BORGARKRINGLAN var byggð 1988 og hefur sett mikinn svip á umhverfi sitt. Í vor var ákveðið að ráðast í miklar breytingar á byggingunni. Framkvæmdir hófust um miðjan júlí og hafa gengið bæði hratt og vel. Byggð verður 7000 rúmmetra viðbygging fyrir kvikmyndahús með þremur sýningarsölum og sætaplássi fyrir 700 manns.
Borgarkringlan gerbreytist og sam- einast Kringlunni BORGARKRINGLAN fyrrverandi er að fá á sig algerlega nýtt yfirbragð, bæði úti og inni og verður í framtíðinni hluti af Kringlunni. Reist er viðbygging fyrir stórt kvikmyndahús og gagngerar breytingar fara samtímis fram á húsinu. Magnús Sigurðsson kynnti sér breytingarnar. BORGARKRINGLAN var byggð 1988 og hefur sett mikinn svip á umhverfi sitt. Í vor var ákveðið að ráðast í miklar breytingar á byggingunni. Framkvæmdir hófust um miðjan júlí og hafa gengið bæði hratt og vel. Byggð verður 7000 rúmmetra viðbygging fyrir kvikmyndahús með þremur sýningarsölum og sætaplássi fyrir 700 manns. Öll ásýnd hússins breytist og Borgarkringlan hættir að vera sjálfstæð bygging en verður hluti af Kringlunni og opnast bæði til austurs og norðurs fyrir fólksumferð þaðan. Byggingin verður klædd að utan með plötum í sömu litum og Kringlan. Nýr aðalinngangur verður settur á norðurhliðina, en inngangurinn á vesturhliðinni hverfur. Um leið verða gerðar miklar breytingar á innganginum, sem snýr út að torginu á milli Borgarkringlunnar og Kringlunnar, en þar eiga byggingarnar að tengjast saman undir yfirbyggðu þaki. Ástæðan fyrir þessum breytingum var fyrst og fremst sú, að rekstur Borgarkringlunnar gekk ekki sem skyldi. Því gengu lánastofnanirnar, sem áttu orðið Borgarkringluna, til samstarfs við Kringluna um að sameina byggingarnar. Þrjár arkitektastofur vinna að hönnuninni á þessum umfangsmiklu breytingum, en þær eru Teiknistofa Halldórs Guðmundssonar, Batteríð og auk þess ensk arkitektastofa með arkitektinn Richard Abrahams í fararbroddi. Hann er hugmyndafræðingurinn að baki þessum breytingum, en hann lagði einnig grundvöllinn að hönnun Kringlunnar á sínum tíma. Þegar búið var að taka ákvörðun um breytingarnar, tóku íslenzku arkitektarnir við verkinu og þeir hafa séð um útfærslur og framkvæmdir. Þannig hefur Halldór Guðmundsson hannað bíóið og breytingar á bílakjallara en Sigurður Einarsson frá Batteríinu hefur hannað hina nýju innganga í Borgarkringluna jafnt sem aðrar breytingar, bæði inni og úti. Bíó fyrir 700 manns Bíóbyggingin er mjög áberandi þáttur í þessum breytingum og einn sá umfangsmesti. Sú spurning kemur strax upp, hvort hönnun hennar hafi ekki verið vandkvæðum háð, því að aldrei var gert ráð fyrir bíóbyggingu á þessum stað í upphafi. - Það er að sjálfsögðu alltaf nokkrum vandkvæðum háð að reisa svona stóra viðbyggingu við hús, sem þegar er komið upp, segir Halldór Guðmundsson arkitekt. - Það þarf að leysa flókin burðarþolsatriði og bílastæðin fyrir vestan bygginguna hverfa og það þarf að bæta úr því. Að sjálfsögðu þurfti að fá leyfi byggingarnefndar Reykjavíkur fyrir slíkum breytingum. Þýðingarmikil breyting felst í því, að bílastæði Borgarkringlunnar verða sameinuð bílastæðum Kringlunnar og þau tengd saman með fjórum römpum, þannig að hægt er að aka á milli. Göngurampar verða einnig settir upp á milli bílageymslnanna. - Með þessu renna bílageymslurnar saman í eitt og öll umferð á milli þeirra, jafnt fyrir bíla sem gangandi fólk, verður hindrunarlaus, segir Halldór. - Með þessu verða sameiginleg bílastæði miklu fleiri en var. Bílastæði Borgarkringlunnar og kjallari hennar nýtast líka miklu betur, en hann hefur verið illa nýttur fram að þessu. Mikilvæg umferðarbreyting felst líka í því, að framvegis verður ekið af götu inn á efra plan Kringlunnar við Borgarleikhúsið, þar sem inngangur starfsmanna og bílastæði þeirra hafa verið. Sá veggur, sem skildi þessar