22. mars 1989 | Minningargreinar | 501 orð

Haukur Óskarsson hárskerameistari Þeim fer nú ört fækkandi æsku vinunum. Einn

Haukur Óskarsson hárskerameistari Þeim fer nú ört fækkandi æsku vinunum. Einn af öðrum hafa þeir horfið á braut. Hugur minn reikar til baka, og minningarnar líða hjá eins og í kvikmynd. Hvernig kveður maður góðan vin?

Haukur Óskarsson var Reykvíkingur, fæddur 5. janúar 1915, sonur merkishjónanna Óskars Árnasonar, hárskerameistara, og Guðnýjar Guðjónsdóttur. Hjá föður sínum nam hann iðngrein sína, á stofunni sem afi hans stofnsetti uppúr aldamótum. Haukur var vandvirkur og aðlaðandi, dafnaði fyrirtækið því vel undir hans stjórn, en frá stofnun þess hafa Reykvíkingar notið þar góðrar þjónustu, margir frá fyrstu sporum og áfram.

Margar ánægjustundir átti ég á heimili Hauks við Kirkjutorg í Reykjavík, þar sem Haukur söngog lék undir á píanó. Þá er margs að minnsta frá æskudögum okkará gamla íþróttavellinum við Suðurgötu, þar sem æska Reykjavíkur hittist við knattspyrnu o.fl. íþróttir, en Haukur var einn af afreksmönnum íslenskra íþrótta, og hrókur alls fagnaðar í fyrsta landsliði Íslandsí þeirri íþrótt, árið 1946.

Knattspyrnudómari var hann að loknum knattspyrnuferli sínum með Knattspyrnufélaginu Víkingi, og gegndi trúnaðarstörfum sem slíkur erlendis á vegum alþjóðasamtaka og þótti takast með afbrigðum vel. Hann var sjálfum sér, félagi sínu og okkar litlu þjóð til sóma.

Haukur var níu árum eldri en ég, en leiðir okkar lágu snemma saman, og það átti fyrir okkur að liggja að vera samferðamenn þar til hann andaðist 13. þ.m. Hann var geð prúður, glaðvær og tryggur vinur, sem aldrei brást. Hann var sérstakt snyrtimenni, sem öllum vildi rétta hjálparhönd, og ekkert aumt mátti sjá. Hann var afskaplega viðkvæmur, en bar sorgir sínar af mikilli karlmennsku. Haukur var andstæðingur minn á knattspyrnuvellinum, en góður félagi utan vallar. Við sem þekktum hann bárum jafn mikla virðingu fyrir honum innan vallar sem utan. Það er erfitt og sárt að sjá á bak slíkum félaga.

Haukur var tvíkvæntur. Fyrri kona hans var Þorbjörg Magnúsdóttir. Með henni átti hann tvo syni, Hafstein og Hauk Ragnar. Þorbjörg og Haukur slitu samvistum. Hafsteinn lést af slysförum í Englandi fyrir nokkrum árum. Var það þungbær sorg, sem hafði mikil áhrif á viðkvæman föður. Báðir synirnir Hafsteinn og Haukur Ragnar áttu afabörn, sem Haukur ræddi oft um og fór ekki milli mála hve sterkar taugar hann bar til þeirra. Seinni kona Hauks var Ingibjörg Júlíusdóttir Felsmann, en hann missti hana eftir fárra ára sambúð. Þau voru barnlaus, en Ingibjörg átti uppkomin börn af fyrra hjónabandi, og tókst með þeim sama vináttan og ástúðin sem hans eigin börn væru.

Haukur var um margt hamingjusamur maður. Vinmargur, með stóra og góða fjölskyldu. Hans verður sárt saknað víða hjá vinum og vandamönnum. Er ekki eðlilegt að spurt sé þegar komið er að krossgötum, hvernig kveður maður góðan vin hinstu kveðju? Það er sjónarsviptir að hverjum og einum úr gamla miðbænum sem einn af öðrum hverfa af sjónarsviðinu. Vinur minn tryggi, Haukur Óskarsson, setti svip á borgina, minningar um hann munu lengi lifa.

Fjölskylda mín sameinast mér og sendir innilegar samúðar- og sakn aðarkveðjur til þeirra ættingja semeiga um sárt að binda.

Albert Guðmundsson

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.