29. mars 1989 | Minningargreinar | 1109 orð

Minning: Finnbogi Rútur Valdimarsson bankastjóri Í dag fer fram útför Finnboga

Minning: Finnbogi Rútur Valdimarsson bankastjóri Í dag fer fram útför Finnboga Rúts Valdimarssonar, fyrrverandi bankastjóra í Útvegsbanka Íslands. Hann andaðist í Borgarspítalanum í Reykjavík, klukkan 11 að morgni, sunnudaginn 19. marz síðastliðinn, eftir þungbær veikindi.

Finnbogi Rútur fæddist í Fremri-Arnardal við Skutulsfjörð í Norður-Ísafjarðarsýslu, sonur Elínar Hannibalsdóttur og Valdimars Jónssonar bónda þar, en hann fæddist að Eyri í Ingólfsfirði í Strandasýslu.

Finnbogi Rútur var í hópi 10 barna foreldra sinna. Fjögur létust í æsku, en sex náðu fulltíða aldri. Á lífi eru Hannibal, fyrrum alþingismaður og ráðherra, Guðrún, ljósmóðir, og Sigríður, fyrrum ritari hjá Landssíma Íslands á Ísafirði og síðar í Reykjavík.

Ég hafði nokkur kynni af Sigríði, þegar ég starfaði í ÚtvegsbankaÍslands á Ísafirði 1935 og eftir að hún kom til Reykjavíkur. Systir mín starfaði hjá Landssímanum í Hafnarfirði. Milli þeirra, Sigríðar og Sólveigar, var ávallt trygg vinátta og ánægjulegt samstarf á símalínu.

Sigríður var alkunn fyrir dugnað sinn og þróttmikil störf í þágu menningarmála Ísfirðinga í heimabyggð og hélt því forystustarfi áfram fyrir ungmenni á Ísafirði, eftir að hún fluttist á höfuðborgarsvæðið.

Finnbogi Rútur var strax í æsku góðum gáfum gæddur og efni í afburða námsmann og fór það ekki leynt þar vestra. Hann var talinn jafnvígur hvar á vegi, er hann kynniað hasla sér námsbraut.

Á mannmörgu heimili, í foreldrahúsum, var oft þröngt í búi, og námsstyrkir eða lánafyrirgreiðsla óþekkt í þá tíð. Var mér sagt að í hópi þeirra, er gengust fyrir að styrkja Finnboga Rút til náms, væri Sigurjón Jónsson, bankastjóri Landsbankans á Ísafirði, og fleiri ágætismenn þar í bæ.

Finnbogi Rútur lagði stund á al þjóðarétt og nam í þeim fræðum í París, Genf, Berlín og Róm.

Eftir að Finnbogi Rútur kom heim frá námi 1933, varð hann ritstjóri Alþýðublaðsins og gerbreytti íslenzkri blaðamennsku frá ævagömlu formi til nýtízku sniðs og stóð næstum í sporum Morgunblaðsins að útbreiðslu og athygli.

Hann gerðist einnig á þessumárum framkvæmdastjóri bókaútgáfu Menningar- og fræðslusambands alþýðu, sem átti miklu gengi og vinsældum að fagna um áraraðir.

Finnbogi Rútur var einn af stofnendum Prentsmiðjunnar Odda, ásamt nokkrum ungum prenturum í Ísafoldarprentsmiðju. Síðar eignaðist ég hlut Finnboga, um tíma, en þetta fyrirtæki er nú hið stærsta í sinni atvinnugrein.

Finnbogi Rútur var leigjandi hjá Guðrúnu Ármannsdóttur, ekkju Jakobs Bjarnasonar er fórst með togaranum "Skúla fógeta", á Skólavörðustíg 23 eftir heimkomuna frá námi 1933. Þar kynntist hann heimasætunni, Huldu Dóru. Þau vígðust í hjónaband 16. apríl 1938.

Frá Reykjavík fluttust þau í Kópavog að Marbakka við Fossvog 1940, og voru meðal landnema í Kópavogsbyggð, sem er nú annar stærsti byggðarkjarni landsins. Þarvar heimili Huldu og Finnboga til hinztu samverustunda.

Finnbogi eignaðist dóttur, áðuren hann gekk í hjónaband, með Sigríði Guðjónsdóttur, systur Friðriks Guðjónssonar útgerðarmanns á Siglufirði. Heitir hún Auður og hefir starfað í sendiráði Íslands í Osló, nær fjóra áratugi. Börn þeirra Huldu og Finnboga eru Elín fædd 1937, giftist Erni Erlendssyni, þau skildu. Seinni mann sinn, Guðmund Svein Jónsson, verkfræðing, missti hún. Nú gift Sveini H. Valdimarssyni, lögmanni; Gunnar fæddist 1938, ókvæntur og barnlaus; Guðrún fæddist 1940, giftist lækni frá Palestínu, sem starfar í Nancy, áður á Íslandi. Þau skildu; Sigrún fæddist 1943, gift Styrmi Gunnarssyni, ritstjóra Morgunblaðsins; Hulda fæddist 1948, gift Smára Sigurðssyni, rannsóknarlögreglumanni, sem starfar í París.

