6. október 1996 | Sunnudagsblað | 1253 orð

Fangar Djöflaeyjunnar PERSÓNURNAR í bíómyndinni Djöflaeyjunni eru margar og fjölbreytilegar. Einar Kárason höfundur bókanna um

PERSÓNURNAR í bíómyndinni Djöflaeyjunni eru margar og fjölbreytilegar. Einar Kárason höfundur bókanna um fólkið í Thulekampinum segir frá tilurð þeirra og tilvist ÉG VEIT nú ekki hvað ég get verið að lýsa þessu liði mikið," segir Einar Kárason rithöfundur um braggafólkið sitt.

Fangar

Djöflaeyjunnar

PERSÓNURNAR í bíómyndinni Djöflaeyjunni eru margar og fjölbreytilegar. Einar Kárason höfundur bókanna um fólkið í Thulekampinum segir frá tilurð þeirra og tilvist

ÉG VEIT nú ekki hvað ég get verið að lýsa þessu liði mikið," segir Einar Kárason rithöfundur um braggafólkið sitt. Fyrir áratug eða svo hjálpaði ég strák í menntaskóla með ritgerð sem átti að vera um persónulýsingar í braggasögunum. Við settumst niður og skrifuðum ritgerðina í sameiningu en hann fékk algera falleinkunn fyrir hana, tvo held ég, og með þeim athugasemdum frá kennaranum að hann léti ekki bjóða sér svona þvaður framar."

Karólína og Tommi

Engu að síður veit Einar mest um persónurnar í Djöflaeyjunni og við settumst niður og ræddum heila galleríið, tilurð þeirra og tilvist. Karólína spákona er hluti af þessari spákellingatradisjón sem er mikið fyrir bí. Kveikjan að henni er ákveðin spákona úr braggahverfi vestur í bæ. Það var manneskja sem ég þekkti ekki neitt og sá aldrei og er ekki að skrifa um. Karólína er sterk persóna sem gín yfir fjölskyldu sinni og deilir og drottnar. Þegar ég var að byrja að skrifa Þar sem Djöflaeyjan rís las ég Hundrað ára einsemd eftir Gabriel Garcia Marquez og brá dálítið því hann er með sama kerfi, ein kerling ævaforn er hrygglengjan í sögu margra kynslóða."

Tommi er maðurinn hennar. Hann gerir ekkert nema vinna fyrir fjölskyldunni sem þykir ómerkileg rulla. Gagnrýnendur hafa séð í honum tákn fyrir hinn vinnandi mann. Hann er forsmáður og afskiptur, en það var ekki þaulhugsað þannig af minni hálfu. Tommi hefur líka ambisjónir fyrir hönd hverfisins. Þar fara menn í hundana og leiðast út í afbrot en hann vil beina mönnum á rétta braut. Hann fær Hreggvið til að æfa aftur kúluvarp og hjálpar Grjóna vini Badda, en eins og er með marga góðviljaða hugsjónamenn er lítið mark tekið á honum."

Baddi

Uppáhaldsbarnið á heimilinu er dóttursonur Karólínu, Baddi. Menn hafa talið sig vita að ógæfumaðurinn Bóbó á Holtinu sé fyrirmynd Badda og það er rétt að útlínurnar í þeirra ævi eru samskonar. Bóbó var líka alinn upp af ömmu sinni, fór til Ameríku á rokkárunum og kom heim sem helsti töffari bæjarins en spilaði illa úr því. Ég held að þegar spurðist út að Bóbó væri fyrirmynd Badda hafi frægðarsól hans fyrst farið að skína. Ég kynntist honum aðeins og þegar ég hitti hann þakkaði hann mér fyrir hvað ég hafði gert hann frægan. Nú vildu allir rétta honum 500 kall og rifja upp með honum hvað þeir höfðu gert margt skemmtilegt í gamla daga. Það er til helvíti góð saga um fyrirmyndina Bóbó og sögupersónuna Badda. Þegar Djöflaeyjan rís var sett upp í Skemmunni á vegum Leikfélags Reykjavíkur var náð í Bóbó og hann fenginn til að sitja á sýningu. Eftirá var honum boðið baksviðs og leikararnir voru mjög spenntir að heyra viðbrögðin. Þegar Bóbó birtist vatt hann sér strax að söngvaranum Bödda Billó og sagði: Helvíti náðirðu mér vel maður."

Bróðir Badda er Danni. Hann er Hinn í bókunum og þar er farið nær honum en í myndinni. Hann líður fyrir að falla alltaf í skuggann af bróður sínum. Hann er uppburðarminni lengi vel en á svo sína uppreisn þegar hann gerir eitthvað með sitt líf, lærir eitthvað."

