ALAN Moray Williams, blaðamaður, þýðandi og skáld, lést í Kaupmannahöfn 6. október sl. Alan fæddist í Portsmouth í Hampshire í Englandi 17. janúar 1915. Hann var sonur Moray Williams, kennara og fornleifafræðings, og Mabel L. Unwin, kennara. Systur hans voru Barbara Árnason listakona og Ursula Moray Williams rithöfundur.
ALAN MORAY

WILLIAMS

ALAN Moray Williams, blaðamaður, þýðandi og skáld, lést í Kaupmannahöfn 6. október sl.

Alan fæddist í Portsmouth í Hampshire í Englandi 17. janúar 1915. Hann var sonur Moray Williams, kennara og fornleifafræðings, og Mabel L. Unwin, kennara. Systur hans voru Barbara Árnason listakona og Ursula Moray Williams rithöfundur.

Alan kom fyrst til Íslands sumarið 1948 og dvaldi hjá systur sinni og mági, Magnúsi Á. Árnasyni. Hann gerðist mikill Íslandsvinur enda hafði hann náið samband við Barböru. Hér kynntist hann fyrri konu sinni Annelise, sem vann fyrir sendiráð Dana. Þau fluttust til Kaupmannahafnar, en Alan hefur búið í Danmörku síðan. Þau skildu eftir alllangt hjónaband. Þau áttu engin börn.

Alan vann lengst af á eigin vegum sem blaðamaður og þýðandi. Einnig gaf hann út nokkrar ljóðabækur og smásögur. Hann var skandinavískur blaðafulltrúi allmargra breskra blaða. Hann hlaut háskólamenntun í Cambridge, þar sem hann lagði stund á bókmenntir og húmanísk fræði. Hann lærði m.a. rússnesku og þýddi ljóð og prósa af því máli. Hann starfaði oft sem túlkur fyrir ýmsar sendinefndir Breta og Dana til Sovétríkjanna. Einnig hefur birst eftir hann fjöldi viðtala við rússnesk skáld og fræðimenn.

Eftirlifandi eiginkona Alans, Erkel Moray Williams, er hjúkrunarfræðingur og veflistakona. Þau eignuðust þrjú börn: Nicolas sem er dýrafræðingur, Ella er flautukennari og Alexander nemi.

Alan eignaðist marga góða vini á Íslandi. Allmargar greinar eftir hann hafa birst í Morgunblaðinu gegnum árin. Hann kom til Íslands síðast fyrir tveimur árum. Þá var hann aldursforseti hóps blaðamanna frá Norðurlöndunum sem kom hingað á ráðstefnu.

Alan Moray Williams verður jarðsettur í Alleröd á Sjálandi nk. föstudag, 12. október.