ítök í Hauk allt frá blautu barnsbeini. Foreldrar hans höfðu yndi af músik, og ekkivar langt liðið á hjúskap þeirra, er þau keyptu sér píanó til heimilisnota. Á það lék húsbóndinn sér til afþreyingar, og síðan voru börnin látin læra á píanó hjá hæfum kennurum þess tíma. Þykist ég geta dæmt um að þetta tónlistarnám hafi fallið í góðan jarðveg hjá systkinunum.

En Haukur hafði einnig ágæta söngrödd. Og því aflaði hann sér nokkurrar menntunar á því sviði. Eftir nokkra söngiðkun hér heimaá stríðsárunum brá hann á það ráð að stríði loknu að leita utan til þjálfunar í söng og sviðsleik. Fór hann til Salzborgar í Austurríki og nam við stofnun, sem ber nafn Mozarts (Mozarteum). Ekki gat hann varið ýkja löngum tíma ytra, þar sem hann var þá búinn að stofna eigið heimili og þurfti að sjá fyrir konu og ungum syni. Eftir Austurríkis dvölina sinnti Haukur mestallri þeirri leikstarfsemi, sem fyrr var á minnzt, og byrjaði þá á sönghlutverki Fiðlungs í Gullna hliðinu, semvar frumsýnt haustið 1948. Þá sagði Ásgeir Hjartarson um hanní leikdómi: "Myndarlegur og söngv inn Fiðlungur". Og hann var með í hópnum, þegar Leikfélag Reykjavíkur sýndi þetta verk í Finnlandi.

Haukur stóð á fertugu, þegarhann sagði skilið við leiksviðið, enda hafði viðdvöl hans þar ætíð verið skyldari tómstundagamni heldur en alvöruhlutverki. Þá voru synirnir orðnir tveir og engin tök á verulegum útúrdúrum frá aðalstarfinu.

Haukur var mikill útivistarmaður. Þegar knattspyrnuárin hurfu að baki, tók hann að iðka veiðiskap og gönguferðir. Hann þótti slyngur laxveiðimaður. Til marks um áhuga hans á landinu keypti hann í félagi við annan eyðijörðina Grund austurá Langanesi og reisti þar sumarhús. Þangað eru 700-800 km, hvortsem ekið er norður eða suður fyrir, svo að því gefast góð tækifæri tilað líta kringum sig á leiðinni. Þarna undi hann sér afar vel og hefði viljað vera þar oftar á ferðinni. Um landareignina rennur bergvatnsá með nokkrum silungi, og lét Haukur sér annt um þann stofn, reyndi að hlynna að honum og veigraði sér við að veiða þar svo nokkru næmi.

Haukur Óskarsson fæddist 5. jan 1915 og var því 74 ára, er hann andaðist af völdum hjartabilunar 13. þ.m. Hann var fyrsta barn foreldra sinna, Guðnýjar Guðjónsdóttur og Óskars Árnasonar, mikilla heiðurshjóna, sem eignuðust fjögur börn alls.

Haukur var tvíkvæntur. Fyrri konan er Þorbjörg Magnúsdóttir, en þeirra leiðir skildu eftir margraára hjúskap. Síðari kona Hauks var Ingibjörg Júlíusdóttir, en sambúð þeirra varð ekki ýkja löng, því að hún dó fyrir nokkrum árum. Þá hafði Haukur misst yngri son sinnfyrir skömmu af slysförum, svo að hann varð harkalega fyrir valdi ör laganna um það leyti. Þar á ofan féll þá frá um líkt leyti einn af beztu vinum hans. Er ekki ótrúlegt að til þessara rauna megi rekja upphafið að hjartabilun hans.

Haukur var drenglundaður og einkar viðkynningargóður. Hann naut vinsælda fyrir alúðlega framkomu, bæði á starfsvettvangi og í almennum samskiptum. Að vísu gat hann verið skapheitur, ef hann hafði málstað að verja, ekki sízt ef hann vildi taka upp hanzkann fyrir einhvern órétti beittan. Hugulsamur var hann og örlátur, hafði yndi af að gleðja fólk í kringum sig, ekki vinafólk einvörðungu heldur engusíður þar sem hann sá að vekja mátti bros í auga. t.d. hjá öldungi eða ungmenni.

Alltaf var ánægjulegt að fá Hauk í heimsókn. Þáði hann þá gjarnan kaffisopa, en fyrst settist hann við píanóið, hljóðfærið góða úr Kirkju torgi, og lék t.d. eina af prelúdíum Rakhmaninoffs eða þá sónötu eftir Mozart. En tæki hann söngröddina inn í dæmið, urðu Vínaróperett urnar gjarnan fyrir valinu eða ítalskt Napólílag.

Kona mín syrgir nú kæran bróður, en milli þeirra voru afar sterk vináttubönd, og að mínu leyti sakna ég góðs mágs, sem var mér vinsamlegur allt frá fyrstu kynnum.

Innilegar samúðarkveðjur skulu fluttar syni hins látna, Hauk Ragnari kennara, Rannveigu konu hansog börnum þeirra þremur, hinni tengdadótturinni, Hallveigu, og dóttur hennar, Huldu systur hansog öðrum skyldmennum, vandamönnum og nánum vinum.

Það er stutt leið frá fæðingarstað Hauks Óskarssonar yfir til Dómkirkjunnar, þar sem útförin fer framí dag. Þar í milli Kirkjutorg sem skoða má sem aðalleikvöll í lífi hins góða drengs. Þar á hann sennilega fleiri gengin spor en aðrir fyrr og síðar.

Baldur Pálmason

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.