Barnabörn og barnabarnabörn þeirra hjóna, Huldu og Finnboga er fjölmennur og glæsilegur hópur ungmenna.

Finnbogi Rútur var kjörinn fyrsti oddviti í Kópavogshreppi 1948 til 1955 að Kópavogshreppur fékkkaupstaðarréttindi og var hann þá kjörinn fyrsti bæjarstjóri Kópavogs til ársins 1957, að hann var ráðinn bankastjóri Útvegsbanka Íslands, er þá var með lögum frá Alþingi gerður að ríkisbanka 29. maí 1957. Finnbogi Rútur var bankastjóri í Útvegsbanka Íslands til 1. desember 1972.

Hann átti sæti í útvarpsráði 1939-1945, í stjórn byggingasjóðs kaupstaða og kauptúna og verkamanna 1957-1967.

Finnbogi Rútur var alþingismaður í 14 ár. Landskjörinn 1949-1959 og þingmaður Reyknesinga 19591963.

Finnbogi Rútur var maður málefna en ekki málskrafs. Hann átti þátt í, ásamt Ólafi Thors, að fellaniður daglega framboðsfundi fyrir hverjar kosningar, og leggja þess í stað valið í hendur kjósenda.

Fyrstu kynni mín af Finnboga Rút voru allmörgum árum áður en hann varð bankastjóri í Útvegsbankanum. Hann var þá bæjarstjóri í Kópavogi. Starfsmannafélag Út vegsbankans hafði þá keypt fyrirnokkrum árum landareign í Lækjarbotnum, sem var eignarlóð. Fagurt var þar og gróðursælt, en göngu troðningar í stað akstursvega, rafmagnslaust og neyzluvatn af skornum skammti. Lönd Lækjarbotna og Kópavogs lágu saman á löngum landamörkum.

Ég fór á fund bæjarstjórans í Kópavogi, Finnboga Rúts Valdimarssonar, og óskaði nágranna samstarfs í ýmsum framfaraverk efnum til hagsbóta báðum aðilum. Finnbogi Rútur tók mér af mikilli ljúfmennsku, sem ég síðar átti eftirað reyna að var ríkur þáttur í framkomu hans, og fyrirgreiðslu þegar vandamál voru á dagskrá. Kvaðst Finnbogi Rútur fús til að koma til fundar við Lækjarbotnanefnd í fé lagsheimili okkar næsta sunnudag, og með honum kæmi byggingarfulltrúi Kópavogs, Einar Kristjánsson. Komu þeir félagar til móts við okkur eins og um var samið. Landamerkin voru könnuð og ákveðið að efna til frekara samstarfs í framtíðinni, báðum aðilum til hagsbóta. Um hádegisbil sýndum við þeim Finnboga og Einari húsakynni fé lagsins í Lækjarbotnum, en með í förinni var Þormóður Ögmundsson, lögfræðingur Útvegsbankans. Hjálmar Bjarnason, fyrrverandi bankafulltrúi, og fyrri eiginkona hans, Elísabet, dvöldu á þessum tíma í bústaðnum, ásamt börnum og barnabörnum. Fjölmenni var þann dag í sveitinni eins og endranær og veðurblíða í bakandi sólarhita. Gestum var tekið opnum örmum, veitt af gestrisni og rætt um málefni og framtíð bústaðarins og fleira.

Eftir komu Finnboga Rúts fyrsta sinni að Lækjarbotnum, sagði Elísabet kona Hjálmars við mig: "Mikið er bæjarstjórinn í Kópavogi elskulegur og góðviljaður í okkar garð, svo sér maður skammargreinar um hann í blöðunum. Maður á ekki að lesa dagblöðin."

Eftir komu Finnboga Rúts í Lækjarbotna, fóru margs konar framkvæmdir í gang. Gunnar Thoroddsen, borgarstjóri, lét leggja rafmagnslínu frá Soginu í Félagsheimilið. Borað var fyrir vatnsæð frá Gvendarbrunnum og létu þá Lækjarbotnar Kópaseli, dagheimili Kópavogskaupstaðar, neyzluvatn úr brunni Lækjarbotna í té fyrir fasteignagjöld.

Finnbogi Rútur átti síðar eftirað vera þátttakandi með okkur á vatnshátíð og ljósahátíð í Lækjarbotnum, þegar komu vatns og ljóss var fagnað á fögrum haustdegi.

Á kveðjustund kalla fram liðnir dagar bjartar og fagrar endurminningar um mætan dreng, sem lokið hefir löngu og fögru dagsverki í þágu alþjóðar og bæjarfélags á bernskuárum.

Finnbogi Rútur var vitmaður mikill, virtur, skjótur til ákvörðunartöku og úrræðagóður á öllum sviðum mannlegs máttar. Hann var mikilvirkur og mætur bankastjóri, sem öllu samstarfsfólki hans í bankanum þótti vænt um og saknar hans með einlægu þakklæti og hjartahlýju.

Ég votta eiginkonu, ástvinum og öllum aðstandendum innilega hluttekningu og samúð.

Adolf Björnsson

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.