byggingar að, verður rifinn. Aðkoma fyrir bíla úr þessari átt verður því mun auðveldari en var. Að sögn Halldórs hefur mikill byggingahraði einkennt framkvæmdirnar. - Slíkur framkvæmdahraði krefst afar mikillar samvinnu verktaka, hönnuða og allra stjórnenda verksins, en þessi samvinna hefur tekizt mjög vel og verkið gengið ágætlega, segir hann. - Bíóið er byggt á örskömmum tíma. Það skipti því miklu máli, úr hvaða byggingarefnum það er byggt. Stálgrind varð fyrir valinu, en hún krefst mikillar nákvæmnisvinnu. Einingarnar í hana eru smíðaðar á verkstæðum hér heima og síðan fluttar á byggingarstaðinn og raðað þar saman. Jafn stór viðbygging og bíóbyggingin hefur að sjálfsögðu mikil áhrif á allt umhverfið, en í næsta nágrenni eru stórar byggingar eins og Borgarleikhúsið, sem taka þurfti tillit til. Bíóbyggingin breytir líka mörgu fyrir eigendur húsnæðis í báðum turnum Borgarkringlunnar. Engar breytingar verða samt á turnbyggingunum né notkun þeirra, en í þeim eru bæði skrifstofur og íbúðir. - Það þurfti að sjálfsögðu að taka mikið tillit til nágrennis og umhverfis við hönnun bíóbyggingarinnar, segir Halldór. - Ég tel þó, að það hafi tekizt vel og að hún verði í senn falleg en látlaus og falli vel að umhverfi sínu. En verður bíóið frábrugðið öðrum kvikmyndahúsum hérlendis? - Anddyrið verður á annarri hæð inni í húsinu og það verður óneitanlega all frábrugðið, segir Halldór. - Reynt verður að hafa það eins áberandi og aðstæður leyfa. Anddyrið er hannað samkvæmt nýrri erlendri fyrirmynd með sterkum ljósaeffektum" til þess að vekja á því athygli. Þegar komið er inn í það, mun blasa við glæný tegund af myndbandsvegg. Áformað er að opna bíóið með sýningu á annan í jólum. - Bíóið á eftir að koma á óvart og bíógestir eiga eftir að sjá þar hluti, sem þeir hafa ekki séð í öðrum kvikmyndahúsum hér á landi, segir Halldór Guðmundson arkitekt að lokum. - Jafnframt verður séð fyrir því, að bíógestum líði vel. Bíósalirnir verði mjög fullkomnir, en í þeim verður notað svokallað THX kerfi. Það gerir miklar kröfur til hljóðeinangrunar og alls, sem að henni lýtur og jafnframt til þess, að fólk sjái mjög vel á tjaldið. Þetta er leyst með því að hafa þrep á milli sætaraða, en með því fæst góður halli á milli þeirra. Mikil útlits- breyting að utan Ný klæðning verður sett á Borgarkringluna að utan og þar valin sömu efni og litir og notaðir eru í Kringlunni. Báðar byggingarnar fá því eins líkt yfirbragð og hægt er og verða líkastar því, sem um eina byggingu sé að ræða. Vesturinngangnum, þar sem bíóið kemur, verður lokað, en hann hefur verið mjög áberandi. Eftirleiðis verða eingöngu anddyri í austur og norður. Þessir inngangar verða einkenndir með sama gula lit og aðrir inngangar í Kringlunni. Sömu sögu má segja inni. - Það gólfefni, sem fyrir var, þótti allt of dökkt og drungalegt, segir Sigurður Einarsson arkitekt, sem nú hefur orðið. - Því var ákveðið að skipta alveg um gólfefni og setja í staðinn ljóst terrassó, svipað og er í Kringlunni. Um leið er gönguleiðum breytt inni í Borgarkringlunni. Allir botnlangar á verzlunarsvæðinu eru teknir burt, þannig að umhverfið líkist meira samfelldri göngugötu en áður. Hugmyndin er að draga að sem flest fólki með starfsemi, sem laðar að. Efri hæðin verður aðallega afþreyingarhæð. Þar verður inngangurinn í bíóið og ennfremur 250 ferm. Sega"- leiktækjasalur með fjölskylduvænum leiktækjum og því öðru vísi en tíðkast hér á landi nú. Slíkir leiktækjasalir eru sem óðast að ryðja sér til rúms erlendis. Við hliðina á bíóinu verður miðasala fyrir bíóið og síðan kemur lítil búð, sem á að selja minjagripi tengda bíómyndum og annað af því tagi. Þar verður einnig lítill ísbar. Kringlukráin verður á sínum stað, en Götugrillið flytur af neðri hæð upp á efri hæðina og verður með nokkuð öðru sniði en áður. Á efri hæðinni