Þingkosningarnar í Sovétríkjunum: Sovéskir ritstjórar kallaðir á fund Gorbatsjovs Fréttaflutningur flokksblaða vekur furðu Moskvu. Reuter. MÍKHAÍL S.

Þingkosningarnar í Sovétríkjunum: Sovéskir ritstjórar kallaðir á fund Gorbatsjovs Fréttaflutningur flokksblaða vekur furðu Moskvu. Reuter.

MÍKHAÍL S. Gorbatsjov, aðalritari sovéska kommúnistaflokksins, kallaði í gær ritstjóra blaða og tímarita á sinn fund til að ræðaniðurstöður þingkosninganna í Sovétríkjunum á sunnudag. Búist er við þvíað úrslit í öllum lýðveldum Sovétríkjanna verði birt í næstu viku en fjöldi háttsettra embættismanna náði ekki kjöri í þremur fjölmennustu borgum Sovétríkjanna.

Sovéskir blaðamenn sem fréttaritari Reuters-fréttastofunnar ræddi við í Moskvu í gær sögðu tilgang fundarins vafalítið þann að ræða hvernig túlka bæri niðurstöður kosninganna en á Vesturlöndum er almennt litið svo á að þær hafi verið áfall fyrir kommúnistaflokkinn.

Greinilegt var á sovéskum dagblöðum í gær að ráðamenn höfðu enn ekki ákveðið hvernig skýra bæri frá úrslitunum. Þannig skýrði flokksmálgagnið Pravda ekki frá þvíað þrír leiðtogar flokksins í Leníngrad hefðu ekki náð kjöri en sú frétt barst til Vesturlanda á mánudag. Hins vegar birti blaðið ítarlegt viðtal við Ívan nokkurn Díjakov, sem var í framboði fyrir kommúnistaflokkinn í borginni Astrakhan og hlaut að sögn blaðsins 96 prósent greiddra atkvæða.

Vikuritið Moskvu-fréttir, sem þykir umbótasinnað, minntist ekki á afhroð flokksleiðtoga víða í Sovétríkjunum en skýrði hins vegar frá því að Júrí Solovjov, flokksleiðtogi í Leníngrad og fulltrúi í stjórnmálaráði kommúnistaflokksins, hefði ekki náð kjöri þó svo hann hefði verið einn í framboði til fulltrúaþingsins nýja. Kvöldblaðið Vétsjerníj Leníngrad sagði í frétt að 130.000 kjósendur hefðu strikað nafn Solov jovs út á kjörseðlinum en fréttinni fylgdi að hann hefði fengið 110.000 atkvæði. Þar eð Solovjov fékk ekki tilskilinn meirihluta atkvæða verður kosið að nýju í kjördæmi hans en lögum samkvæmt verður hann ekki í framboði.

Í gær hafði ekkert málgagna stjórnvalda tjáð sig um stórsigur umbótasinnans Boris Jeltsíns í Moskvu, en honum var vikið úr stjórnmálaráði flokksins árið 1987. Ekki var skýrt frá sigri Jeltsíns í sjónvarpsfréttum og vakti það raunar athygli erlendra fréttamanna í Moskvu að í kvöldfréttatíma sjónvarpsins á mánudag voru einungis fjórar mínútur lagðar undir kosningarnar en þá þegar var ljóst að úrslitin yrðu óvænt.

Reuter