Systir bræðranna er Dollí og hennar maður heitir Grettir. Það gildir það sama um Gretti og Tomma að hann er bara vinnudýr en minni sanda og sæva en Tommi. Hann er maður sem fer með löndum. Ég hélt alltaf mest uppá Gretti. Fólk upplifir Dollí sem neikvæðustu persónuna í bókunum, en það var ekki ætlunin. Ég hafði alltaf simpatí með þessari persónu og mér finnst Halldóra Geirharðsdóttir koma henni mjög vel til skila í myndinni. Hún er stödd í þeirri ógæfu að sjá og upplifa í návígi og fjarlægð einhverja draumaveröld sem tengist Ameríku en er föst í allt öðrum veruleika. Hún er móðir og eiginkona í braggahverfi í Reykjavík og það gerir hana ofsalega frústreraða."

Móðir Badda og dóttir Karólínu heitir Gógó. Hún kemur lítið við sögu en er mikill örlagavaldur. Hún býr í Ameríku og vegna hennar og gjafanna frá henni verður Karólínufólkið svolítill aðall í braggahverfinu. Þau höfðu hotline til himnaríkis með því að þekkja einhvern í Ameríku."

Grjóni

Í næsta bragga býr Þórgunnur með sonum sínum, Grjóna og Didda. Hún er kannski fulltrúi þeirrar algeru eymdar sem fólk í braggahverfi bjó oft við. Fólk sem hrökklaðist þangað fátækt og heilsulaust með börn. Hún er ekkja sem þarf að þræla allan daginn í kalsa fiskiðjunnar og börnunum er strítt í skóla fyrir braggafýluna. Hún er svona kona sem ég las um, ég man ekki hvar, sem sat uppi alla nóttina við að sauma nýja skólatösku handa stráknum sínum en hann kom svo heim úr skólanum með hana í tætlum af því honum var strítt á henni."

Synir hennar eru Grjóni og Diddi. Þeir eru aldir upp í fátækt og eymd. Diddi guggnar á lífinu en Grjóni snýst til varnar og verður stoltur glæpamaður. Hann rís upp og skorar þjóðfélagið á hólm, sterkastur og mestur en alltaf utangarðs. Það er ein setning sem lýsir honum vel og ég heyrði fyllibyttu segja, sem ég kjaftaði við og hafði oft setið inni. Þetta var 1984, þegar ég var að skrifa Gulleyjuna. Hann kvartaði yfir framkomu lögreglunnar í sinn garð og sagði reiður: Eins og ég sé einhver snúruþjófur. Honum fannst hann vera eitthvað merkilegra en það. Grjóni segir þetta í myndinni: Heldur þú að ég ætli alltaf að vera einhver snúruþjófur?"

Hreggviður

Í þriðja bragganum býr Hreggviður með fjölskyldu sinni. Hreggviður er svona íslenskur kraftamaður sem alltaf virðast vera til. Eftir því sem hlutfall krafta gildir meira á móti tækni og fimi eigum við meiri séns í íþróttum. Hann er hrímþurs sem ræður ekki við afl sitt. Þegar bækurnar komu út var annar hver maður með það á hreinu að hann væri Gunnar Huseby. Hann var einn af þessum mönnum með takmarkalausa krafta sem farnast illa í einkalífinu og verða drykkjunni að bráð. En hann er ekki kveikjan nema að litlu leyti. Ég heyrði um annan mann sem setti falskt heimsmet á Melavelli, ég held í kringlukasti, og þar kviknaði hugmyndin að kúluvarparanum. Þess vegna er ósanngjarnt að líkja honum við Gunnar, afrek hans voru aldrei neitt fals."

Eiginkona Hreggviðs er Gréta. "Hún er fyrrverandi dægurlagasöngkona í bókunum en það færðist yfir á Þórgunni í bíómyndinni. Gréta er lítil kona sem býr með þessu ógurlega stórmenni og hefur enga burði til að ráðskast með það á neinn hátt. Ég held mikið uppá setningu í myndinni sem lýsir henni vel. Þau koma inn í sóðalegan braggann, sem er í algerri niðurníðslu og hún lítur í kringum sig upptendruð af hrifningu og segir: Loksins fáum við hús til þess að búa í."

Dóttir Heggviðs er Hveragerður. Hún er falleg og fíngerð stúlka sem allir strákar líta til og það er plús fyrir Badda, sem giftist henni í myndinni, að hún er fámál; kellingar hafa ráðskast með hann allt hans líf. Hveragerður segir hins vegar afar fátt en hefur blik í auga og hugsar sitt."

Að auki eru minni hlutverk eins og Maggi bjútí, krimmi sem dæmdur er í fangelsi fyrir að brjótast inn í fiskbúð, og Lúí Lúí, vasaþjófur sem fer að sýna vasalistir sínar á sviði. Skari skrípó leikur hann og það er eins og rullan hafi verið skrifuð með hann í huga. Það er enn einn vitnisburður um geníalítet Friðriks að fá Skara í hlutverkið."

Morgunblaðið/Ásdís BÓBÓ þakkaði mér fyrir að gera sig frægan; Einar Kárason rithöfundur á tökustað sl. vetur með Guðmundi Ólafssyni, sem leikur Gretti, uppáhaldspersónu Einars í braggasögunum.Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.