verður ennfremur margmiðlunarverzlun í 550 ferm. húsnæði og þar að auki nokkrar mjög smáar verzlunareiningar, en þær eru ekki til staðar í Kringlunni nú. Á neðri hæð verða tvær stórar verzlanir, Habitat í 900 ferm. og Penninn í 400 ferm. húsnæði. Þar verður ennfremur Kökuhúsið á sama stað og áður og einnig verður þar lítið kaffisöluhús eða kaffibar. Í heild verður samsetning verzlana og þjónustufyrirtækja í byggingunni önnur en í Kringlunni, svo að fyrirtækin keppi ekki hvert við annað. Með þessu fæst væntanlega sú breidd, sem Kringluna vantar í dag. Fyrirtækin mun styrkja hvert annað með aukinni umferð fólks. Þegar komið er út úr bíóinu, er ekki gengið beint út á götu heldur inn í sameignina, þar sem verzlunar og þjónustufyrirtækin blasa við. - Hvort verzlunareigendur nýti sér að hafa opið svo lengi sem bíóið er opið, en það er til kl. eitt eftir miðnætti, á eftir að koma í ljós, segir Sigurður. - En vafalaust munu margir hafa opið fram eftir kvöldi. Þetta eru mjög umfangsmiklar framkvæmdir og sumar þeirra all flóknar. Sú spurning kemur strax upp, hvort margs konar vandamál hafi komið upp, sem ekki var reiknað með í upphafi, en hafi þó reynzt erfiðir þröskuldar? - Jú vissulega, segir Sigurður. - En öll vandamál eru samt leyst. Erfiðasta vandamálið fólst í því, hvernig tengja ætti saman norðuranddyri Borgarkringlunnar við gömlu Kringluna. Þá er það að sjálfsögðu mikilvægt, að verzlanirnar keppi ekki hver við aðra, heldur vinni saman sem heild í báðum byggingunum. Hluti af vandanum fólst í því, að ekki var búið að ákveða samsetningu verzlana, þegar hafizt var handa um hönnun og útboð. Á meðan hönnunarvinnan hefur staðið yfir, hefur það gerzt, að ný fyrirtæki komu til sögunnar. Þá hefur nokkrum sinnum þurft að gera róttækar breytingar á innréttingum og öðru af því tagi, af því að hönnunin tók algera kúvendingu. Þá hefur það vissulega krafizt mikillar þolinmæði við að hanna framkvæmdina upp á nýtt. - Þegar einstakir þættir eru ekki hannaðir fyrirfram, eru alltaf einhver atriði óleyst, segir Sigurður Einarsson arkitekt að lokum. - Við hönnuðirnir höfum samt kappkostað að halda okkur við þann kostnaðarrammma og þær grundvallarlausnir í hönnunarvinnunni, sem okkur voru settar í upphafi. Ég á því ekki von á, að kostnaður við þessar framkvæmdir fari að neinu marki fram úr þeim áætlunum, sem gerðar voru í upphafi. Verkið hefur sótzt mjög vel, en aðalverktaki er Ármannsfell. Auk þess vinnur fjöldi undirverktaka að verkinu ásamt tugum iðnaðarmanna. KVIKMYNDAHÚSIÐ verður 7000 rúmmetra viðbygging með þremur sýningarsölum og sætaplássi fyrir 700 manns. Áformað er að opna bíóið með sýningu á annan í jólum. INNGANGURINN á austurhlið fær nýtt útlit og tengist Kringlunni með þakbyggingu. Borgarkringlan hættir að vera sjálfstæð bygging, en verður eftirleiðis hluti af Kringlunni. FYRIRHUGAÐ miðsvæði á efri hæð Borgarkringlunnar. Tveir rúllustigar liggja upp og niður. Neðst til vinstri er gangurinn inn að Kringlukránni, síðan kemur lyfta og við hliðina á henni er anddyrið á bíóinu. Þar næst er miðasala fyrir bíóið og síðan kemur lítil búð, sem á að selja minjagripi tengda bíómyndum og annað af því tagi. Síðan kemur stór leiktækjasalur (Sega Megastore) með fjölskylduvænum leiktækjum. Neðst til hægri heldur sameignin áfram til norðurs. Morgunblaðið/Ásdís FRÁ vinstri: Halldór Guðmundsson arkitekt, hönnuður bíóbyggingarinnar, Einar Halldórsson, framkvæmdastjóri Kringlunnar og Sigurður Einarsson arkitekt, hönnuður breytinganna á Borgarkinglunni, bæði inni og úti. Í baksýn má sjá framkvæmdir við bíóbygginguna. NÝR aðalinngangur verður settur á norðurhlið Borgarkringlunnar. Jafnframt verður húsið klætt að utan með plötum í sömu litum og Kringlan. Öll ásýnd hússins breytist og eins og sjá má hefur merki Kringlunnar verið málað á vegginn.